29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

1. mál, fjárlög 1927

Þorleifur Jónsson:

Jeg skal ekki þreyta hv. deild með löngu máli. En jeg vil minna hv. deild á eina brtt., sem við háttv. þm. Mýr. (PÞ) flytjum á þskj. 297, XXI. Hún fer fram á, að bátastyrkurinn, sem hv. samgmn. hefir ákveðið 91 þús. kr., hækki um 1000 kr. Hv. samgmn. hefir lagt til, að bátastyrkurinn hækki úr 85 þús. kr., eins og áætlað var í stjfrv., í 91 þús. kr. En við förum fram á, að þessi upphæð verði enn hækkuð með tilliti til Hornafjarðar og Mýrasýslu. Samkvæmt nál. samgm. hafa verið áætlaðar 7 þús. kr. til Hornafjarðarbáts og 400 kr. til Mýrabáts.

Jeg ætla fyrst að taka til athugunar það, sem jeg hefi fram að færa viðvíkjandi Hornafjarðarbátnum. Undanfarin ár hefir tillagið til hans verið skorið svo við nögl, að ekki hefir orðið neitt verulegt gagn að bátnum. Þessi bátur hefir langt svæði, milli Hornafjarðar og Seyðisfjarðar, og sjór vondur og hættulegur utan fjarðanna, og þarf því góða fleytu til slíkra ferða, og er ekki auðhlaupið að því að fá slíkan bát um lengri tíma nema gegn hárri leigu. Hefir því reyndin orðið sú, að það hefir verið að heita má samgöngulaust yfir sumarið á þessu svæði.

Nú hefir hæstv. atvrh. (MG) ætlað þessum bát 8 þús. kr. í ár, og þar sem hv. samgmn. hefir lagt til, að tillagið verði 1 þús. kr. minna árið 1927, þá vil jeg lýsa megnri óánægju minni yfir þeim aðförum og vona, að hv. deild leiðrjetti þetta. Það má ekki minna vera en að við fáum 8–10 þús. kr., og má alls ekki eiga sjer stað, að afturför verði í okkar litlu samgöngum frá því, sem áætlað er í sumar. Nú höfum við farið fram á 1000 kr. hækkun til bátanna, með tilliti til þess, sem hv. þm. Mýr. hefir skýrt frá, að það sje hans ósk, að Mýrabáturinn verði jafnhár eins og Hvalfjarðarbáturinn, sem samkv. nál. samgmn. hafa verið áætlaðar 1000 kr., m. ö. o. að styrkurinn til Mýrabátsins hækki upp í 1000 kr.

Háttv. þm. Mýr. skýrði ennfremur frá því, að ef bátastyrkurinn verði hækkaður upp í 91 þús. kr., þá muni verða afgangs 700 kr., svo að það, ásamt þeim 1000 kr., sem við förum fram á, ætti að nægja til þess að gera okkur ánægða. Fengi þá Hornafjarðarbáturinn 1000 kr., en Mýrabáturinn 700 kr. í viðbót við það, sem þegar er áætlað.

Jeg skal ekki halda langa ræðu um þetta efni. Jeg hefi stilt kröfunum eins sanngjarnlega í hóf og frekast var unt og vona, að hv. deild vilji veita þessa litlu viðbót.

Hv. þm. Barð. (HK), vinur minn sagði, að það væri undarlegt, ef jeg væri á móti styrk til bátakaupa. Maður verður nú að játa, að þetta er alveg nýtt atriði; það hafa aldrei komið fram tillögur um það áður að veita styrk til þess að kaupa báta, og eftir því, sem hv. þm. Barð. tók í það, að landið keypti eða bygði strandferðaskip, þá hjelt jeg, að ekki þyrfti að búast við því, að hann yrði áfjáður í bátakaup, þótt þau annars geti verið þörf.

Hæstv. atvrh. hefir mælt með þessum styrk til bátakaupa, en á móti hækkuðum flóabátastyrk. Út af þessu vil jeg geta þess, að það er slæmt að lækka styrkinn, sem hv. samgmn. hefir ætlað til flóabátanna, og taka af honum til bátakaupa.

Mjer finst það líka óviðkunnanlegt, því að rekstrarstyrkirnir eru síst of háir, og jeg held, að alls ekki verði komist af með minni upphæð en þá, sem hv. samgmn. hefir tiltekið, að viðbættu því, sem við hv. þm. Mýr. viljum við auka. Það hafa sumir hv. þm. farið hörðum orðum um það, að fjvn. hafi ekki sjeð nauðsyn bátakaupanna. Jeg ætla ekki að fara að tala um þetta atriði nú, því að hv. frsm. (ÞórJ) mun víkja að því síðar. Þó vil jeg geta þess, að hv. samgmn. hafði ekki ráðfært sig við fjvn. um þetta atriði, sem var alveg nýtt fyrir nefndinni. (JAJ: Hv. form. fjvn. talar út í bláinn. Hann fjekk erindið fyrir hálfum mánuði eða meira). Jeg man ekki til, að það hafi legið fyrir nefndinni. Jeg get að vísu verið því velviljaður, að hækkaður verði styrkur til Skaftfellings, en þar sem um fleiri báta er að ræða, gat nefndin ekki mælt með því, að kröfum þeirra væri sint.

Jeg ætla svo ekki að tala frekar um þetta, en vil mælast til þess, að bátastyrkurinn verði ekki minkaður, heldur hækkaður, eins og við hv. þm. Mýr. förum fram á.