23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla ekki að gefa tilefni til þess, að umræður lengist meir en orðið er, en jeg verð þó að leiðrjetta það hjá háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), er hann sagði, að sá skortur rekstrarfjár handa atvinnuvegunum, sjerstaklega sjávarútveginum, sem var til meðferðar hjer á þinginn í vetur, hafi ekki stafað af því, að fje vantaði, heldur af gengisóvissunni eða gengishækkuninni. Jeg er alveg hissa að heyra þetta frá háttv. þm. Það vantaði einmitt fje í þann bankann, sem hafði sjerstaklega lagt þessum atvinnuvegi til rekstrarfje, og varð að fá það frá útlöndum. Það er nú fengið, og hefir það greitt úr kreppunni. Að gengispólitík blandaðist inn í þetta, stafaði af því, að þetta fje var ekki hægt að fá innanland, heldur kom það sem erlendur gjaldeyrir.

Það er alger misskilningur hjá hv. þm., að jeg hafi blandað saman gengishækkun og skorti á rekstrarfje. Jeg sagði, að ekki mætti koma skortur á rekstrarfje ofan gengishækkunina. En ef háttv. þm. hefir heyrst jeg blanda þessu saman, þá stafar það af því, að jeg hefi ekki hagað orðum mínum nógu vel, eða af því að hann hefir sjálfur tekið illa eftir því, sem jeg hefi sagt, því að þetta tvent, er hjer um ræðir, eru alveg óskyld mál.

Þá segir hv. þm., að okkur skorti ekki rekstrarfje. Jeg er nú á annari skoðun, en hann getur ef til vill haft einhverjar ástæður, ef þetta er virkilega skoðun hans. Jeg ætla ekki að fara út í neitt karp um bankanefndina og starf hennar. Formaður hennar hefir þegar skilað af sjer fullnaðarreikningi hennar í mínar hendur, og jeg lít svo á, að hlú hafi þegar hætt störfum. Þetta hefir líka komið fram í brjefi frá henni, og vil jeg leyfa mjer að lesa upp 2 seinni kafla þess:

„Nefndinni hefir ekki unnist tími til þess að gera till. um endurskoðun á bankalöggjöf landsins, sem henni var falið að undirbúa samkvæmt þál. 14. maí 1925. En hún hefir undirbúið það mál nokkuð, aflað gagna og rætt málið á fundum.

Meiri hlutinn telur æskilegt, að gefin verði sem fyrst almenn bankalög eins og til eru í flestum löndum Norðurálfunnar, en að sjálfsögðu sniðin eftir þeim sjerstöku ástæðum, sem hjer á landi eru um bankamál. Máske er og hægra að gera tillögur um slík almenn bankalög, þegar sjeð verður fyrir afdrif þeirra tveggja frv., um seðlaútgáfu og ný bankavaxabrjef, sem nefndin hefir samið.“

Svo víkur nefndin að öðru efni, er hún segir:

„Meiri hlutinn er þeirrar skoðunar, að sem allra fyrst þurfi að setja bankalög, sem geri mögulegt, að hjer komist á fót bráðlega einn eða fleiri nýir einkabankar.“

Jeg hefi nú ekki haldið að nefndin væri að endurtaka með öðrum orðum það, sem hún hefir áður sagt. Jeg hefi álitið, að hjer væri eitthvað nýtt um að ræða, og þess vegna hefi jeg borið frv. fram. Jeg hefi a. m. k. skilið þetta svona, en háttv. þm., sem hefir meðundirritað þetta brjef, getur hafa skilið það öðruvísi, en jeg hefi fulla ástæðu, samkvæmt orðanna hljóðan, til míns skilnings.

Annars hefi jeg enga trú á því, að þessi almenna bankalöggjöf geti komið svo fljótt, að atvinnuvegirnir megi við því að bíða eftir henni.

Háttv. þm. Str. þarf jeg ekki að svara miklu. Hv. frsm. meiri hl. (JakM) hefir lýst því alveg rjett, hvernig aðstaða hinna útlendu manna verði gagnvart atvinnuvegum landsins, að þeir verði að reka starfsemi sína í fullu samræmi við þarfir þeirra. Þeir eiga alt undir velgengni íslensku atvinnuveganna, og á þessu byggist það, að það er alla ekkert varhugavert að leyfa útlendingum að stofna hjer til slíkrar starfsemi sem þessarar, meðan við höfum sjálfir ekki bolmagn til þess. Það má auðvitað segja að þeir geri það ekki fyrir okkur að reka hjer bankastarfsemi, heldur fyrir sjálfa sig. Það má þá líka segja, að við gerum það fyrir okkur að leyfa hana. Jeg held, að það verði eins með þetta og þegar Íslandsbanki var stofnaður. Jeg held, að við höfum fulla ástæðu til þess að vera því þakklátir, að hann komst á stofn. Og hvað sem annara verður sagt um stjórn hans og starfsemi, þá er það alveg víst, að vöxtur atvinnuveganna er að mjög miklu leyti að þakka því fje, sem þá var veitt hingað inn í landið.

Jeg ætla ekki að fara langt út í gengismálið. Jeg hefi aldrei haldið því fram, að hægt væri að hækka krónuna án þess að einhverjir biðu hnekki við það. En jeg held, að það sje jafnan svo, að ekki sje hægt að halda uppi atvinnurekstri án þess að einhverjir fari öðruhvoru á höfuðið. En meðan ekki eru mikil brögð að því, þarf ekki að leiða neitt tjón af því fyrir almenningshag. En jeg held fast við þá skoðun mína, að kreppan stafar af verðlækkun á fiskinum; þetta er orsök, sem áður hefir valdið kreppu og mun altaf halda áfram að valda kreppu, hvað sem öllu gengi líður. Og jeg dreg það mjög í efa, að nokkur, sem þessu er kunnugur, neiti því, að erfiðleikarnir stafi frá verðfallinu.

Að jeg hafi hælst um yfir nokkrum hlut, því þarf jeg ekki að svara. Jeg hefi ekki gert það; jeg held, að það sje ímyndun hv. þm. Jeg hefi aðeins bent hv. þm. á það að bíða með skrumauglýsingar um klofning í Íhaldsflokknum þar til frv. hans kæmi fram, og gætu þá fleiri flokkar orðið klofnir í gengismálinu, svo að hvorugur hefði um neitt að hælast. Að lyktum vil jeg taka það fram, út af brtt. um afgjaldsákvæðin, að jeg hefi ekkert á móti því að ganga með hv. flm. inn á það að reikna afgjaldið út á svipuðum grundvelli og þeir hafa stungið upp á, nefnilega að setja það í samband við arðinn af hlutafjenu, þó þannig, að afgjaldið sje ekki gert þyngra fyrir bankann en stjfrv. fer fram á. Og þótt jeg greiði atkvæði á móti þessari brtt. og voni, að hún falli nú við þessa umr., þá get jeg reynt að ná samkomulagi við hv. flm. milli 2. og 3. umr. um það, að gjöldin verði reiknuð út nær þeim grundvelli, sem þeir hafa óskað eftir. Vona jeg því, að þessir hv. þm. geri ekki till. sína svo að kappsmáli, þótt hún falli nú, að meina málinu vegna þess að ganga til 3. umræðu.