29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

1. mál, fjárlög 1927

Benedikt Sveinsson:

Mjer hefir heyrst, að hæstv. forseta (SigurjJ) sje legið nokkuð á hálsi fyrir það af sumum mönnum, að hann hafi leyft of víðtækar umræður um það málefni, sem hjer liggur fyrir. Hefir sumum þótt hv. 1. þm. Árn. (MT) fara nokkuð langt út fyrir efnið, þar sem hann flutti alllangt erindi um járnbrautarmálið. Jeg þarf eigi að bera blak af hæstv. forseta (SigurjJ) fyrir þetta, því að jeg hygg, að hann hafi litið svo á, að við 3. umr. þessa máls mætti ræða nokkuð alment um fjármál landsins, og var þá eðlilegt, að hin stærstu mál, sem fyrir þessu þingi liggja, bæri á góma. Var það því að vonum, að hæstv. forseti leyfði hv. 1. þm. Árn. að tala um járnbrautarmálið, því að vissulega er það eitt þeirra mála, sem mestu varða fjárhag þessa lands, ef það kemur til framkvæmda. Jeg mun þó ekki nota mjer rjettinn til að tala um fjármálin alment, heldur snúa mjer að einstökum greinum. Þó verð jeg að hafa þann fyrirvara, að jeg stend nokkuð sjerlega að vígi hjer, því að jeg hefi heyrt, að hæstv. atvrh. (MG) hafi tekið það fram, að þær till., sem kæmu fram við 3. umr., hefðu eitthvað minni rjett á sjer en þær, sem þegar kæmu fram við 2. umr. Verður því háttv. deild að athuga það, að jeg hefi sjerstaka aðstöðu í þessu efni. Jeg beið með mínar fáu till. til 3. umr., og bar enga brtt. fram áður, mest af því, að jeg kærði mig ekki um að blanda mjer neitt inn í þær umr., sem hjer voru við 2. umr., enda vildi jeg sjá, hve öðrum svipuðum brtt. reiddi af. Vona jeg, að hv. þdm. láti það ekki bitna á till. mínum, þó að jeg komi nú fyrst fram með þær, enda er það ekki svo, að jeg komi með neinar till. til stóraukinna útgjalda. Þessar till. mínar eru mjög einfaldar og skiljanlegar, og þarf ekki að lengja umr. þeirra vegna. Jeg vona því, að háttv. þingdeild taki þeim vel. Eru þær á fullkomnum rökum bygðar, svo sem sýnt verður, og ekki farið fram á neitt annað en það, sem öllum öðrum hjeruðum er veitt, þar sem eins er á komið. Kjósendur mínir eru einna fjarst Reykjavík, eftir því sem orðið getur hjer á landi, og verður ekki sagt, að þeir krefjist mikils af Alþingi; ætti því hinum fáu og sanngjarnlegu óskum þeirra að verða því betur tekið.

Það, sem Norður-Þingeyjarsýsla fyrst og fremst þarf að fá, eru 10 þús. kr. til brúar á Brunná í Öxarfirði. Á þessi er á þjóðveginum, og er því skylda ríkissjóðs að brúa hana. Hún er einnig á flutningaveginum frá Kópaskeri inn eftir hjeraði. Hún er engin stórelfur, lygn, en nokkuð djúp, og mun auðvelt að brúa hana, því að grjót er nærtækt og gott að flytja efni að. Er nauðsyn hin mesta að brúa ána, af því að hún er oft ófær yfirferðar fyrir vagna, og venjulega of djúp fyrir þá, nema þegar hún er sem allra grynst, um hásumarið, og bifreiðum er hún ávalt ófær. Hjeraðið umhverfis er þurlent, og verði áin brúuð og lítilsháttar gert við veginn á stöku stað, þá má fara á bifreiðum frá Kópaskeri inn um alt hjerað, að Jökulsárbrú og þaðan um mestalla bygð Kelduhverfis, enda hafa hjeraðsmenn vakandi auga á þessu máli og hafa þegar tveir menn þaðan lært að fara með bifreiðar, eingöngu í þeim tilgangi að geta tafarlaust hafið flutninga, þegar brúin verður reist á Brunná. Jeg hefi talað um þetta við vegamálastjóra og hann tekið mjög vel í málið, enda hefir hann sjálfur farið yfir ána og sjeð, að brýn nauðsyn er að brúa hana. Þetta er og eindregin ósk kjósenda minna, sem sjá má ennfremur af tveimur þingmálafundargerðum úr Norður-Þingeyjarsýslu, sem legið hafa frammi í lestrarsal. Vænti jeg því, að till. þessi sæti ekki mótmælum, heldur verði einróma samþykt.

