29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Kjartansson:

Jeg stend ekki upp til að mæla með þeirri einu brtt., sem jeg er við riðinn. Það hefir hv. meðflm. minn (JBald) gert. Annars hugsa jeg, að við flm. getum tekið tillöguna aftur, eftir að hafa heyrt ummæli hæstv. forsrh. (JM).

Þá vil jeg þakka háttv. fjvn. fyrir, að hún hefir mælt með, að Mýrdals- og Borgarfjarðarlæknishjeruðum verði greiddur lokastyrkur vegna læknisbústaðanna. Hv. frsm. lýsti því yfir fyrir hönd nefndarinnar, að nefndin legði til, að þessum hjeruðum yrði veittur lokastyrkur af fje því, sem veitt er í yfirstandandi fjárlögum til byggingar lækniabústaða, en ekki verður notað á árinu. Vænti jeg að hæstv. stjórn taki tillögu þessa til greina og veiti hjeruðum þessum styrk, sem nemi 1/3 byggingarkostnaðar, eins og vanalegt er.

Aðalástæðan fyrir því, að jeg stóð upp, er tillaga samgöngumálanefndar undir tölulið XXII.2, þ. e. báta- og vjélkaupastyrkur, kr. 18500. Jeg hefi nefnilega heyrt, að háttv. fjvn. mæli eindregið á móti þessum styrk, og finst mjer það undarlegt, ef satt er, þar sem jeg hygg, að vandfundin sje brtt., sem er jafnnauðsynleg sem þessi.

Það er ekki af því að jeg er í samgöngumálanefnd, að jeg geri þessa tillögu að umtalsefni. Háttv. frsm. er þar fullfær. Heldur er það af því, að það snertir mig sem þm. Skaftfellinga, þar sem 8 þús. kr. af þessari upphæð áttu að vera styrkur til h/f Skaftfellings til þess að kaupa nýja vjel í bátinn Skaftfelling.

Jeg skal þá með nokkrum orðum skýra fyrir háttv. deildarmönnum, af hvaða ástæðum er farið fram á að fá þessa fjárveitingu.

Bátur þessi hefir nú um langt skeið haldið uppi ferðum milli Reykjavíkur og Skaftafellssýslna. Hann hefir frá upphafi haft mjög kraftlitla vjel, aðeins 48 hestafla vjel, í 60 smál. bát. Og nú er svo komið, að vjelin er orðin mjög ljeleg, svo ljeleg, að ekki getur talist forsvaranlegt að láta hana vera í bátnum lengur, þar sem hann gengur um þetta hættulega svæði. Vegna þess hvað vjel bátsins er kraftlítil, kemst hann ekki ferða sinna, ef eitthvað blæs á móti.

Nú er svo komið, að hlutafjelagið „Skaftfellingur“ hefir ráðist í að kaupa nýja vjel. Hefir sú vjel 96 hestöfl, og er tvöfaldur Alfamótor og brennir hráolíu. Að ráðist var í þetta, var og meðfram af því, að fjelagið treysti á víðsýni háttv. Alþingis. Fjelagið hefir komist að hagkvæmum kaupum á vjel þessari. Verksmiðjan, sem selur hina nýju vjel, ætlar að taka þá gömlu upp í hana, og mun þá nýja vjelin kosta um 24 þús. í íslenskum krónum hingað komin. Það er nú síður en svo, að Skaftfellingar láti sig þetta mál engu skifta. Þeir hafa aukið hlutafjeð um 10 þús. kr. Þeir hafa af knýjandi nauðsyn ráðist í þetta, og það þrátt fyrir það, þó að rekstur bátsins hafi verið mjög bágborinn síðustu árin. Stjórn h/f Skaftfellings hefir þó gert alt, sem í hennar valdi stóð, til þess að reyna að láta rekstur bátsins bera sig, m. a. haft farmgjöldin með honum 20–25% hærri en þau eru með strandferðaskipum ríkissjóðs. En eigi að síður er svo komið, að fjelagið á 10–20 þús. kr. minna en ekki neitt. Getur því ekki komið til mála, að Skaftfellingar upp á eigin spýtur geti ráðist í að kaupa þessa dýru vjel, og bæta með því fullum 20 þús. kr. ofan á skuldabaggann. Fái þeir því ekki þessa umræddu upphæð, verður afleiðingin sú, að þeir verða að hætta við að halda þessum ferðum uppi og reyna að selja bátinn áður en skuldabaggarnir hafa vaxið þeim yfir höfuð.

Enginn getur með sanngirni ætlast til þess, að h/f Skaftfellingur taki á sig stórtöp árlega, ef Alþingi vill ekki verða við rjettmætum kröfum þess.

