29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

1. mál, fjárlög 1927

Forsætisráðherra:

(JM): Við þennan kafla fjárlaganna eru fáeinar brtt., sem mjer þykir rjett að minnast á. Það er þá fyrst III. brtt. á þskj. 297, um styrk til samningar efnisyfirlits yfir Stjórnartíðindin frá 1916–26. Það er rjett, að þörf fer að verða á efnisyfirliti yfir þessa 10 árganga. Stjórnartíðindanna, en jeg held, að það ætti ekki að þurfa sjerstaka fjárveitingu til þess; jeg býst við, að ekki yrði fundið að því, þótt tekið yrði af fjárveitingunni til Stjórnartíðindanna sjálfra til þessa verks. Jeg hygg, að stjórnin muni sjá sjer fært að byrja á þessu ári, svo að von væri á því, að það kæmist fyr í framkvæmd en ef farið væri eftir þessari brtt. Þess vegna mætti þessi brtt. vel falla niður nú. Það er í rauninni ekki nema einn liður í kostnaðinum við Stjórnartíðindin, sem hjer er um að ræða.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) skaut því til mín að segja álit mitt á Skúla Guðjónssyni. Jeg hygg, að hann sje efnilegur maður. Hann sýnist vera áhugasamur og líklegur til þess að gera gagn. Jeg tel mjer sje óhætt að segja þetta, þótt jeg þekki manninn ekki mikið.

Þá kem jeg að 9. liðnum, um að fella niður skilyrðið í 12. gr. 17.e. um það, að utanhjeraðssjúklingar, sem borgað er fyrir af almannafje, njóti sömu kjara sem innanhjeraðssjúklingar. Þetta er ekki nýtt; umboðsstjórnin hefir stöðugt haldið þessu fram, og það hefir fallið úrskurður um það, að sjúkrahús, sem njóta styrks af opinberu fje, verði að gera sjer þetta að góðu. Ástæðan til þess, að þetta skilyrði var beint sett inn í fjárlagafrv., er sú, að eitt sjúkrahús vildi ekki sæta þessum kjörum. En mjer finst ekki nema sjálfsagt, að sjúkrahús, sem fá styrk af opinberu fje, láti þá utanhjeraðssjúklinga, sem greiddur er fyrir sjúkrahúskostnaðurinn af almannafje, njóta sömu kjara og innanhjeraðssjúklinga. Mjer finst, að hv. deild ætti að athuga vel, hvort rjett er að fella þetta skilyrði niður.

Þá vil jeg minnast dálítið á skrifstofukostnað bæjarfógeta og sýslumanna. Lögin gera ráð fyrir því, að hann skuli ákveðinn fyrir 5 ár í senn. En það hefir ekki þótt fært hingað til, vegna breytileika gengis og dýrtíðár. Þegar fyrst var ákveðinn skrifstofukostnaðurinn, var aðallega farið eftir því, sem embættismennirnir sjálfir sögðust þurfa, að minsta kosti þeir, sem sýndust vilja viðhafa hæfilega sparsemi. Upphæðin var fyrst ákveðin alls 80 þús. kr., svo lækkaði hún nokkuð seinna; þingið veitti minst 42 þús. kr. Það var vitanlega alt of lágt. 1925 var skrifstofukostnaður hækkaður að miklum mun tvöfaldaður, eða settur upp í 84 þús. kr. Mjer fanst þingið þá taka mjög sanngjarnlega í málið. Það má vera, að það hafi enn verið veitt of lítið. Það getur verið álitamál. Ef bornar eru saman kröfur embættismannanna, þá verða þær óskiljanlega misjafnar. Jeg skal hjer nefna nokkrar tölur til samanburðar, sem sýna, hvernig það kæmi út, ef farið væri eftir reikningum embættismannanna eða áætlunum. Sýslumaðurinn í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu áætlar fyrst þegar hann er spurður, að hann þurfi 3300 kr. Það er þó fullkomlega meðalsýsla. En sýslumaðurinn í Strandasýslu áætlar um 5000 kr., og er áætlun hans ekki neitt óforsvaranleg í sjálfri sjer. Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu áætlar á árunum 1920–'23 6500–7000 kr. Hann fjekk minna um stund, en skrifstofufjeð var síðar hækkað upp í 9000 kr. Bæjarfógetinn á Ísafirði taldi sig 1920 ekki ofhaldinn af 18 þús. kr. Síðan hefir hann fengið 12 þús. 1924 er reikningurinn tæpar 12 þús. kr. Mjer skildist, þegar hann var hjer á ferð síðast, að hann teldi sig þurfa 14500 kr. Síðasti reikningur hans er tæp l4 þús. kr., en þegar hann er spurður nú síðast um, hvað hann þurfi, kveðst hann þurfa 15500 kr. Það getur vel verið, að þetta sje ekki ósanngjarnt, en jeg held, að það verði að halda aftur af til þess að komast sem næst því, sem af verður komist með. Þá ætla jeg enn að bera ofurlítið saman við Snæfells- og Hnappadalssýslu. Þar er einn af allra reglusömustu og duglegustu sýslumönnum landsins og alt í prýðilegu lagi. Hann álítur sig nú þurfa um 4000 kr. En sýslumennirnir í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum telja sig þurfa yfir 5000 kr. Það getur vel verið, að þetta sje í sjálfu sjer ekki meira en vel megi forsvara, en það er ómögulegt annað en bera saman svona hliðstæð embætti og reyna að fylgja svipuðum reglum um þau. Það er ekkert skemtilegt fyrir mig að þurfa að vera að klípa af þessu, en það verður að vera eitthvert samræmi hjer. Annars er ekki svo fjarska langt á milli mín og hv. 3. þm. Reykv. í þessu máli. Fjárhæðin verður altaf að vera áætlunarupphæð, en jeg held, að það verði komist af með dálítið minna en 100 þús. kr. Sýslumaðurinn í Suður-Múlasýslu telur sig þurfa 8 þús. kr., en jeg hygg, að hans kostnaður þurfi ekki að fara yfir 6800–7000 kr. Bæjarfógetinn á Seyðisfirði er óánægður með sínar 7 þús. kr., en margir ætla, að ekki sje stórum erfiðara að vera bæjarfógeti þar og sýslumaður í Norður-Múlasýslu en að vera sýslumaður í Suður-Múlasýslu. Jeg held, að mismunurinn komi býsna mikið af því, að sumir embættismenn reyna að komast af með minna mannahald en aðrir telja nauðsynlegt. Jeg skal ekkert um það segja, hvort mjer hefir í útreikningum mínum í samráði við hv. fjvn. tekist að gæta fullrar sanngirni við alla. Slíkt getur einatt verið álitamál. En jeg hefi reynt að gæta þess, að embættismennirnir fengju þann skrifstofukostnað, sem nauðsynlegur er, og á hinn bóginn reynt að gæta samræmis og gæta allrar sparsemi. Hv. 1. þm. Árn. (MT) talaði eins og honum hefði verið sýnd ósanngirni. Það er þá honum sjálfum að kenna, því að jeg minnist þess ekki að hafa sjeð reikninga frá honum. Það er síður en svo, að jeg vilji gera honum rangt til; jeg hygg, að hans embættisfærsla sje í góðu lagi.

