12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Sveinn Ólafsson:

Mjer virðist, að ekki hafi verið tekið nógu mikið tillit til þess í þeim umræðum, sem hjer hafa farið fram, að hjer er að ræða um hagsmunamál allrar þjóðarinnar, en ekki aðeins lítils hluta hennar. Umræðurnar hafa aðallega snúist um það, sem fram hefir komið áður, í sambandi við annað mál, og lutu að því að átelja frammistöðu mína í þessu máli, vegna sambandsins við þál. um leiguskip til strandferða. Háttv. frsm. landbn. (JS) fór fremur óvirðulegum orðum um till. okkar á þskj. 120. Jeg get þó að mestu látið honum ósvarað, því að hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) hefir svarað flestu. Hv. frsm. reyndi með endurteknum fullyrðingum að koma því inn í vitund tilheyrenda, að við sem brtt. flytjum, værum með henni að grafa aðalfrv. gröf og vildum eyðileggja það. Þetta segir hann, þótt jeg áður lýsti yfir því, að jeg mundi fylgja frv. þótt okkar brtt. yrði feld. og það mundu að líkum allir stuðningsmenn till. gera líka. Þetta eru því alóþörf olnbogaskot frá hendi hv. frsm.

Það var einkum hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), sem gaf mjer tilefni til þess að standa upp aftur. Hann átaldi það með þungum orðum, að jeg hefði farið á bak við samgmn., er jeg gerðist flm. þessarar brtt. (JAJ: Jeg mintist ekkert á það). Háttv. þm. var að tala um gabb og blekkingar, og það leyndi sjer ekki, hvað fyrir honum vakti. Út af þessu vil jeg láta þess getið, að samgmn. gat ekki orðið sammála um það óskift að flytja þessa till., þótt einstakir menn í nefndinni væru henni hlyntir. Að samgmn. var ekki fjarri þessari till. um nýtt strandferðaskip, kemur best fram í niðurlagi greinargerðar þeirrar till., er nefndin flutti, sem jeg, með leyfi hæstv. forseta, vil leyfa mjer að lesa upp:

„Vjer álítum að vísu, að stefna beri að tíðari og meiri strandferðum en fengist geta með Esjuferðunum og leiguskipi að haustinu og að rekstur þeirra geti eigi haganlegur orðið fyr en aðgreindir eru að mestu vöruflutningar og flutningur pósts og farþega og hentugt, innlent flutningaskip fer strandferðir ásamt Esju.“

Í þessu finst mjer liggja talsvert ljós bending um það, hvað fyrir nefndinni hefir vakað. Þegar því hv. þm. N.-Ísf. er þungorður í minn garð út af þessari brtt. og telur mig hafa farið bak við nefndina með hana, þá hygg jeg, að það stafi af vondri samvisku hjá honum og eftirsjá af því að hann vildi ekki á sínum tíma styðja mig í því að flytja hana. Það hlýtur að vera þessi óþægilega vitund hjá honum, sem ýfir skapið. Hv. þm. sagði, að með aðalfrv. væri ljett undir með öðrum atvinnuvegi landsins, en með brtt. væri þyngt á hinum atvinnuveginum. Þetta er kynleg kenning. Eru ekki strandferðirnar fyrst og fremst fyrir atvinnuvegi landsins? Hvar er merkjalínan milli gagnsins af þeim fyrir hvorn atvinnuveginn? Það er alveg ósjeð, hvorum atvinnuveginum þær gagna meira.

Háttv. þm. gaf undir fótinn um það, ef ekki yrði samþykt þessi brtt., að þá mætti vænta niðurfærslu á sköttum, — hann nefndi um eina miljón eða meira —, en honum fanst vonlítið, að þess mætti vænta, ef brtt. okkar yrði samþykt. Slík tylliboð freista einskis. Fjeð er til frá fyrri árum í tekjuafgangi handa báðum skipunum, enda er ekki nema nokkur hluti þessarar miljónar, sem hv. þm. ætlar að gefa upp í sköttum, er mundi eyðast í strandferðaskipið.

