14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg heyrði ekki nema hrafl úr ræðu hv. 3. landsk. (JJ), en í því, sem jeg heyrði, var ekkert nýtt, og þess, vegna þarf jeg ekki að bæta neinn nýju við það, sem jeg hefi áður sagt. En eftir því, sem jeg veit best, er það nú alveg daglegt brauð, að menn geta ekki, vegna fjárskorts bankanna, fengið lán til svo sjálfsagðra hluta sem að greiða vinnulaun og annan sjálfsagðan kostnað við framleiðslu, sem þeir eru þegar búnir að inna af hendi, eins og t. d. útgerðarmenn, sem þurfa að greiða vinnulaun fyrir vertíðina, sem vitanlega koma aftur og meira til, þegar vertíðarfiskurinn verður seldur, jafnvel þótt miðað sje við það sárlága verð, sem á honum er nú. Þessi peningaekla, sem nú er, er alveg óeðlileg, og ef ekki tekst að bæta úr henni, háir hún þjóðfjelaginu, og álít jeg þess vegna rjett að gera einhverja tilraun til að bæta úr henni.