12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Jeg hafði gert mjer góðar vonir um, að þetta frv. fengi að ganga hindrunarlaust í gegnum báðar deildir, og allra síst mundi mjer nokkru sinni hafa komið til hugar, að stjettarbræður mínir færu að fleyga málið og tefja fyrir því. En það kalla jeg að þeir geri, þegar á það er litið, að hjer liggur fyrir frv., sem allur þorri hv. þdm. er á einn máli um, að nái fram að ganga, en aftan í það er svo hnýtt öðru máli, sem að vísu er gott í sjálfu sjer, en á nú sem stendur formælendur fá og tvísýnt mjög um framgang þess, enda svo um það deilt, að sjálf nefndin, sem haft hefir það til meðferðar, er ekki á sama máli.

Meiri hl. landbúnaðarnefndar hefir farið þess á leit við hv. flm., hvort þeir vildu ekki taka brtt. aftur og flytja hana í liðnu formi, t. d. koma með frv. í þessa átt. Á það hefðum við nefndarmenn getað fallist og eftir því sem orð fjellu hjer í háttv. deild í gær, er málið var tekið af dagskrá, bjóst jeg jafnvel við, að sú leið yrði farin, að koma með sjerstaka frv. um byggingu strandferðaskips. En þetta hefir ekki verið gert, málið borið fram eins og það lá fyrir í gær, og er mjer óskiljanlegt þetta kapp, sem hv. flm. leggja á það að hnýta strandferðaskipinu aftan í kæliskipið. Jeg verð að líta svo á, að það sýnist bera vott um, að bæði þessi mál eigi að fylgjast að, og ef svo vill verða, þá í einn og sömu gröfina.

Það er líka eitt, sem ekki greiðir fyrir frv. og því máli sem það átti að bera uppi, ef brtt. verður samþykt, því að með henni á strandferðaskipið að koma á undan kæliskipinu. Í brtt. er það tekið fram skýrum orðum, að það eigi að vera fullgert næsta vetur. Mætti því gera ráð fyrir, ef þröngt væri um fjárgreiðslur ríkissjóðs, að strandferðaskipið yrði bygt fyrst, en hitt látið sitja á hakanum, hver veit hvað lengi.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en geta þess, að landbn. hefir að sjálfsögðu óbundin atkvæði um brtt., þar sem einn nefndarmaður er flm. hennar og greiðir eflaust atkvæði með henni, en meiri hl. nefndarinnar greiðir atkvæði á móti brtt.; það þykist jeg mega fullyrða.