12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Þorleifur Jónsson:

Af því að jeg er meðflm. þessarar brtt., sem útlit er fyrir, að verði talsvert þráttað um, þá verð jeg að segja fáein orð.

Finst mjer þá hlýða að hefja mál mitt með því að þakka hv. landbn. og hæstv. atvrh. fyrir að bera fram frv. um byggingu kæliskips. Get jeg skrifað undir alt það, sent hv. frsm. landbn. (JS) sagði við 1. umr. þessa máls, því að hjer er áreiðanlega um eitthvert stærsta framfaraspor fyrir landbúnaðinn að ræða. Það er ekki lítið í það varið, ef tækist að víkka markað fyrir afurðir landbúnaðarins og jafnhliða hækka verðið, en að þessu er stefnt með byggingu kæliskipsins. Þess vegna er mjer óblandin ánægja, hvað þetta mál er komið á góðan rekspöl, því auðsætt er, að ekki vantar nema herslumuninn, eins og sjest á því, að Eimskipafjelag Íslands leggur til skipið, en ríkisssjóður þarf aðeins að kasta kæliútbúnaðinn. Er þetta mikil breyting frá því, sem ráð var fyrir gert í fyrra, því að þá kom jafnvel fram, að bygging kæliskips mundi aldrei kosta undir 1 miljón króna, en það ljetu líka margir á sjer heyra, að í þann kostnað væri ekki horfandi. Mál þetta væri svo mikið nauðsynja- og framtíðarmál.

Af þessu má sjá, að þótt við flytjum tillögu um byggingu strandferðaskips, er það alls ekki til að spilla fyrir frv. um kæliskipið, eða eins og heyrst hefir, að við flm. vildum með brtt. tefja fyrir byggingu kæliskipsins. Slíkt er hin mesta fjarstæða, enda þykir mjer hart að þola þau brigslyrði hv. 2. þm. Skagf. (JS), að við með brtt. okkar sjeum að fleyga málið. Það eru algerlega rangar getsakir og tilhæfulausar með öllu. Hann veit það líka og hlýtur að viðurkenna það með sjálfum sjer, hv. þm., að það er ekki af illum hug við kæliskipið, að við berum fram brtt., því við erum því máli trúir engu síður en hann, heldur vakir það fyrir okkur, að sem mest og best not geti orðið að kæliskipinu, en það teljum við að geti aðeins orðið með því eina móti, að strandferðirnar sjeu bættar svo, að við þær megi una fyrir allan landslýð.

Það er á allra vitorði, að strandferðir hafa verið afarófullkomnar núna síðustu 10 árin. Jeg þarf ekki að lýsa því, hvað allir landshlutar voru betur settir með strandferðir fyrir stríð, eða á þeim árum, sem Austri og Vestri, og stundum þriðja skipið, stunduðu þær. Þarf því síst að furða þó að margir sjeu orðnir langleitir eftir því, að bætt sje úr samgönguleysinu með ströndum fram, og að landsmenn heimti það af fulltrúum sínum hjer á þingi, að þeir láti ekki reka á reiðanum um þessi mál, eins og viljað hefir við brenna undanfarið. Þess vegna er og hart að heyra því núið þeim um nasir, sem ekki þola sömu kyrstöðu í málinu, að það sje í óhreinum tilgangi gert að leggja nú til, að strandferðirnar verði færðar í það horf, að allir megi sem best við una.

Jeg skal t. d. geta þess, svo að mönnum sje ljóst, hvernig strandferðunum er nú háttað, að í sumar sást skip tvisvar sinnum á Hornafirði. En á meðan þeir fóru reglubundið með ströndum fram Austri og Vestri, var komið við á Hornafjarðarósi í hverri ferð að sumrinu. Og sömu söguna hygg jeg, að fleiri hafi að segja, t. d. Vestfirðingar; þar munu margar smáhafnir verða útundan nú, sem muna þó fífil sinn fegri.

