22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

74. mál, afnám gengisviðauka á vörutolli

Frsm. (Klemens Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykjav. hjelt því fram, að leiðinlegt væri að koma fram með margar breytingar á sömu lögunum á sama þingi, og get jeg, verið hv. þm. sammála um það, en það tíðkast þó, því að það eru oft lagðar fyrir þingið 2–3 breytingar á sömu lögum í senn. En hitt er það, að það en ekki síður leiðinlegt að þurfa altaf að vera að endurtaka það, sem maður hefir oft sagt áður. Hv. 2. þm. Reykv. spurði mig fyrst, þegar þetta frv. kom fram, og jeg svaraði þá, að úr því að þetta frv. ætti að koma í gildi 1. apríl 1926, þá þýddi ekkert að vera að tala um að láta það bíða eftir úrslitum fjárlaganna. En jeg skal játa það að nú, eftir að komnar eru fram brtt. hv. fjvn., þá er hægra að fara að átta sig á málinu, jafnvel þó að menn viti ekki um brtt. frá einstökum þm., og ekki hvort þær verða samþyktar. Jeg skal ekkert fara að tala um alment útlit fyrir fjárhaginn. Það er að vísu svo, að hann er ekki sem glæsilegastur, og ef miðað er við fjárlögin, þá finst mjer heldur horfa til aukinna útgjalda heldur en hitt, svo að frá því sjónarmiði má búast við, að fjvn. verði treg til að koma með brtt. í þá átt að minka tekjur ríkissjóðs tíð miklum mun. Jeg gæti fyrir sjálfan mig hneigst að því að afnema kaffitollinn, en tel það ógerlegt sem stendur, vegna hags ríkissjóðs. Jeg skal loks taka það fram, af því að hæstv. fjrh. nefndi það, að sykurtollurinn er lægstur hjer á öllum Norðurlöndum. Þetta upplýsti jeg, þegar jeg lagði fram frv. um gengisviðauka fyrir þingið 1924 Jeg lagði þá fram tölur, sem jeg hafði fengið hjá skrifstofustjóra Jóni Krabbe, og jeg man það líka, að hv. 2. þm. Reykv. vildi þá vjefengja þær, en það var ekki hægt. Jeg sje ekki neina ástæðu til þess fyrir hv. þm. að fara að taka aftur eða geyma brtt. sínar til 3. umr. Jeg held, að það sje langbest að láta slag standa nú þegar um það, hvort þær verða samþyktar eða feldar.