Jeg verð að halda því fram, að auknar strandferðir ljetti jafnt undir með báðum aðalatvinnuvegum vorum: stuðningurinn er bæði til lands og sjávar. Hv. þm. vill vjefengja þau orð mín, að bættar samgöngur á sjó mundu spekja fólkið í sveitunum, og hjelt hann því fram, að til þess væru betur fallnar bættar samgöngur á landi. Jeg skal nú alveg láta hann um þessa kenningu, og getur hann t. d. reynt að sannfæra Hornfirðinga um það, að þeir hafi meira gagn af vegi yfir Holtavörðuheiði en strandferðaskipi.

Jeg held í alvöru, að það eigi langt í land ennþá, — mannsaldra ef til vill, — að afskektari hjeruð og sveitir á landinu komist í samband hver við aðra landleiðina. Aðalsambandið landshlutanna á milli og hjeraða með ströndum fram verður því að vera um sjóinn, meðan vegirnir á landi koma ekki að fullum notum, og það munu þeir ekki gera á næsta mannsaldri, nema þar sem þjettbýlast er. Jeg held jeg láti svo úttalað um þessar ávítur háttv. þm. N.-Ísf. til mín, tel rjettast að láta þær inn um annað eyrað og út um hitt.

Hæstv. atvrh. (MG) vjek að mjer nokkrum orðum í síðustu ræðu sinni, og bar hann fram þá ósk, að við flm. þessarar brtt. tækjum hana aftur og bærum hana heldur fram í sjerstöku frv. En hann tók ekkert fram um það, hvað unnið væri við það að flytja þetta mál í tvennu lagi, og þess vegna finst mjer vera lítil ástæða til þess að verða við tilmælum hans, og þar eð jeg hinsvegar heldur ekki get borið mig saman við hv. meðflm. mína, þá get jeg heldur ekki gefið fyrirheit um þetta. (Atvrh. MG: Jeg bað hv. þm. um þetta í gærdag). Auk þess er jeg alls ekkert gefinn fyrir að fara í þessháttar hnífakaup að ósjeðu. Hæstv. atvrh. segir, að með brtt. okkar sje óvinsælu máli hnýtt aftan í vinsælt mál. (Atvrh. MG: Jeg sagði ekki óvinsælu, jeg sagði aðeins, að hitt málið væri vinsælla). Jeg held jeg hafi þetta alvegt rjett eftir hæstv. atvrh. Hann sagði ennfremur, að framkoma okkar flm. brtt. væri óviðeigandi, af því að samgöngumálanefndir beggja deilda hefðu komið sjer saman um að koma ekki með tillögur um, að gert yrði út um skipakaup á þessu þingi. Þetta er ekki rjett hjá hæstv. ráðh.; þær hafa aldrei tekið þá ákvörðun saman. En hitt er satt, að samgöngumálanefnd Nd. var ósammála um flutning þessarar brtt. og vildi ekki kljúfa sig um hana, en varð sammála um leiguskip á þessu ári.

Þá taldi hæstv. atvrh., að kostnaðurinn mundi verða miklu meiri við að smíða skipið en brtt. okkar gerði ráð fyrir, og er það rjett að því leyti, að ef miðað er við 375 þús. kr. danskar, svo sem Nielsen framkvæmdarstjóri gerir, þá verður það nokkuð meira en 400 þús. kr. ísl. eftir núverandi gengi. En þetta er aðeins áætlunarupphæð og munurinn skiftir hjer litlu.