Vilji Alþingi ekki veita þennan styrk nú, þá skil jeg það svo, sem það ætli að halda uppi samgöngum á þessu svæði á annan hagkvæmari hátt, því að það getur varla verið tilætlunin að hætta að styrkja samgöngubætur við þessi mjög svo einangruðu hjeruð.

Jeg held, að það hafi verið háttv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem sagði, að það væri hreint og beint skylda fjvn. að verða vel við þessum tilmælum samgmn. Jeg skal ekki hafa svo sterk orð. En hitt hefði jeg kunnað betur við, að hún hefði skýrt samgmn. frá ástæðum sínum gegn þessari fjárveitingu. En það hefir hún ekki gert.

Háttv. frsm. fjvn. (ÞórJ) sagði, að samgöngumálanefnd hefði ekki ráðfært sig við fjvn. um þetta. En þessi ummæli skil jeg ekki, því að samgmn. skrifaði henni brjef 13. mars um málið. Og það brjef er einmitt hjer, og er sannanlegt, að það komst í hendur fjvn.

Jeg hjó eftir því hjá háttv. 1. þm. Árn. (MT), að hann tæki ummæli háttv. 2. þm. Rang. (KlJ) illa upp, og meðal annars vitnaði hann í eina gr. þingskapanna, þar sem svo segir: „Ef fjárveitinganefnd, í einu hljóði með nafnakalli, sem bókað sje í fundarbók nefndarinnar, mælir í móti einhverri fjárveitingu, þarf 2/3 greiddra atkvæða til þess að fjárveitingin nái fram að ganga.“

Jeg veit ekki, hvort þessi ummæli ber að skilja svo, að fjvn. hafi í þessu máli notað þessa sjerstöku aðferð. Og sje svo, þá hefir fjvn. hjer sýnt af sjer óvenjumikla röggsemi. En jeg tel vafasamt, að hún ávinni sjer fyrir það heiður að sama skapi, einkum ef henni tekst með þessu að svifta einangruðustu hjeruð landsins þeim einu samgöngum, sem þau til þessa hafa haft.

Skal jeg svo ekki orðlengja um þetta frekar, en að lokum vildi jeg minnast með nokkrum orðum á eitt atriði almenns eðlis, sem snertir afgreiðslu þessara fjárlaga, en þó ennþá meira afgreiðslu þeirra í framtíðinni. Menn munu hafa tekið eftir því, að í þessum fjárlögum er óvenjumikið fje, sem ætlað er til verklegra framkvæmda, til vegagerða, brúargerða og símalagninga. Er það ekki nema eðlilegt, því á undanförnum árum hefir verið mikil kyrstaða í þeim efnum. Nálega allar verklegar framkvæmdir ríkissjóðs hafa orðið að bíða vegna fjárskorts.

Jeg hefi haldið, að það væri föst venja að haga sjer í þessum verklegu framkvæmdum eftir því, hvar nauðsynin í hvert sinn væri brýnust. Og til þess að skera úr því, hvar nauðsynin væri brýnust, hefði ríkið trúnaðarmenn, vegamálastjóra, landssímastjóra o. s. frv. Tillögur trúnaðarmannanna hafa jafnan verið látnar ráða, hvar væri hafist handa. En nú er svo komið, að einstakir þingmenn koma fram með tillögur, sem taka einstök verk út úr kerfinu, og knýja fram fje úr ríkissjóði til þeirra, þvert ofan í tillögur trúnaðarmannanna. Þetta kom fyrir við 2. umr. fjárlaganna hjer í deildinni, og var látið óátalið af fjárveitinganefnd. Og stjórnin virtist ekkert hafa á móti því, að þetta væri gert. En þetta er óheppileg braut, sem farið er út á með þessu. Því að verði nú farið að breyta út af hinni gömlu og góðu reglu, að trúnaðarmenn stjórnarinnar eigi að ráða mestu um hinar ýmsu framkvæmdir ríkissjóðs, þá gæti jeg trúað, að afleiðingin yrði slæm. Þm. myndu fara í kapphlaup eftir fje úr ríkissjóði til framkvæmda, hver handa sínu hjeraði. Og það yrði ekki nauðsynin, sem rjeði því, hvar yrði hafist handa, heldur flokksfylgi þingmanna. Jeg vil því ráða til þess, að svo verði sem hingað til, að nauðsyn verði látin ráða, hvar hafist er handa með verklegar framkvæmdir. Og ef stjórnin og fjvn. eru sammála um það, að þetta eigi svo að verða, þá ber þeim að spyrna með krafti á móti því, að einstakir þingmenn taki sig svona út úr með einstakar tillögur, því að slíkt hlýtur að draga stóran dilk á eftir sjer.