02.03.1926
Neðri deild: 18. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

126. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þess var getið í athugasemdunum við fjárlagafrv. fyrir 1927, að stjórnin mundi leggja fyrir Alþingi frv. í þá átt, sem hjer liggur fyrir. Jeg finn í rauninni enga ástæðu til að segja mikið um þetta frv. nú við 1. umr. Það mun lítið hægt að segja alment um málið annað en það, sem áður er getið, að ástæðurnar fyrir því, að frv. er fram borið, eru tekjuþörf ríkissjóðs, þar sem núgildandi lög um þetta efni falla úr gildi í lok yfirstandandi árs. Tekjur af verðtolli eru í stjfrv. til fjárl. fyrir árið 1927 áætlaðar 850 þús. kr.; og eftir þeim útreikningum, sem hjer liggja fyrir í greinargerð þessa frv., mun þó vera fremur hæpið að treysta því, að sú upphæð náist, svo að standi heima við frv. eins og það nú er. Að svona er frá því gengið, kemur til af því, að stjórnin hefir með engu móti viljað stinga upp á hærri verðtolli eða á fleiri vörum heldur en sýnist alveg óhjákvæmilegt til þess að ná sem næst þeirri upphæð, sem tekin er upp í fjárlagafrv.

Að öðru leyti er það svo um slíka löggjöf, að það, sem skoðanirnar verða mest skiftar um, eru hin einstöku atriði. En það liggur ekki fyrir að ræða þau hjer við 1. umr., og þess vegna leiði jeg það hjá mjer, en leyfi mjer að leggja til, að frv. verði vísað til fjhn.umr. lokinni.