23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hæstv. fjrh. þurfti ekki að verða eins hissa og hann virtist verða á nál. mínu, því að í þeirri þáltill., sem milliþinganefndin í bankamálum hefir starfað samkvæmt, stendur, að hún eigi einnig að öðru leyti að endurskoða bankalöggjöf landsins. Það er að vísu rjett, að hæstv. fjrh., sem vildi yfirleitt á síðasta þingi draga úr þessari nefndarskipun, taldi svo sem ekki væri vert að athuga fleira en seðlamálið og veðdeildina. En í hv. Ed. mætti þessi skilningur hans mótmælum skýrum og greinilegum. En þegar engin brtt. kom fram, hvorki í Ed. eða Nd., sem gerði það ótvírætt, að vilji hæstv. ráðh. væri einnig vilji þingsins, þá lít jeg svo á, sem milliþinganefndin hafi haft rjett fyrir sjer, þegar hún skrifaði hæstv. ráðherra hið síðasta brjef sitt, dags. 10. febrúar í ár. En í því brjefi er skýrt og greinilega sagt frá því, að nefndin hafi ekki getað lokið við að gera tillögur um endurskoðun á bankalöggjöfinni. Undir þetta brjef rituðu tveir nefndarmenn úr Íhaldsflokknum og tveir skipaðir af Framsóknarflokknum. Jeg hefi ekki orðið var við ennþá, að nefndin hafi fengið tilkynningu um, að þetta væri misskilningur. Við 1. umræðu þessa mál gat jeg þess einnig, að nefndin ætlaði sjer að vinna að hinni almennu bankalöggjöf, og fjekk þá ekki heldur neina leiðrjetting á þeim „misskilningi“. Svo að það ætti að vera fyllilega afsakanlegt, þótt jeg gengi út frá, að milliþinganefndinni væri falið að undirbúa almenna bankalöggjöf. Hæstv. ráðherra hefir hvað eftir annað fengið tækifæri til að leiðrjetta það áður, sje það misskilningur. En þar sem hann hefir ekki gert það fyr en nú, þarf hann ekki að verða hissa á, að jeg ber þetta fram sem ástæðu.

Um hitt er jeg hæstv. ráðh. algerlega ósammála, að það eigi að draga að setja almenna bankalöggjöf þangað til á síðustu stundu, þegar einkarjettur Íslandsbanka er útrunninn. Almenn bankalöggjöf er yfirleitt þannig, að hún er ekki sniðin með tilliti til eins árs, heldur langs tíma. Og jeg teldi það mjög óheppilegt að fara að hrúga upp sjerleyfisbönkum, en bíða fram á síðustu stund með almenna bankalöggjöf, og fái svo þrýstingurinn frá þessum sjerleyfisstofnunum að hafa mikil áhrif á þá löggjöf. Jeg tel nauðsynlegt að ljúka þessari almennu bankalöggjöf hið allra fyrsta. Þetta var mín fyrsta ástæða.

Önnur ástæðan var sú gengispólitík, er hæstv. ráðherra rekur. En nú segir hann, að nauðsynin á auknu fjármagni hafi aldrei verið eins mikil og einmitt nú. Jeg hjelt, að hæstv. fjrh. væri það fyllilega ljóst, að ef rekin er gengispólitík hans, þá hlýtur það að skapa kreppu. Og það á að skapa kreppu, því að einungis með henni er hægt að þrýsta verðlaginu niður. Hækkunarmenn verða að vera sjálfum sjer samkvæmir og víla ekki fyrir sjer, þótt þetta kosti þrautir og þjáningar. Þeir verða að gera ljóst sjer og sínum fylgismönnum, að þeirra pólitík heimtar þetta og að það eru engin meðul til, sem geta látið atvinnuvegina blómgast um leið og verið er að hækka. Yfirleitt veit hæstv. fjrh. þetta alt saman, svo að það ætti ekki að þurfa að segja honum það þess vegna. (Fjrh. JÞ: Hann veit líka fleira). Hann veit líka fleira, því vit hans á þessum efnum er yfirleitt betra en stefna hans. (TrÞ: Heyr!).

