10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Árni Jónsson:

Jeg hefi ekki fyr talað um það atriði, sem hjer er deilt um, en jeg hefi altaf greitt atkvæði með því, að kvenfólk fengi að skorast undan kosningum til opinberra starfa. Það liggja nú fyrir þinginu, eða hafa legið, ýms frv., þar sem þetta hefir verið tekið til greina. Svo er til dæmis í frv. um kynbætur hesta, sem nú er orðið að lögum, að eftir því mega konur skorast undan því að vera í kynbótanefndum. Aftur á móti var í frv., sem afgreitt var hjer fyrir fáum dögum, um fræðslu barna, ákvæði um það, að konur mættu ekki skorast undan kosningu í fræðslunefndir og skólanefndir. Þriðja frv., um útsvör, sem farið er hjeðan til Ed. og er enn óútrætt þar, mælti svo fyrir, að konur mættu skorast undan kosningum í niðurjöfnunarnefndir. Á þessu er því mikill glundroði í þinginu og lagasmíð þess.

Mjer virðist hv. Ed. hafa sýnt mikla þrákelkni í þessu máli, þvert á móti vilja mikils meiri hluta þm. í þessari hv. deild. Jeg skal geta þess í sambandi við frv. um hrossakynbætur, að mig minnir, að það væri samþykt hjer með 22 atkvæðum, að konur mættu skorast undan kosningu í kynbótanefndir, og í útsvarsmálinu var samþykt með 16 atkv. að láta þær hafa samskonar rjett.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) var að tala um það, hvers vegna ætti að veita konum þessa undanþágu, þar sem karlmenn mættu ekki skorast undan kosningum, og gat þess, sem rjett er, að slík skylda væri þeim á herðar lögð til þess, að hægt væri að ná hæfustu mönnunum í opinber störf. Og svo sagði hann, að þetta sama ætti við um konur. En við, sem hinu höldum fram, lítum þannig á, að aðalhlutverk konunnar sje innan heimilanna. og því mikilhæfari, sem konurnar eru, því verra sje fyrir heimilin að missa þær út í opinbert vafstur. Og það verður hver maður að viðurkenna, að það stendur alt öðruvísi á um konur en karla að þessu leyti. Það má þó vera, að í kaupstöðum sje munurinn ekki geysimikill, en í sveitunum horfir alt öðruvísi við. Og það er himinhrópandi ranglæti að krefjast þess af konum, sem eiga stóran barnahóp, að þær sjeu skyldugar til þess að vera á burtu frá heimilum sínum svo og svo lengi.

Að þetta sje afturkippur í kvenfrelsismálinu, að veita konum þessi rjettindi, eru fullkomin öfugmæli. Við viljum láta konur njóta fulls jafnrjettis við karlmenn, og við viljum meira. Við viljum, að þær hafi þessi rjettindi fram yfir okkur. Við erum því hinir sönnu kvenrjettindamenn, en hinir eiga alt annað nafn skilið. Meiri hluta kvenna er stórlega misboðið með því að taka þau rjettindi af þeim, sem þær nú hafa að lögum. Og það er algerlega fjarstætt því insta og besta í kveneðlinu, að þær sjeu að vasast í nefndum. En við viljum unna þeim alls þess rjettar, er þær hafa haft.

Út af umr. um þetta mál dettur mjer í hug samtal, sem jeg átti einu sinni við varpeiganda. Jeg spurði hann að því, hvort ekki væri erfitt að verja varpið, og kvað hann svo vera. Jeg kvaðst trúa því, þar sem svo mikið væri af skörfum og svartbökum þar í nágrepninu. Hann sagði, að þeir væru ekki verstir. Verstur væri geldfuglinn, því að hann æddi yfir varpið og hrekti kollurnar úr hreiðrunum.

Jeg vil nú segja það, að fylgismenn þessa ákvæðis hafa tekið að sjer hlutverk geldfuglsins. Þeir vilja ólmir hrekja konurnar úr hreiðrunum — heimilum þeirra. Og fyrir það eru þeir verri en nokkrir ránfuglar.

Fyrir nokkrum árum var í „Lögrjettu“ sagt frá fundi, sem haldinn hafði verið hjer í Reykjavík. Á þeim fundi hafði dr. Guðmundur Finnbogason haldið ræðu og komist vel að orði, eins og svo oft endranær. Hann talaði um hugsjónir og sagði, að þær væru eins góðar fyrir því, þótt þeim yrði ekki náð. Og því til skýringar sagði hann, að pólstjarnan væri eins góð til að stýra eftir, þótt enginn bátur hefði rekið stefni sitt á hana. En jeg er hræddur um, að háttv. þm., sem eru á móti okkur í þessu máli, hafi rekið bát sinn svo hastarlega á ímyndaða hugsjón, að það hafi komið að honum allalvarlegur leki. Og ef hv. deild slakar nú til við þá, er það aðeins gert eftir þeirri gömlu setningu, að sá verður að vægja, sem vitið hefir meira, og það er þá vegna þess, að menn vilja ekki stofna frv. sjálfu í tvísýnu. En jeg skal berjast fyrir því með oddi og egg á næstu þingum, ef jeg á þar þá sæti, að ákvæðin um undanþágu kvenna verði tekin upp í önnur frumvörp sambærileg. Og jeg held, að konur hjer í Reykjavík, sem hafa verið að berjast fyrir rjettindamissi kvenna, fái lítið þakklæti kynsystra sinna úti um land fyrir það.