12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg vil nú reyna að haga orðum mínum þannig, að þau gefi ekki tilefni til langrar umr.

Þó verð jeg að svara hæstv. fjrh. nokkru. Hann hóf mál sitt með því, að sjer kæmi ekki ókunnuglega fyrir skoðun mín í fyrri ræðu minn, vegna ástandsins í kjördæmi mínu. Jeg veit satt að segja ekki, hvað hann átti við með því. Jeg býst ekki við, að það hafi verið það, að sambandi mínu við lánsstofnanirnar væri þannig háttað, að þess vegna væru horfurnar ekki sem glæsilegastar. (Fjrh. JÞ: Nei, nei, það er langt frá því. Jeg átti bara við þau miklu töp á lánsfje, sem orðið hafa í kjördæmi hv. þm). Jeg hefi nú ekki orðið var við, að komið hafi nein skýrsla um það, að ástandið í Suður-Múlasýslu sje verra en annarsstaðar á landinu. Og jeg neita því, að svo sje. Jeg skal benda hæstv. fjrh. á aðra sýslu hjer nærlendis, þar sem ástandið er miklu verra en í Suður-Múlasýslu. Það er Árnessýsla. Jeg þori fyrir mitt leyti óhikað að bera þær saman. Í Árnessýslu er nú komið, það ástand, sem verða mun hjer, ef ný lánastofnun kemur við hlið hinna, er hafa bundið alt lánsfje sitt.

Jeg verð því að segja það, að jeg kann hálfilla við það, að fulltrúar Sunnmýlinga sjeu sí og æ brýndir á því, að í þeirra kjördæmi sje svo ilt ástand, að lengra verði ekki jafnað. Vegna þess að þetta er alls ekki rjett, þá verð jeg að lýsa óánægju minni út af því, að slík orð sjeu notuð hjer á Alþingi. Við fulltrúar Sunnmýlinga erum algerlega óháðir lánsstofnuninni á Eskifirði, en það get jeg borið henni, að það hefir aldrei staðið á því, að jeg gæti fengið lán þar, hefði jeg þurft þess, og fje hefir hún altaf haft til að lána.

Jeg býst ekki við því, að hæstv. fjrh. hafi kastað þessu fram til þess að sverta stofnunina, heldur til þess að sýna, að ástandið þar sje ekki gott. Það væri nú betra að líta dálítið nær sjer, því að af þeirri viðkynningu, sem jeg hefi haft af Reykjavík, sjerstaklega í vetur hefir mjer virst, að sum útgerðarfjelölgin sjeu svo miklir vanmetagripir, að aðrir eins finnist ekki í Suður-Múlasýslu. Og víðsvegar á landinu munu ekki öll kurl komin til grafar enn.

Hæstv. fjrh. fræddi mig á því, að þótt seðlaútgáfunni yrði ráðstafað, þá mundi ekki verða frekar fje en áður til útlána. Þetta veit jeg vel, en jeg hygg þó, að það ætti að vera styrkur fyrir bankastarfsemina í landinu. Hefi jeg þar fyrir mjer orð bankastjóra beggja bankanna hjer, að þeir telja bankana ver stadda til þess að ákveða starfsemi sína meðan seðlaútgáfunni er óráðstafað. Gæti farið svo að þessir bankar yrðu báðir færari um að starfa, ef seðlaútgáfunni væri komið í trygt horf, þótt þeir geti það ekki meðan seðlaútgáfan er í lausu lofti eins og nú er.

Hæstv. fjrh. sagði, að bankarnir hefðu ekki getað fullnægt eðlilegri lánsþörf. Ef þeir eru á annað borð vel stæðir, þá skilst mjer, að þeir mundu nú geta fengið lán, því að lánstraust þeirra er enn svo mikið; en þeir vilja ekki gera það meðan alt er á reiki með bankafyrirkomulagið í framtíðinni.

Hæstv. fjrh. sagði, að það væri lítil hætta á því, að nýtt lánsfje yrði látið ónotað, eða að það yrði notað ógætilega. Jeg er honum sammála um það, að bankarnir hafi nú fengið þann árekstur, að lánsfje verði ekki fyrst um sinn notað ógætilega af þeim bönkum, sem nú eru hjer, og að því leyti mættu bankarnir nota lánstraust sitt frekar en þeir hafa gert.

Jeg skal svo ekki þrátta um þetta lengur. Það heldur venjulega hver á sínu í slíkum umræðum. Og jeg hefði ekki staðið upp nú, ef það hefði ekki verið vegna þessarar ádrepu, sem hæstv. fjrh. kom inn í umr.