23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg sje ekki ástæðu til þess nú að fara að halda uppi gengisdeilum við hv. þm. Str. (TrÞ). Jeg vona, að sá óburður, er kom frá honum í byrjun þings, týnist ekki hjá hv. fjhn., og verður því tími til þess að tala um hann seinna.

Þar sem hv. þm. Str. (TrÞ) talaði um, að jeg væri ekki sjálfum mjer samkvæmur, þá er það misskilningur. Jeg vísa þar um til ummæla hv. frsm. meiri hl. (JakM), að við þurfum að fá fje inn í landið. (TrÞ: Ætla útlendingar að stofna banka fyrir okkur?). Já, og þeir gera það landinu til hagsbóta. (TrÞ: Þá er lotteríið líka af umhyggju fyrir okkur). Þetta er óskylt. Hjer er verið að bjóða boð, og við fáum nokkuð á móti en lotteríið er ekki borið fram vegna landsmanna. alment. Ef bankinn er stofnaður, þá verður það okkur til mikilla hagsmuna, en lotteríið er fjefletting, eins og lotterí eru altaf.

Jeg hefi áður svarað þeim fjarstæðum hv. þm. Str., að atvinnurekendur borgi margar miljónir í skatt út af gengishækkuninni. Það er bara tal út í loftið. Þjóðin græðir aftur á lækkaðri krónutölu í kaupum frá útlöndum, og tilfærsla innan þjóðfjelagsins getur fylgt þessu.

Jeg hefi áður sagt það, að jeg aðhyllist ekki kenningar Cassela um hvort menn eigi að leggja kapp á að hækka gjaldeyri sinn, en jeg hefi, eins og Svíar gerðu, viljað nota þá þekkingu, er Cassel hefir bent á. Þeir notuðu hana til þess að hækka gjaldeyri sinn á undan öðrum, þvert á móti tillögum hans um það, hvort það skyldi gert. Í minni bók finnur hv. þm. Str. engan staf um það, að jeg sje samþykkur kenningum próf. Cassels um þetta, hvort rjettara sje að hækka eða stýfa. (TrÞ: Jú, í formálanum er blátt áfram traustsyfirlýsing á hann). Þá er það að minsta kosti ekki í niðurlaginu og vil jeg ráða hv. þm. Str. til að lesa það. En jeg hefi orðið þess var, að það eru til menn, sem eru svona nærsýnir. Hv. þm. (TrÞ) sagði, að árið 1925 hefði átt að verða veltiár, en jeg hefði gert það að ógæfuári. En dómurinn um þetta ár mun síðar verða sá, að það hafi verið veltiár þangað til fiskverðið lækkaði. En það kom ekkert því við, hvað við skiftum sterlingspundinu í margar krónur. Það voru atvik suður í Miðjarðarhafslöndum, sem við gátum ekki ráðið við sem ollu því að árið varð ekki veltiár til enda. Jeg sagði, að jeg áliti, að löggjafarnir ættu að gera sitt til, að ekki sje skortur á veltufje í landinu. Hinsvegar sagði jeg ekki, að þessi banki ætti að hjálpa til þess að hækka gengið, og það er þess vegna ekki rjett, að jeg álíti, að það eigi að „spekulera“ krónuna upp heldur álít jeg, að menn eigi að auka gildi hennar með eðlilegri þróun atvinnuveganna og aukinni framleiðslu. Þetta fjármagn á að hjálpa til þess að auka velmegun atvinnuveganna, en aukin velmegun atvinnuveganna hjálpar til að hækka gengið.

Þá talaði hv. þm. (TrÞ) um þann klofning, sem væri að verða í stjórnarflokknum út af gengismálinu. (TrÞ: Og bankamálinu). Ætli það sjeu ekki veilur í fleiri flokkum? Annars ætti það að vera gleðilegt fyrir hv. þm., ef þessi klofningur á sjer stað, því að ef hans flokkur er samstæður, getur þá hv. þm. ef til vill gert sjer vonir um, að frv. hans í gengismálinu nái fram að ganga. En við skulum nú sjá, hvað setur um það, og svo getum við talast við um klofninginn á eftir.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) þarf jeg ekki að svara, nema einu atriði, viðvíkjandi því, að bankinn greiði ríkissjóði ekki neitt fyr en hluthafar hafa fengið 5%. Til þess að meta þetta rjett verður að líta á það, að komið getur fyrir, ef reynslan sýnir það um nokkur ár, að bankinn geti ekki greitt hluthöfum neinn arð; sem sagt, þeim eru ekki trygð þessi 5%. Þetta ákvæði er sett til þess að ekki sje hægt að segja við bankann fremur en annan atvinnurekstur: „Þegar þú tapar, höfum við ekkert við þig að tala, en ef þú græðir, þá hirðum við gróðann“ Með slíku fyrirkomulagi er ekki hægt að vænta þess, að peningamenn leggi fje í þetta fyrirtæki.