28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

126. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi flutt brtt. við frv. til laga um verðtoll á nokkrum vörum, sem fer í þá átt, að þetta verði ekki algerlega gert að föstum skatti, þannig að það komi þó að minsta kosti til athugunar á næsta þingi, hvort rjett sje að framlengja lögin eða ekki. Að vísu er það svo, að hægt er að taka upp til breytinga hver þau lög, sem gilda í landinu, á hvaða þingi sem er, en það er þó heldur gert hægra, ef það liggur beinlínis fyrir á þann hátt, að það verði að gera það, og það mundi verða, ef brtt. mín um að lögin gildi til 1. maí 192 7 verður samþykt; það er að segja, ef þá er ekki álitið rjett að halda verðtollinum. Hinsvegar falla lögin úr gildi af sjálfu sjer, ef þá er ekki hreyft við þeim; en jeg vil ekki samþykkja, að því sje slegið endanlega föstu, að þessi verðtollur eigi að standa um aldur og æfi, af því að því var lofað á þinginu upphaflega, þegar lögin voru samþykt, að þau skyldu aðeins standa ákveðinn tíma, meðan verið var að ná sjerstökum tilgangi með þeim. Jeg hjelt, að þetta mundi nú ekki ganga svo vel, og vildi þess vegna gera nokkra tilraun til, að því yrði ekki slegið föstu, eða að minsta kosti, ef á að halda lögunum áfram, þá að það verði tekið til athugunar á næsta þingi aftur. Það getur verið, að þeir menn, sem þykir ríkissjóður ekki mega missa þessar tekjur, telji, að þessi brtt. mín eigi að falla. En ef menn vilja halda lögunum áfram, þá er hægur nærri að samþykkja lögin á næsta þingi og framlengja þau um eitthvert árabil. Jeg hefi sett tímatakmarkið til 1. maí 1927, til þess að það væri örugt, að þetta mál yrði til meðferðar á næsta þingi. Jeg hafði fyrst hugsað mjer 1. mars eða 1. apríl, en hvarf frá því, ef það kynni að þykja of þröngt. Jeg þykist nú vita, að hæstv. fjrh. muni kannske mótmæla þessari brtt., því að það mun vera hans hugmynd að gera þetta að föstum skatti, og þykist ekki geta samið fjárlagafrumvarp sitt á næsta hausti, nema hann hafi þetta og annað fast til að byggja á; en það álít jeg, að hæstv. ráðh. (JÞ) geti gert, því að það verður hann að gera út í bláinn með alla tekjustofna ríkisins, því að vel getur verið, að næsta þing breyti þeim meira eða minna.

Jeg vona, að hv. þm. geti fallist á slíka till. sem þessa, því að það er í rauninni ekki að breyta verðtollinum neitt, heldur aðeins til þess að koma í veg fyrir, að tollur þessi verði gerður að föstum tekjustofni og eigi að gilda til frambúðar.