06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg skal ekki lengja umr. Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) þótti koma fram þrái í mjer, að vera að halda þessu fram. Hann er jafnþrár á sinni skoðun. Hæstv. atvrh. sagði, að þetta smáatriði væri í gildandi lögum. Hv. 1. landsk. er búinn að tala um, hversu mikið smáatriði þetta er. Það varðar meira en helming þjóðarinnar. Hæstv. atvrh. hefir að mínu áliti breytt sumu í þessu frv., sem hefði ekki átt að vera lausara fyrir en þetta. Þá sagði hæstv. atvrh., og hv. 1. þm. Rang. (EP) tók í sama streng, að það væri athugavert fyrir deildina að tefja svona fyrir málinu. En svo koma skilaboð úr Nd., að við eigum ekki að vera að hugsa um þetta. Hvað vill Ed. vera að skifta sjer af þessu, ef Nd. er á móti? Það þreyta mig svona skilaboð. (Atvrh. MG: Hver kom með þau skilaboð?). Hv. deildarmenn kannast við þetta. Það er heimska að halda því fram, að meira en helmingur þjóðarinnar þurfi ekki að hafa skyldur samfara rjettindunum, með öðrum forsendum en þeim, að hann sje ekki fær um að starfa.

Mig varðar hreint ekkert um, hvað hæstv. atvrh. hefir talað við konur um þetta, nje hvað þær hafa sagt. Hæstv. atvrh. fer líklega klókindalega að, þegar hann talar við konur. En mig varðar ekkert um, hvað konur yfirleitt segja. Þær hafa rjettinn, og þá eiga þær að hafa skyldurnar líka.

Hv. 1. þm. Rang. var að finna að því, að jeg hefði ekki skrifað undir nál. með fyrirvara. Það er rjett, en jeg fór ekki á bak við meðnefndarmenn mína með það, að jeg mundi ganga lengra, ef svo bæri undir, þegar til deildarinnar kæmi.

Það var svo sem auðheyrt, að sá hv. þm. (EP) var kominn í stólinn, þegar hann var að tala um, að konur væru teknar frá börnunum og þau skilin eftir forsvarslaus. Hann talaði svo, sem hreppsnefndarstarfið yrði aðalstarf kvennanna. En mjer þótti það vanta á hjá prófastinum, að hann vorkendi ekki karlmönnunum. Þeir eru þó feður þeirra forsvarslausu. Ræðumaður (EP) fór um það hjartnæmum orðum, að konur yrðu reknar nauðugar í hreppsnefnd. Auðvitað kæmi það fyrir, að kona, sem vildi síður fara, yrði að gera það. Reynslan hefir orðið sú, að af því að konur hafa ekki verið skyldugar, hafa þær ekki viljað gefa kost á sjer, þótt þeim væri það annars ekkert nauðugt, af því að þeim hefir fundist það óviðkunnanlegt, og jafnvel sýna framhleypni. Það má geta nærri, hvort hæstv. atvrh. og hv. 1. þm. Rang. gæfu þeim ekki hornauga og hvort þeir myndu tala mikið við þær einslega, ef þær tækju það upp hjá sjer upp úr þurru að fara að gefa kost á sjer.

Jeg tek það ekki nærri mjer og hefi enga samvisku út af því, hve langur tími hefir farið í þetta mál, og hika ekki við að fylgja brtt., hvernig svo sem með málið fer. Væri þó slæmt, ef það gæti ekki orðið að lögum nú, þó ósjeð sje um, hve mikið því liggur á, meðan frv. um útsvörin er ekki lengra komið.