12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg hefi getið þess í nál., að jeg sje ósamþykkur því, að frv. þetta verði samþykt. Ástæðan til þess er í stuttu máli sú, að mjer virðist, eftir því sem nú standa sakir, það tæplega vera rjett lausn á bankamálunum að bæta við einum nýjum banka. Mjer virðist liggja nær að koma seðlaútgáfunni fyrir á einhvern tryggilegri hátt en verið hefir. En nú er útsjeð um það að á þessu þingi fæst engin lausn á því máli. En við því er nú ekki neitt að segja úr því sem komið er. En úr því að þetta tókst nú ekki, þá álít jeg, að við sjeum ekki miklu bættari með því að ganga inn á þá braut að veita hlunnindi nýjum banka. Jeg geri ráð fyrir því, að meiningin með því sje að auka starfsfje atvinnuveganna í landinu. Jeg skal nú ekki bera brigður á, að þörf sje á slíku, en jeg álít, að til þessa eigi ekki að taka, nema lánstraust banka þeirra, sem fyrir eru sje þrotið. Það er ekkert betra að auka starfsfje atvinnuveganna með því að stofna nýjan banka en að fá lán handa þeim bönkum, sem fyrir eru. Það er hjer ekki ósvipað því, sem við hugsuðum okkur, að einhverja sveit vantaði rekstrarfje, en verslanirnar, sem venjulega hafa skaffað rekstrarfje, gætu ekki eða vildu ekki leggja fram meira. Jeg held, að ástandið í sveitinni batnaði ekkert við það, þó þar bættist við ný lánsverslun, sem lánaði þeim mönnum, sem hinar verslanirnar vildu ekki lána. Sama gildir með landið. Ef svo stendur á, að fje vantar og lánsstofnanir þær, sem fyrir eru, geta ekki eða vilja ekki leggja meira fje í veltuna, þá hygg jeg, að það hafi slæm áhrif, ef ný lánsstofnun kemur. Hverjum mundi slík lánsstofnun lána fje? Ekki öðrum en viðskiftamönnum þeirra banka, sem fyrir eru. Ef um þá er að ræða, sem lánsstofnanir þær, sem fyrir eru, bera fult traust til, þá hygg jeg, að þeir þurfi ekki á lánum að halda. En að því er hina snertir, sem lánsstofnanir þær, sem fyrir eru hafa ekki traust á, þá hygg jeg, að það sje frekar til böls en bóta að lána slíkum mönnum. Jeg veit ekki, hvort hv. deild hefir skilið, hvað fyrir mjer vakir, en það er í stuttu máli þetta: Ef ástand þeirra, sem lán þurfa að fá, er þannig, að bankastofnanir þær, sem fyrir eru, vilja ekki lána þeim meira, þá tel jeg, að stofnun nýs banka bæti ekki úr þeim vandræðum. En ef þeim lánsstofnunum, sem fyrir eru, er svo fjárvant, að þær hafa ekki lánstraust lengur, þá gæti verið spurning um, hvort ekki væri rjett að stofna nýjan banka. En jeg hygg að ennþá sje lánstraust þeirra svo mikið, að þær geti bætt úr lánaþörfunum, ef þær hafa traust á lántakendunum. Jeg held, að það, sem mest bagar nú, sje það, að of mikið fje sje í útlánum og sitji þar fast, og því sje of lítið fje í veltunni; og ef mikið af þessu útlánsfje er ótrygt, þá hygg jeg, að það verði ekki mikið trygga við stofnun nýs banka. Annars tel jeg ekki þörf á því að hefja deilur um þetta mál. Hvort sú skoðun fær lítið fylgi hjer í deildinni, við því er ekkert að segja. Ef málið gengur fram, álít jeg að það sje á ábyrgð þeirra, sem greiða því atkvæði sitt. Jeg hefi gert afsökun mína með því að lýsa afstöðu minni, og mun greiða atkvæði samkvæmt því.