23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg hefi orðið einn um það í fjhn. að leggja til, að heimildarlög þessi verði feld. Mjer finst rjettara að bíða þangað til almenn bankalöggjöf verður sett. Jafnframt finst mjer hjer vera um svo stutt sjerleyfi að ræða, að ekki sje von til, að nokkur gíni við því án þess að vita eitthvað um framtíð sína að öðru leyti, því að það varðar mestu fyrir þá, sem ætla að reka hjer bankastarfsemi til langframa.

Þá get jeg ekki fallist á þá ástæðu háttv. meiri hluta, að rjettindi þeirra banka, sem hjer starfa, þurfi að miða við rjettindi Íslandsbanka sem býr nú að erfiðleikum og óáran undanfarinna ára, og má gera ráð fyrir, að hlunnindi hans geri ekki meira en að koma á móti töpum síðustu ára. Fáist ekki fje til nýs banka án þess að veita sömu kjör og þeim bönkum, sem fyrir eru, væri nær að miða þau við Landsbankann heldur en Íslandsbanka, því ef samkepni er að óttast, er meira að óttast af hálfu Landsbankans, sem ríkið stendur á bak við. Auk þess, sem mjer virðist hentugra að bíða með þetta mál eftir hinni nýju bankalöggjöf, þá eru tímarnir ekki heppilegir til þess að fá mikið erlent fje inn í landið í því skyni að efla atvinnuvegina, þar sem gengispólitíkinni hefir nú um skeið verið svo háttað, að atvinnuvegir landsins eru nú reknir með tapi. Hækkandi gengi þýðir verðlækkun, og verðlækkunartímar eru óheppilegir til útfærslu á atvinnuvegunum. Því að yfirstandandi tímar eru verðlækkunartímar og óhagstæðir, þar sem skapa þarf verðlækkun, sem leiðir af gengishækkuninni, meðal annars með því að draga saman seglin og neita um lánsfje.

Ef á að skapa verðlækkun í áframhaldi af þeirri gengispólitík, sem rekin hefir verið nú um nokkurt skeið, þá er lítill vinningur í því að fá nýtt fjármagn inn í landið á meðan sá „process“ stendur yfir. Hið núverandi ástand er svo bágborið, að ekki yrði gagn af því „kapitali“, sem flyst inn í landið meðan svo búið stendur.

Það er að vísu ekki óhagræði fyrir þann, sem hefir „kapitalið“, að flytja það inn í landið meðan krónan er 80% af gullverði og taka það út þegar krónan er komin í „pari“. Það er a. m. k. á yfirborðinu, kostur fyrir þann, sem á fje, sem hægt sje að flytja hingað, en það er ekki kostur fyrir þjóðina sjálfa, því að þetta fje er lán, sem hún verður að útborga með hærri krónum. Mjer virðist ekki óttalaust, að hækkunarmennirnir fái vilja sínum framgengt á þessu þingi, þótt ekki sje hægt að segja neitt með vissu um það, en verði þeir ofan á, er alveg ljóst, að það er enginn hagnaður að því að ráðast í nýjar framkvæmdir meðan gengisörðugleikarnir standa yfir.

En verði tekin sú stefna að festa gjaldeyrinn, þá er mikið gagn að því að fá nýtt fjármagn inn í landið. Yrði sú stefna tekin, er óskandi, að sem fyrst fengist nýtt fjármagn. En jeg hygg, að slíkt kæmi þó ekki svo fljótt til framkvæmda, að það gerði neitt til, þótt afgreiðsla þessa máls drægist til næsta þings og biði eftir almennri bankalöggjöf. Mín till. er því sú, að frv. verði felt, ekki vegna þess, að jeg telji ekki líklegt, að sá tími komi, að fjármagn þurfi að flytja inn í landið, heldur vegna þess, að öll þessi bankamál verða til úrslitaumr. á næsta þingi, og af því að jeg tel tæpast hættu á töf á stofnun nýs banka, þótt þetta mál dragist til næsta þings.