26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

126. mál, verðtollur

Frsm. (Magnús Jónsson):

Jeg skal nú ekki lengja mikið umræðurnar. En mjer láðist að geta þess áðan, að fjhn. var ekki á einu máli um það, hve hátt skyldi setja tollinn á kaffibætisefni, sem talið er undir staflið A. Nokkrir nefndarmenn vildu setja það undir hinn venjulega tollflokk, og býst jeg við brtt. frá þeim um þetta efni við 3. umr. Jeg get þessa vegna þess, að þeir hafa þrátt fyrir þetta skrifað undir nál. fyrirvaralaust. Þetta kaffibætisefni var sett undir þennan tollflokk, vegna þess, að innlendi kaffibætirinn er laus við að bera öll slík gjöld og því fær um að bera 20% toll af hráefnum þeim, sem í hann fara, og getur þó staðist samkepni við innfluttan kaffibæti. Það gæti og rýrt innflutningstoll af kaffibæti, ef innlendi kaffibætirinn stæði óþarflega vel að vígi.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) gerði grein fyrir sínum fyrirvara, en mjer finst, að ummæli hans um að ljetta af tolli á kornvöru frekar eiga heima undir umr. um næsta mál á dagskránni, vörutollinn. Það er rjett, að það hefði verið gott að geta beðið eftir því að sjá meðferð fjárlaganna, en það hefði bara orðið til þess, að ekki hefði verið hægt að afgreiða málið. Það er kunnugt, að ekki sjest fyrir endann á fjárlögunum fyr en síðustu daga þingsins.

Það er rjett, sem hæstv. fjrh. gat um, að hugmyndin að færa tollprósentuna niður í 10% og taka með þessar ódýrari vefnaðarvörur er tekin beint upp úr stjfrv. Nefndin tók þetta til athugunar og fjellst á það. Annars hefir hæstv. ráðh. mælt svo fyrir þessu, að óþarfi er fyrir mig að fara nánar út í það. Það er rjett hjá hæstv. ráðherra, að skólanauðsynjar er nokkuð óákveðið hugtak. Í því felst ýmislegt smávegis, svo sem skólatöskur o. fl. þ. h., sem auðsýnilegt er, að ekki ber að tolla.

Þá fór hv. 2. þm. Reykv. (JBald) að ræða málið alment eins og við 1. umr. væri. Hann kvartaði undan því, að þessi tollur væri ósanngjarn, en annars hafði hann lítið að athuga við einstakar greinar. Hann áleit það til hins verra að taka einstakar vefnaðarvörutegundir undir tollinn. En það kom nú skýrt fram í ræðu hæstv. fjrh., að þetta kemur ekki fram á verði þessara vörutegunda. Jeg hefi spurt menn, sem kunnugir eru, hvort þeir hafi orðið varir við, að þessar vörutegundir hafi verið nokkuð óeðlilega ódýrar vegna undanþágunnar frá tollinum, en þeir kveðast ekki hafa orðið varir við það. Ástæðan fyrir þessu er sú, að tollinum er dreift niður á allar vörutegundirnar. Það er í rauninni ómögulegt fyrir verslanir að fara öðruvísi að. Hæstv. fjrh. hefir svarað því, að þetta væri brigðmælgi af þingsins hálfu gagnvart þjóðinni. Það mætti víst æðioft tala um brigðmælgi af þingsins hálfu, ef það ætti að vera þannig bundið. Hvernig væri það með útflutningsgjaldið og fleiri tolla og gjöld, sem sett eru til bráðabirgða, en þegar það sjest, að þau eru hentugri en margt annað, þá er þeim haldið. Þar sem sama nefndin mælir með því að halda verðtollinum, en fella niður tolla á öðrum vörutegundum, þá sýnir það, að hún telur verðtollinn sanngjarnari en suma aðra tolla. Það er alveg óhugsandi, að fyrra þing geti bundið hendur síðari þinga í þessu efni. Jeg er ekkert hissa á því, þótt hv. 2. þm. Reykv. (JBald) mæli á móti tollum yfirleitt af „principiellum“ ástæðum, en jeg er hissa á því, að hann skuli mæla á móti þessum tolli sjerstaklega, því að verðtollurinn hlýtur þó að vera næst hans grundvallarreglum. Hann kemur að nokkru leyti fram sem tekjuskattur. Þeir, sem kaupa dýrustu vöruna, borga þyngstan tollinn. Jeg held því, að úr því að háttv. 2. þm. Reykv. lifir undir þessu spilta þjóðfjelagsskipulagi, sem hefir tolla, þá ætti hann helst að mæla með verðtollinum.