29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

126. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Þess var að vænta, að hæstv. fjrh. legði á móti till. minni. Og þar sem hann lætur þess getið í aths. sínum við stjfrv., að hann vilji festa þennan toll til frambúðar, þá er það ekkert undarlegt, þótt hann mæli á móti þessari till. minni. Allir verða að játa, að það er komin mikil ringulreið á þessa tolllöggjöf. Það var settur gengisviðauki og verðtollunr 1924. Nú er búið að búta þetta alt og dreifa því af handahófi á ýmsar vörutegundir. Svo er altaf verið að krukka í vörutollinn. Þess vegna er full ástæða til þess að koma þessum tollum í fast kerfi, sem eiga að standa til frambúðar, og sú uppástunga, sem jeg kom fram með í gær, að skipa milliþinganefnd í þessi mál, er ekkert óheppileg til lausnar á þeim.

Það hafa farið fram handahófsbreytingar á þessum lögum. Annars ætla jeg ekki að fara að ræða hjer um vörutollinn. Jeg býst við að taka til máls um hann, þegar hann kemur til umr.

Út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að það væri ekkert aðalatriði í þessu máli, hvort lögin fjellu úr gildi 1. maí 1927 eða '28, þá vil jeg taka það fram, að ef aðaltill. mín finnur ekki náð fyrir augum hv. deildar, þá kemur varatill. til greina. En jeg kom með hana af því að einn maður úr fjhn. óskaði eftir því. Vænti jeg þess, að hún verði samþykt, því að jeg tel óhjákvæmilegt að taka málið til meðferðar á næsta þingi, ef nokkurt samræmi á að verða í þessari löggjöf.

Hv. þm. sagði, að það væru ekki svik við þjóðina að halda áfram með þennan verðtoll. Hann fann þeim orðum engan stað, en sagði, að það mætti finna í umr. á þingi 1924, að ætlunin væri, að verðtollur ætti að haldast framvegis. Það þarf nú ekki annað en að vitna í nafnið, „bráðabirgðaverðtollur“, til þess að sýna, að hann átti ekki að vera til frambúðar. Jeg álít það eitt nægilegt. Hinsvegar gátu einhver loðin ummæli hafa fallið um þetta, en það stendur samt óhrakið, að tollurinn var aðeins settur til bráðabirgða.

Verkefnið með þessari skattlagningu var fyrst og fremst það, að rjetta við tekjuhallann á fjárlögunum og í öðru lagi að greiða lausu skuldirnar. Þessu hvorutveggja hefir nú verið náð. Síðastliðið ár var meiri tekjuafgangur á fjárl. en nokkru sinni áður, og líklega meiri en nokkurt land í heimi hefir nokkru sinni haft í hlutfalli við fólksfjölda. Þetta kemur til af því, að þessir skattar hafa verið lagðir á, og svo hefir góðærið hjálpað til. En nú syrtir að, og þá er spurningin sú, hvort ríkið á ekki að láta niður falla þessa skatta, sem halda við dýrtíð í landinu og lama atvinnuvegina. En verði þeir ekki feldir niður, má ekki minna vera en að öll þessi löggjöf verði tekin til athugunar. Jeg álít, að næsta þing ætti að taka hana til gagngerðrar yfirvegunar. Samviska hv. þm. verður væntanlega betur vakandi þá en nú, því að það er næsta þing fyrir nýjar kosningar. Ef varatill. yrði samþykt, kæmi þessi löggjöf til athugunar 1928 og yrði til umræðu í kosningahríðinni.

Hefi jeg svo ekki meira að segja um þetta að sinni, en mælist til þess, að varatill. verði samþ., ef hin fellur.