Þá hafa kjósendur mínir og beðið mig að fá veitt fje til sýsluvegarins frá Kópaskeri inn í Öxarfjörð. Til þessa vegar hefir lítilsháttar verið veitt áður, og hefir það fje verið mjög vel notað. En nú þarf enn dálitla viðbót til lagfæringar veginum, og þykist jeg mega treysta því, að þeirri nauðsynjabeiðni verði sint, svo sem fram á er farið.

Þá hafa Langnesingar farið fram á að fá dálítið fje til vegar frá Þórshöfn að Sauðanesi. Er þetta hin illfærasta leið. Getur jafnvel komið fyrir, að hún sje ófær um hásumarið. Að vísu er einn brautarstúfur á leiðinni, sem bóndi Syðralóns gerði fyrir mörgum árum, til þess að koma fje sínu til beitar. En þar sem braut sú var ekki gerð í þeim tilgangi að vera alfaravegur, þá er hún ekki á sem heppilegustum stað, og þarf því að leggja veginn allan af nýju á öðrum stað.

Heima í hjeraði hefir þegar verið safnað samskotafje til þessa vegar. Er því ekki farið fram á hjer, að veitt verði meira fje til hans en eftir sama hlutfalli, sem vant er að veita til slíkra vega.

Jeg mun ekki gerast hlutdeilinn um margar brtt. annara háttv. deildarmanna. En þó vil jeg sjerstaklega mæla með styrk til Skúla læknis Guðjónssonar. Læknirinn er mjög efnilegur vísindamaður, hálærður í sinni grein. Tel jeg því happaverk af deildinni að veita honum styrk, svo að hann megi stunda þau fræði, er hann hefir lært til, svo að þekking hans megi verða sem fullkomnust og þjóð vorri að sem mestu gagni.

Þá vil jeg mæla með tillögu háttv. þm. Dal. (BJ), um fje til akvegar frá Fellsenda að Breiðahólsstað í Sökkólfsdal. Þetta fje er ætlað til framhalds veginum frá Búðardal í áttina til Borgarfjarðar. Er fjárveiting þessi því engu síður til hagsbóta fyrir Borgfirðinga og aðra langferðamenn, er nota hann, heldur en Dalamenn. Vænti jeg því, að háttv. deildarmenn samþykki tillöguna og láti þennan þingskörung, sem nú er sjúkur, síst gjalda þess, að hann er fjarverandi.

Hæstv. atvrh. (MG) hefir talað um, að menn færu nú mjög freklega í kröfur um samgöngubætur, svo freklega, að menn hefðu aldrei verið jafnkröfufrekir áður. Út af þessum ummælum vil jeg benda hæstv. ráðherra á, að tekjur ríkissjóðs hafa aldrei verið jafnmiklar og nú, svo að ekki er nema eðlilegt, að alment sjeu gerðar meiri kröfur en áður um framlög úr ríkissjóði til nauðsynlegra umbóta, er lengi hafa orðið útundan. Hafa og allar verklegar framkvæmdir verið látnar sitja á hakanum undanfarin ár, til þess að rjetta við fjárhag ríkissjóðs. Jeg þarf þó alls ekki að tala um þetta mín vegna eða míns kjördæmis, því að eins og jeg hefi tekið fram áður, þá er það nauðalítið, sem jeg fer fram á. En jeg segi þetta til þess að bera blak af öðrum hv. þm. Annars finst mjer, að hæstv. stjórn, sem er svo áræðin að vilja leggja járnbraut austur yfir fjall nú á næstu árum fyrir margar miljónir króna, ætti síst að lá hv. þingmönnum, þó að þeir biðji um lítilsháttar framlög til nauðsynlegra fyrirtækja í ýmsum hjeruðum landsins.