06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg var ekki viðstödd, þegar hv. 1. þm. Rang. (EP) byrjaði ræðu sína. En jeg heyrði, að aðalatriðið, sem hann dvaldi lengst við, var þetta: Hve illa það kæmi sjer fyrir eiginmann, heimili og börn, þegar einyrkja kona þyrfti að vera fjarverandi frá heimili sínu til þess að mæta sem fulltrúi í einhverri þeirra nefnda, sem hjer um ræðir. Jeg skal játa, að þetta er mannúðlega mælt, og það er rjett, að slíkt gæti komið fyrir. En það eru fleiri atriði, sem þessu eru hliðstæð og sem draga þyrfti fram í dagsljósið. Það mætti draga upp ýmsar myndir úr lífi kvenþjóðarinnar í þessu sambandi. Jeg vil benda á það, að sama hættan vofir yfir einyrkjaheimili, þegar eiginmaðurinn þarf að vera fjarstaddur vegna fundarhalda og annarar opinberrar starfsemi, því að þá þarf konan að gegna hans verkum, t. d. skepnuhirðingu o. s. frv. Þarf hún þá að bæta á sig allerfiðum störfum, en þetta hliðstæða dæmi, sem mun vera mjög algengt, láðist hv. þm. alveg að vorkenna einyrkjakonunni.

Jeg er ekki með þessu að lýsa yfir því, að jeg vilji beinlínis hlífa karlmönnunum. En jeg vil gæta jafnrjettis.

Þá kem jeg að öðru atriðinu, sem hv. þdm. hefir greint mjög á um, að með þessu ákvæði sje verið að þröngva konum í þessar nefndir. Það hefir nú verið tekið fram, að það kemur sjaldan fyrir, að karlmönnum sje þröngvað í þær, og því síður yrði það gert við konur, þar eð reynsla undanfarinna ára virðist frekar benda til þess, að karlmenn vilji sem mest útiloka konur frá opinberum störfum. Þá skildi hv. þm. ekki, hvaða vantraust felst í því fyrir konur að vera undanþegnar þessum skyldum. Hann getur hvorki nje vill skilja það, að það felast aukin rjettindi í hinu, að vera ekki undanþegnar þessum skyldum. Það, sem sjerstaklega virðist vaka fyrir hv. þm., er þetta: að hann vill ekki, að heimilisfaðirinn missi neitt af umhyggju þeirri og góðu atlæti, sem konur veita mönnum sínum og heimilisfólki.

Þá sagði hv. 1. þm. Rang., að rjettmætt væri, að sextugir karlar væru undanþegnir opinberum störfum í þágu sveita og kaupstaða og að það væri vel sambærilegt, að konur, sem stæði illa á fyrir, væru líka undanþegnar þessari skyldukvöð. Mjer skilst nú, að þessi 60 ára undanþága nái eftir sem áður bæði til karla og kvenna, og sje því ekki heppilegt að taka það til samanburðar.

Þessi „gríma“, sem hjer hefir verið sett upp, hefir nú verið tekin ofan með því að gefa í skyn, að konur yngri en sextugar sjeu og geti verið óhæfar. Jeg hefði þurft að undirstrika það enn betur, hvílíkt vantraust konum er sýnt með þessari undanþágu.

Jeg vil taka undir það með hv. þm. A.-Húnv., að mjer finst það óviðfeldið að fá það ítrekað hjer í þessari hv. deild, að vegna þess að þetta mái sje komið aftur frá hv. Nd. og hún sje ófús til breytinga á frv., þá megi engu breyta nú við þessa umr. hjer í deildinni. Jeg hefi áður þurft að mótmæla þessu athæfi hv. Nd. í svipuðu tilfelli sem þessu, og vil leyfa mjer að mótmæla því enn. Jeg veit ekki til hvers verið er að hafa tvær deildir, ef Ed. á svo ekki að hafa neinn íhlutunarrjett um málin. Þetta frv. getur orðið að lögum, þótt það taki þeim breytingum, sem farið er fram á, og fari þar af leiðandi til hv. Nd. Jeg sje ekki eftir þeim tíma, sem til þess hefir gengið, og þótt það hafi tafist hjer nokkuð, getur það enn vel náð samþykki Nd.

Þá sagði hv. þm., að konur hefðu lagt ofurkapp á þetta mál. Jeg get vel tekið á mig ábyrgð á þessu ofurkappi og er þess albúin að taka við ámælum fyrir það.

Jeg vil taka í sama streng og hv. þm. A.-Húnv. og segja það, að megi konur samkvæmt lögum skorast undan skyldustörfum þeim, sem hjer um ræðir, myndi það verða til þess, að einmitt hæfustu konurnar, sem best gætu orðið að liði, kynokuðu sjer við að bjóða fram starf sitt. En hefðu þær skyldur, myndu þær ekki gera það. Og það er ósjeð, hvort starf þeirra gæti ekki orðið alveg sambærilegt við störf karlmannanna, sem hafa tekið við þessum störfum af því, að þeim bar skylda til þess.

Það hefir verið sagt, að þetta ákvæði, sem brtt. mín fer fram á að fella niður, sje í gildandi lögum. Það er rjett. Væri það ekki þar, væri ástæðulaust að standa hjer og vilja fella þetta ákvæði niður. — Ætla jeg svo ekki að fjölyrða meira um þetta.