24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg skal játa, að jeg varð ekki lítið hissa, þegar jeg sá þetta frv., og mjer hefir heyrst á mörgum þingmönnum, að það koma þeim á óvart. Mjer finst, að jeg og margir aðrir hafi ástæðu til að spyrja hæstv. fjrh., hvort hjer sje ekki eitthvað á bak við.

Það kom skýrt fram í ræðu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að meiri hl. bankanefndarinnar ætlaðist ekki til þess, að farið væri að tala um stofnun nýs einkabanka fyr en búið væri að samþykkja væntanlega bankalöggjöf. Tilefnið getur því ekki verið ummæli bankanefndarinnar.

Jeg vil leyfa mjer að spyrja hæstv. fjrh., hvort hjer sje ekki á bak við eitthvert sjerstakt tilefni, einhver sjerstök von um útlent fjármagn. Mjer finst óviðfeldið, ef fara á að veifa út í loftið sjerrjettindum til útlendra manna, öðrum eins og þessum. Saga Alþingis í þessu efni er ekki þannig, að æskilegt sje, að hún endurtaki sig.