Að vísu skal það játað, að sumstaðar er bætt úr með ferðum Goðafoss, en það eru aðeins stóru hafnirnar, sem fyrir þeim hlunnindum verða, svo að þeir, sem næstir þeim búa, þurfa kannske ekki að kvarta. En það verður líka að taka tillit til þeirra, sem í skugganum búa, og er síst sæmandi fyrir löggjafarvaldið að halda þeim áfram í myrkrinu.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) gerði lítið úr því, að samgönguleysið mundi hrekja fólkið úr sveitunum, en því er þó svo varið, að einmitt vondar og óhagstæðar samgöngur verða þess valdandi, að fólkið tapar trúnni á sveitirnar og leitar þangað, sem það hyggur, að hægra sje að bjarga sjer. Jeg þekki mörg slík dæmi, þó jeg hirði ekki um að nefna þau. Þó skal jeg geta þess, að úr mínu hjeraði fluttust þrír bændur í fyrra og í vor stendur til, að einn eða tveir taki sig upp og leiti á burt. Og enginn kemur í staðinn, jarðirnar leggjast í eyði eða eru nýttar af nágrönnunum, sem þurfa þeirra þó ekki við. Og spyrji maður þessa bændur, hvers vegna þeir flytji á braut, er svarið á þessa leið: Hjer er ekki búandi vegna samgönguleysis og annara ókosta, sem því fylgja. Það er áreiðanlega engin fjarstæða, þó menn álykti sem svo, að eftir því sem samgöngurnar batna og eru gerðar fullkomnari, því betur uni fólkið hag sínum heima fyrir í sveitunum.

Að þetta mál sje fjarskylt aðalkjarna frv., get jeg ekki skilið. Kæliskipið er aðallega gert fyrir stóru hafnirnar, en með brtt. okkar er stefnt í þá átt, að smærri hafnirnar geti komið sínum framleiðsluvörum óskemdum á markaðinn. M. ö. o., litla strandferðaskipið á að flytja vörurnar af smæri höfnunum í veg fyrir kæliskipið eða í það.

Hugsum okkur t. d., að á Hornafirði bíði 600 kindaskrokkar, sem strandferðaskipið flytur til Reyðarfjarðar og kemur þeim fyrir í húsi þar þangað til kæliskipið kemur sem flytur þá áfram á markaðinn, eða ef svo heppilega tækist til, að skipin lægju samtímis á Reyðarfirði, þá er ekki annað en skipa vörunum á milli þeirra. Nei, það getur enginn sagt með rjettu, að hjer sje um óskyld mál að ræða. En hinsvegar virðist mjer alt benda á það, að þeir hv. þdm., sem eru á móti brtt., hafi enn sem komið er ekki áttað sig á henni, og af þeim ástæðum sjái þeir ekki hversu gott og mikilvægt málefni sje hjer á ferðinni.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði, að háttv. samgmn. hefði ekki sjeð sjer fært að taka upp þessa till. um byggingu strandferðaskips, vegna kostnaðarins, er af því leiddi. Því skal að vísu ekki neitað, að það er dýrt og upphæðin, 400 þús. kr., allhá. Þó eru hjer nefnd ýms fyrirtæki, sem ekki kosta minna, og þó ekki komin öll kurl til grafar enn. Og í fjárlagafrv. blöskrar hæstv. stjórn ekki að fara fram á 300 þús. kr. fjárveitingu, sem gengur að mestu leyti til símalagninga í einn einasta hjeraði. Jeg er ekki með þessu að álasa hæstv. stjórn, enda tel jeg þessa fjárveitingu að mörgu leyti rjettmæta. En jeg bendi á þetta til þess að sanna, að það eru fleiri stórhuga en við, sem stöndum að brtt. á þskj. 120.

Í raun og veru get jeg ekki betur sjeð en að við á þessum tíma höfum ráð á að byggja strandferðaskip og leggja jafnhliða í kæliskip. Hitt má kannske segja, að rekstur þessara skipa sje svo dýr, að tap verði á honum. Við vitum, að strandferðirnar hafa aldrei borið sig, og munu að líkindum ekki gera það fyrst um sinn. En frá þeim kostnaði má þó draga flóabátastyrki þá, sem óumflýjanlegt er að veita á meðan strandferðirnar eru í þessu öngþveiti, en þeir mundu falla niður að mestu leyti, þegar bætt væri við nýju strandferðaskipi.

Hjer er áreiðanlega um stórt framfaraspor að ræða, enda mun það sýna sig, að samgöngumálum okkar er ekki borgið fyr en við höfum borið gæfu til þess að eignast svona skip.

Það er fjarri mjer að lasta það, að samgöngur á landi verði bættar og fullkomnaðar. En það er líka jafnsjálfsagt að nota þá samgöngubraut, sem liggur hringinn í kringum landið og ekki þarf að leggja, þó kaupa þurfi skip, er kostar nokkur hundruð þúsund krónur.

Þess vegna segi jeg það, að enginn hv. þdm. þarf að skammast sín fyrir það að ljá svona nauðsynjamáli fylgi sitt.