14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Björn Kristjánsson:

Jeg vildi aðeins endurtaka það, sem jeg sagði um daginn, að jeg skoða þetta frv. ekki þannig, að jeg geti haft von um, að banki verði stofnaður upp af því, og það er af því, að þegar stofnaður er banki, þá eru tveir aðiljar, sem verða að semja. Sá, sem sækir um að fá að stofna banka, og Alþingi, sem vill veita leyfið; en hjer liggur engin umsókn fyrir, nje heldur yfirlýsing um það, hvers þeir menn krefjist, sem vilja leggja fje sitt fram. Jeg tek þetta fram til þess að sýna, að jeg viti og sjái þá meinbugi, sem á þessu frv. eru. Mjer þykir það á vanta, að hinn aðilinn sje viðstaddur og vilji semja; jeg geri ráð fyrir, að þegar peningamennirnir sjá frv., muni þeim ekki líka „skalinn“, sem í raun og veru er bygður á skökkum grundvelli, því að hagur bankans fer ekki eftir því, hvort hann græðir 50 þús. kr. eða 100 þús. kr., heldur einnig eftir því, hve mikið hlutafje stendur í honum. Þess vegna er ekki hægt að binda ágóðann við þá upphæð, sem hann græðir, og þess vegna geri jeg ráð fyrir, að það verði að breyta þessu frv. á næsta þingi, ef peningamenn gefa sig fram. En það skaðar ekki að samþykkja það nú, því að það getur verið bending um, að Alþingi sje fúst á að semja, og þess vegna greiði jeg því atkvæði.