28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

126. mál, verðtollur

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg þurfti aðeins að segja fáein orð, vegna þess að hv. frsm. nefndarinnar tók hart á brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Vegna þessara ummæla hv. frsm. vil jeg láta þess getið fyrir mitt leyti, að jeg er því ekki fylgjandi, að verðtollurinn verði nú framlengdur til frambúðar. Og þó að jeg beygi mig nú fyrir tekjuhalla fjárlaganna og greiði atkv. með frv., þá er þar í fólgin engin ánægja með verðtollinn, heldur er það vegna útlitsins um fjárhagsafkomu ríkissjóðs árið 1927.

Eins og hæstv. fjrh. (JÞ) tók fram, er það meiningarlaust að framlengja verðtollslögin vegna fjárlaganna fyrir 1927, en ætlast þó til að endurskoða lögin þegar á næsta þingi, eða í byrjun þess fjárhagsárs, sem fjárlögin eiga að gilda fyrir. Framlengingin ætti því að ná til 1928, og mun jeg greiða slíkri till. atkv.

Mitt erindi að þessu sinni var það að láta í ljós þá skoðun, að verðtollurinn hefir verið bráðabirgðatollur til þessa, og á að vera það, þó fjárhagurinn heimti að þessu sinni framlengingu.