24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg verð því miður að svara hv. þm. Str. (TrÞ) á þá leið, að hjer liggur ekkert á bak við af því í tægi, sem hann átti við. Jeg hefi engin tilboð fengið um erlent fjármagn nje nokkur haft á orði við mig að leggja fje í slíkt bankafyrirtæki.

En það er þó ekki alveg tilefnislaust, að frv. er komið fram. Jeg hefi áður lýst fjármagnsþörf atvinnuveganna, sem bankar okkar geta ekki fullnægt, af því að þeir eru veiklaðir af töpum undangenginna ára. Þetta er nóg tilefni. Hjer er fetað í þau spor, sem löggjafarvaldið taldi rjett að ganga fyrir tveimur árum. Hitt á jeg bágt með að skilja, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, að bak við ummæli bankanefndarinnar lægi vilji hennar eða fyrirmæli um, að ekki liði nema eitt ár þar til sett yrði ný bankalöggjöf.

Þegar talað er um þörf á banka, þá eru það þarfir atvinnulífsins, sem verið er að reyna að fullnægja. En þær þarfir fara ekkert eftir því, hvort lengri eða skemri tími líður þar til ný bankalöggjöf kemur. Jeg þykist því fara rjett með, þegar jeg vísa í álit meiri hl. bankanefndarinnar að því er snertir þörf á nýjum einkabanka.