24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Ásgeir Ásgeirsson:

Vegna ummæla hæstv. fjrh. vildi jeg vekja athygli á, hvað meiri hl. bankanefndarinnar hefir lagt til um stofnun nýs einkabanka. Hann segir:

„Meiri hlutinn er þeirrar skoðunar, að sem allra fyrst þurfi að setja bankalög, sem geri mögulegt, að hjer komist á fót bráðlega einn eða fleiri nýir einkabankar.“

Skömmu áður í sama brjefi nefndarinnar til hæstv. fjrh. stendur:

„Meiri hl. telur æskilegt, að gefin verði sem fyrst almenn bankalög, eins og til eru í flestum löndum Norðurálfunnar, en að sjálfsögðu sniðin eftir þeim sjerstöku ástæðum, sem hjer á landi eru um bankamál.“

Jeg vildi vekja athygli á þessu, að meiri hl. bankanefndarinnar hefir lagt áherslu á, að þeir bankar, sem stofnaðir kynnu að verða hjer eftir, væru gefnir undir almenna bankalöggjöf.

Jeg segi ekkert að svo stöddu um þetta frv. Aðeins skal jeg benda á, að það, sem bankanefndin hefir sagt um þetta efni, felur ekki í sjer stuðning við frv. um sjerstök hlunnindi handa nýjum einkabanka, sem hjer kynni að verða settur á stofn.