06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. þm. A.-Húnv. talaði um skyldur og rjettindi og sagði, að það væri nauðsynlegt, að það hvorttveggja fylgdist að. En þetta er ekki rjett, og til þess að sýna þetta þarf ekki annað en að minna á t. d. heiðursfjelaga, heiðursborgara o. s. frv. Þeir hafa rjettindin, en ekki skyldurnar. Enginn mun nú halda því fram, að heiðursborgarar sjeu minna virtir en aðrir borgarar. (GuðmÓ: Það vantar þá ákvæði í frv., um að þær skuli vera heiðursborgarar).

Annars er hv. þm. (GuðmÓ) ekki sem sterkastur á svellinu; hann hefir sjálfur komið með brtt. um, að giftar konur megi skorast undan kosningu. Og eftir því, sem honum nú farast orð, þá hefir hann framið ranglæti gagnvart öllum giftum konum landsins. Verður þá ekki mikill munur á því, sem hann hefir gengið inn á, og því, sem stendur í frv.

Jeg sagði, að hv. 1. landsk. vildi ekki, að kvennaskólinn væri ríkisskóli, en jeg sagði ekkert um það, að hann vildi ekki, að kvenþjóðin hefði sína skóla. (SE: Þetta er sósíalistapólitík). Nei, langt frá.

Jeg get þakkað hv. 4. landsk. (IHB) fyrir það, að hún áleit, að frv. gæti orðið að lögum á þessu þingi, því að jeg skil það svo, að hún ætli að beygja sig fyrir atkvgr. þeirri, sem að lokum væntanlega fer fram um málið í Sþ., og greiða þá atkvæði með frv.