22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

74. mál, afnám gengisviðauka á vörutolli

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vildi aðeins skjóta örfáum orðum til hv. 2. þm. Reykv. Jeg vil skora á hv. þm. að taka aftur brtt. sínar, því að eins og nú standa sakir, get jeg ekki greitt þeim atkv. mitt, en það getur borið svo við, að jeg vilji greiða atkvæði með afnámi á tolli, sjerstaklega af sykri, ef hæstv. fjrh. og hv. 2. þm. Reykv. tekst að snúa þinginu inn á þá braut að hækka gildi krónunnar. Þá álít jeg sjálfsagt að fella niður tollana, en á meðan jeg hefi von um, að ekki verði snúið að því óheillaráði, get jeg ekki verið með þessari tillögu.