Hæstv. fjrh. lagði einnig áherslu á það, að ef þetta frv. yrði ekki samþykt þá væri ekki útlit fyrir annað en atvinnuvegir landsmanna þyrftu að stöðvast að svo og svo miklu leyti. Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. geri hjerna fullmikið úr nauðsyn þessarar nýju stofnunar. Við skulum hugsa okkur, að það mishepnaðist að fá þennan nýja banka. Hæstv. fjrh. hefir lýst yfir, að engin vissa væri fyrir, að það tækist, og jeg veit, að meiri hl. fjhn. telur mjög lítil líkindi til, að þetta takist fyrir næsta þing. Þá er ilt í efni fyrir okkar atvinnuvegum. Jeg hefi verið þeirrar skoðunar, að sú atvinna, sem nú er rekin í landinu, muni geta gengið á næstu árum án þess að stofna nýjan banka, — muni geta það með þeim lánum, sem landið getur fengið erlendis og hæstv. fjrh. mun vera fús að ganga í ábyrgð fyrir. Jeg gerði mig ekki í minni röksemdaleiðslu sekan um það, sem hæstv. fjrh. hjelt fram, að jeg hefði gert, sem sje að rugla saman því, sem framkvæmt er til langs tíma, og því, sem gert er til stutts tíma. Jeg skal fúslega játa, að það eru mestar líkur til, að svona banki mundi starfa að því að lána þeim atvinnuvegum, sem gætu borgað á 6–12 mánaða fresti. En við höfum sjeð á síðustu árum, hvaða áhrif gengishækkanir geta líka haft á slíka atvinnuvegi. Það hafa orðið stórtöp hjá atvinnurekendum, sem hafa svo stundum lent á bönkunum.

Mjer hefir skilist, að hæstv. ráðh. líti svo á, að hægfara hækkun sje eiginlega óhugsandi og eigi ekki að gera ráð fyrir henni. (Fjrh. JÞ: Jeg hefi aldrei sagt neitt um það). Við 2. umr. um gengismálið hefir hæstv. ráðh. sagt það skýrt og greinilega að hjer væri annaðhvort um að ræða að hækka fljótt og vel eða þá festingu. Því að hægfara hækkunin, sem menn hafa talað um undanfarið, sje lítt framkvæmanleg og óheppilegri en sú snögga. (Fjrh. JÞ: Nei, það er ekki rjett). Mjer hefir skilist, að þetta sje stefna hæstv. ráðherra í gengismálinu. Og þó hann kannske ekki játi, að þetta sje sín framtíðarstefna, þá er það sannanlegt, að sú var stefna hans á síðasta ári. Það þarf hvorki að játa því eða neita, raunin sýnir það. Svo jafnvel þó lán sjeu ekki tekin til lengri tíma en 6–12 mánaða, geta þau sannarlega orðið háskaleg bæði fyrir þá, sem taka og þá, sem veita. Þetta mál á sannarlega skylt við gengismálið. Ef á að hækka — kannske á þremur árum — upp í fyrra gengi, þá er það fyrirsjáanlegt, að atvinnurekstur landsmanna muni ekki geta borið sig. Og fyrst svo er, þá er enginn ávinningur að því að auka atvinnuvegina, fjölga togurum, byggja hús o. s. frv. Þannig getur svo verið ástatt, að það sje enginn kostur að fá nýtt fjármagn inn í landið. Hvort það sje heppilegt, er undir því komið, hvernig skilyrðin eru fyrir notkun þess á hverjum tíma. Og verði festingarstefnan ekki ofan á, þá eru skilyrðin slæm.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess, að tvívegis hefði komið til mála að fá sömu rjettindi til bankastofnunar og Íslandsbanki hefir. Jeg get vel trúað þessu. En þetta sannar ekkert um það, að hjer sje ekki hægt að stofna banka með öðrum kjörum. Þetta er eðlileg afleiðing af því, að hjer er engin almenn bankalöggjöf. Því ef hjer væri einhver almenn bankalöggjöf, þá myndu lysthafendur hafa miðað við hana. Jeg geri ráð fyrir, að hún verði ekki strangari en það, þegar hún verður sett, að arðvænlegt verði talið að leggja fje í bankastarfsemi. Og til þess vil jeg fá almenna bankalöggjöf sem fyrst, að hver sem er geti starfað að því hvenær sem er að koma af stað banka, aðeins ef fullnægt er þessum föstu skilyrðum, án þess að þurfa að leita til þings eða stjórnar frekar en þar væri ákveðið. Þá vita allir út frá hverju á að ganga. Bankalöggjöfin á að koma til þess að hægt sje að komast hjá þessu stöðuga kvabbi um heimild um bankastarfsemi sem hefir komið þing eftir þing og hingað til engan árangur borið.

Hv. frsm. meiri hl. gaf í skyn, að við, sem talað höfum á móti frv., hefðum ekki hug til þess að snúast beint á móti því. Jeg skal játa, að það þarf nokkurn kjark til að gefa slíkt í skyn eftir okkar ræður. Við höfum haldið því fram, sem er beint gegn frumvarpinu, að það eigi að gera alt, sem unt er, til þess að bæta úr ástandinu, sem er. Við höfum haldið því fram og skulum styðja að því, að Landsbankinn verði gerður að seðlabanka þegar á þessu þingi, — að krónan verði fest í sínu sanngildi og að almenn bankalöggjöf verði sett þegar á næsta þingi.

Jeg er sannfærður um, að þetta er það eina varanlega, sem hægt er að gera fyrir fjárhag þessa lands nú á þessu þingi. Og ef það sæi fyrir þessu öllu, þá mun það hljóta góðan orðstír, þó að þingsetan sje orðin nokkuð löng.