Þetta, sem jeg nú hefi sagt, er meira sagt til þess að skýra afstöðu mína heldur en að jeg vilji mótmæla hv. 3. þm. Reykv. Eins og jeg hefi sagt, er alt þetta álitamál. Ef nú verður farið upp í 100 þús. kr., þá verður ekki komist hjá því að hækka skrifstofukostnað sumra þeirra embættismanna, sem ekki hafa kvartað. Það hefir komið til orða, að það kynni að vera rjettast að ákveða skrifstofukostnaðinn með lögum, sem giltu fyrir ákveðinn árafjölda, t. d. 10 ár. Þá vissu embættismennirnir, að hverju þeir ættu að ganga og mundu reyna að haga sjer eftir því. Mjer hefir fundist það í samtali við sýslumenn og bæjarfógeta utan Reykjavíkur, að þeir væru gramir yfir því, að tveir hliðstæðir embættismenn í Reykjavík fengju sinn skrifstofukostnað samkvæmt reikningi. En þeim hefir verið bent á það, að ákvæði laganna um skrifstofufje þessara tveggja embættismanna eru önnur en um skrifstofufje hinna, nefnilega að það sje ákveðið í hinum árlegu fjárlögum.

Jeg skal geta þess, að það hefir verið tekið tillit til þess um 2–3 embættismenn, að þeir hafa dálitlar aukatekjur af erlendum fiskiskipum, sem þeir fá fyrirhafnarlítið. En þeim hefir ekki fundist þetta sanngjarnt vegna samanburðar við embættisbræður þeirra í Reykjavík. Þegar launanefndin starfaði hjer á árunum, þá ætlaðist hún ekki til, að sýslumenn fengju sjálfir eða bæjarfógetar aukatekjur neinar, en aftur skrifstofufjeð að nokkru í þeirra stað.

Ef bera ætti saman kjör sýslumanna nú og áður en launalögin voru sett, þá held jeg, að þau sjeu yfirleitt betri nú en áður, og ekki lakari en kjör embættismanna yfirleitt.

Jeg tek það fram aftur, að í raun og veru greinir okkur hv. 3. þm. Reykv. ekki mikið á í þessu máli. Upphæðirnar eru hjá okkur báðum áætlunarupphæðir, sem auðvitað verða ekki brúkaðar nema þörf sje á, og heldur ekki sjálfsagt að fara ekki fram úr veitingu, ef nauðsyn ber til.

Jeg tel það varhugavert að taka upp þá reglu að greiða skrifstofufjeð eftir reikningi embættismannanna, enda ætlast ekki lögin til þess. Jeg veit, að störf þessara embættismanna vaxa. En þau hafa vaxið alstaðar; og að það sje ekki eingöngu því að kenna, sem þessar kröfur um aukið skrifstofufje koma fram, sjest af því, að sumir sýslumenn, sem ekki láta annars sitt eftir liggja í því að gegna rækilega sínu embætti, láta sjer nú nægja það, sem þeir fá, jafnvel þótt það sje minna en það, sem sýslumenn í sambærilegum sýslum hafa.