29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

1. mál, fjárlög 1927

Björn Líndal:

Jeg er sammála hv. frsm. (ÞórJ) og hæstv. fjrh. (JÞ) um það, að fjárlagafrv. er nú að komast í óvænt efni. Það er ekki útlit fyrir annað en að talsvert mikill tekjuhalli verði á fjárlögunum, en það var þó áreiðanlega eindreginn vilji okkar flestra, sem nú sitjum á þingi, að leggja niður þann sið, enda höfum við líklega flestir lofað kjósendum okkar að styðja að gætilegri fjármálastjórn. Hinsvegar varð útkoman síðastl. ár þannig, að menn gerðu sjer vonir um, að nokkur stefnubreyting gæti orðið í fjármálunum, að nú yrði í fyrsta sinni síðan við fengum fjárforræði hægt að lækka tolla og skatta að einhverju leyti, í stað þess að hingað til hafa slíkar álögur verið auknar árlega að heita má.

Það var vitanlegt, að hin alvarlegu örþrifaráð, sem gripið var til 1924 til að endurreisa hag ríkissjóðs, áttu aðeins að standa til bráðabirgða, og þurfti því undir eins og úr rættist að draga úr álögunum að miklum mun. Þess vegna leit jeg svo á, þegar jeg fjekk fyrir nokkru áreiðanlegar fregnir af stórlega batnandi fjárhag ríkissjóðs, að nú yrði unt á þessu þingi að ljetta eða úr lögum að fella einhverjar þær gjaldabyrðir, sem erfiðastar mega teljast og órjettlátastar. Og mjer er óhætt að segja, að það var eindreginn vilji kjósenda í mínu kjördæmi, að þetta tækist.

En nú er viðbúið, að þessar vonir verði að litlu eða engu, því að jeg tel það alt of litla rjettarbót, þótt gengisviðaukinn hafi verið afnuminn á vörutolli. Mjer er ljúft að viðurkenna, að fjármálastjórnin er nú í höndum ágæts manns. En enginn gerir svo öllum líki. Fjárlagafrv. stjórnarinnar hefir að mínum dómi verið óvarlegar úr garði gert að þessu sinni en átt hefði að vera, þegar á alt er litið. Að vísu eru tekjurnar fremur varlega áætlaðar og gert er ráð fyrir nokkrum tekjuafgangi. En jeg tel þetta ekki nægilegt, ef gert er ráð fyrir, að gjöldum verði ljett, af þjóðinni, svo nokkuð um muni, og reiknað er með venjulegum útgjaldaauka við meðferð frv. í þinginu. Sje það ákveðinn vilji stjórnarinnar að koma tekjuhallalausum fjárlögum gegnum þingið, verður hún að gera sjer ljóst, að hún getur ekki ein vitað fyrirfram allar þarfir þjóðarinnar og rjettmætar kröfur til fjárframlaga. Hún má altaf búast við sanngjörnum kröfum um fjárframlög frá einstökum þm. Þess vegna þykir mjer hæstv. stjórn hafa farið fulllangt í áætlunum sínum, og þótt verklegar framkvæmdir sjeu góðar, og margar bráðnauðsynlegar, þá verður þó að gæta hófs í þeim, eins og öðrum hlutum. Hækkun á 13. gr. fjárlagafrv. er um 195 þús. kr. Er það gífurlegt, og er ekki hægt að draga úr sköttum eða tollum á meðan svona er í pottinn búið, svo að nokkru verulegu nemi.

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat um það, að hv. fjhn. hefði á prjónunum frv., sem færi fram á talsverða lækkun á tollum, nálægt 400–500 þús. kr. Ef nú samtímis á að samþykkja það frv. og svo halda útgjöldunum svona háum, er tekjuhalli fyrirsjáanlegur.

Jeg lít því fremur svörtum augum á komandi ár, og er við því búinn, að fjárhagsútkoma þess verði ekki eins góð og æskilegt væri. Þess vegna ættu hv. þm. að geta fallist á það að gæta fullrar varúðar, í því að samþykkja nú stóraukin útgjöld, þótt þess hefði átt að gæta bæði fyr og betur.

Frv. fjhn. fer fram á að lækka til muna álögur á atvinnuvegunum, sjerstaklega sjávarútveginum, lækka toll á kolum, steinolíu og salti, og toll á síldar- og kjöttunnum.

Það er alkunna, að sjávarútvegurinn er í kreppu, og það er bein skylda þingsins að rjetta honum hjálparhönd. Ber frv. fjhn. vott um það, ef samþykt verður, að þingið sjer, að það er ekki takmarkalaust, hvað leggja má á atvinnuvegina, og í því liggur fyrirheit um meiri sanngirni síðar, undir eins og fjárhagurinn leyfir. Jeg vil í þessu sambandi geta þess, að jeg þekki menn, sem nú eru orðnir öreigar að heita má, en hafa borgað svo hundruðum þúsunda króna skiftir til almennra þarfa af atvinnurekstri sínum. — Jeg tel það ekki góða fjármálastjórn, sem ekkert gerir til þess að ljetta byrðunum af, þegar svona er ástatt orðið.

Jeg gæti nú látið hjer staðar numið, en jeg vil þó minna á það, að jeg hefi ekki verið kröfuharður fyrir mitt kjördæmi. Jeg á aðeins eina litla brtt., 14. brtt. á þskj. 297, um að veita Jóni Kristjánssyni veitingamanni á Akureyri 2500 kr. styrk. Jeg fór fram á nokkru hærri upphæð við 2. umr. og talaði þá fyrir henni og sýndi með rökum fram á, að þessi maður hefði beðið mikið tjón árið 1924 vegna þess, að taugaveiki kom upp á heimili hans, svo að það var lokað hjá honum og í sóttkví mánuðum saman, og enginn þorði þangað að koma um langan tíma. Jeg tel rjett og sjálfsagt að hjálpa öllum, sem verða fyrir veikindum og slysum, og sjerstaklega þegar svo stendur á, að þessi maður fær veikan mann inn á heimili sitt og verður fyrir það fyrir stóru tapi, er numið mun hafa næstum aleigu hans. Það væri alveg óverjandi að neita um þennan styrk, þegar fordæmi eru fyrir samskonar styrk fyrir fáum árum, og ástæðan þá til þess að veita hann ekki eins mikil nje eins mikið fjárhagslegt tjón um að ræða og hjer.

Þótt rjett sje og sjálfsagt að spara, og hv. þm. vilji spara, þá má ekki fara svo langt í smásálarlegum sparnaði, að þingið neiti um lítilfjörlegan styrk, sem öll sanngirni og rjettlætistilfinning heimtar, að sje af mörkum látinn.