26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

126. mál, verðtollur

Frsm. (Magnús Jónsson):

Jeg þarf svo sem engu við það að bæta, sem sagt er í nál. á þskj. 408 frá fjhn. Nefndin er óklofin í málinu, en gerir aðeins 2 breytingar, sem jeg verð að vekja athygli á, og standa þær í sambandi hvor við aðra. Önnur breytingin fer fram á lækkun tollsins úr 12½% niður í 10%, en hin fer í þá átt að bæta ríkissjóði þann halla, sem hann bíður við það, með því að hætta að undanskilja þær vefnaðarvörur, sem hingað til hafa verið undanskildar verðtolli. Nefndinni þykir betra að koma tollinum niður í 10% en að hafa þessar tegundir undanskildar, enda munu altaf vera nokkrir örðugleikar á því í framkvæmdinni að hafa þessar tegundir undanskildar. Ef lag ætti að vera á eftirlitinu með því, yrði að opna alla kassa, sem vefnaðarvörur eru sendar í, ef tegund er ekki gefin upp, og má nærri geta, að erfitt muni að framkvæmd þetta svo, að ekki sigli fleira í skjóli þessara ódýru tegunda, og slíkt vill nefndin ekki vernda. Hinsvegar má segja, að nú, þegar tollurinn er kominn niður í 10%, sje hann ekki tilfinnanlegur. Alt annað var, þó undanþágan væri veitt meðan almenni tollurinn var 20%.

Þá hefir nefndin lagt til að taka upp undir staflið B. viðhafnarlausan skófatnað úr skinni og gúmmí, en hann hafði af vangá fallið niður úr stjfrv., eftir upplýsingum, sem nefndin hefir fengið hjá hæstv. stjórn. Hinar undanþágurnar, sem nefndin hefir bætt við, eru: Myndamót, nauðsynjar við listmálningu og skólanauðsynjar. Hvað myndamótin snertir, er það í samræmi við annað, sem að bókaútgáfu lýtur og áður var undanþegið verðtolli. Um nauðsynjar við listmálningu er það að segja, að það er nokkuð stór liður fyrir málara, ljereftakaupin. Þeir mála oft hverja myndina ofan á aðra vegna þess, hve ljereftið er dýrt. Það eru heldur ekki neinir efnamenn, sem hjer eiga hlut að máli, og ekki arðberandi atvinna, sem þeir stunda. Þriðja undantekningin er skólanauðsynjar, svo sem skólatöskur, og virðist það alveg auðsætt, að slíkt eigi ekki að tolla.

Jeg hefi svo ekki meira að segja af hálfu nefndarinnar, en vænti þess, að frv. þetta fái greiða afgreiðslu hjá hv. deild.