En á það má líka minna, að tilboða hefir aðeins verið leitað um smíðið frá örfáum stöðum, eða máske aðeins einni skipasmíðastöð. Á fyrri árum, meðan jeg var í nánara sambandi við Noreg en nú, var mjer nokkuð kunnugt, hvernig þar var háttað um skipasmíðar. Norðmenn áttu þá ýmsar góðar skipasmíðastöðvar, og voru að minsta kosti tvær stöðvar, sem voru mjög fullkomnar og færar til þeirra hluta, og þó ljetu þeir mjög smíða skip sín erlendis. Keyptu þeir smíði þeirra aðallega í Glasgow á Skotlandi, þar sem vera munu ábyggilegastar, bestar og ódýrastar skipasmíðastöðvar af þeim, sem oss liggja nærri. Þess vegna álít jeg ennþá órannsakað, hvað kosta muni að smíða þetta skip, og tel mjög líklegt, að það mundi fást gert fyrir 350–400 þús. ísl. kr. En þótt það kostaði alt að 500 þús. kr., þá er fórnin ekkert óeðlilega stór, þegar litið er á það, hve samgönguþörfin er brýn og að allur almenningur þessa landa nýtur góðs af því, ef þetta skip fæst. Og þó að mál þetta verði máske svæft nú í þetta sinn, þá er það áreiðanlega aðeins lítil tímaspurning. Málinu verður aftur hreyft og leitt til lykta innan tíðar með viðbót eins skips eða fleiri.

Háttv. þm. N.-Ísf. krafðist þess, að till. væri borin undir samgöngumálanefnd, og hefi jeg ekki á móti því í sjálfu sjer, en tek það fram, að frv. sjálft er líka þess eðlis, að því ætti að vísa til samgöngumálanefndar, því að eftir orðum hæstv. ráðh. eru kæliskipinu ætlaðar strandferðir

Hæstv. atvrh. áleit, að kæliskipið mundi fullnægja samgöngu- og flutningaþörfinni. því það gæti farið strandferðir, ef með þyrfti. Jeg álít að vísu, að skipið gæti þetta, en jeg teldi það ekki vera neinn búhnykk að nota kæliskipið til allra snattferða. Auk þess veit jeg vel, að Goðafoss, eða skip af svipaðri stærð, kemst ekki inn á allar hafnir á landinu, sem lítið strandferðaskip fer á. En um Goðafoss er það að segja, að hann kemur venjulega ekki á aðrar hafnir en þær, er hann á fullkomið erindi til vegna flutninga.

Hæstv. ráðh. talaði um Borgarnesferðirnar og sagði, að þær fjellu ekki niður, þó að nýtt strandferðaskip kæmi. Af hverju? Af því að fólk, sem vant er orðið tíðum og góðum samgöngum, vill ekki fella sig við strjálar ferðir við og við, eins og strandferðirnar eru, sem við í afskektari hjeruðunum verðum að sætta okkur við; enda er það engin furða. Ef þeir, sem Borgarnesferðanna njóta, vildu sætta sig við eins ófullkomnar samgöngur og aðrir eiga við að búa víðsvegar úti um land, þá væri hægt að láta þetta litla strandferðaskip koma þar við í hverri ferð. Skip eins og þetta getur auðvitað ekki komið í stað allra flóabátanna, en þó mundi verða minni þörf þeirra sumra, svo sem Hornafjarðarbáts, Grímseyjarbáts. Djúpbáts o. fl. Skipið gæti vel komið á hafnir á þessum slóðum, eins og áður var gert með Austra og Vestra.

Hæstv. ráðh. fann það meðal annars að brtt. okkar, að ef hún yrði samþ., þá mundi svo fara, að strandferðaskipið gengi fyrir kæliskipinu; en þetta er máttlaus mótbára. Smíði kæliskipsins er komið undir geðþótta Eimskipafjelags Íslands eftir frv., en hitt ekki. Það gæti vel hugsast, að Eimskipafjelagið kysi að fresta smíði kæliskipsins um nokkra mánuði, og yrði hitt skipið þá bygt á undan, en það mundi samt ekki draga neitt úr gagnsemi kæliskipsins eða spilla fyrir því, nema síður væri.

Jeg ætla svo ekki að elta ólar við fleiri mótbárur háttv. andstæðinga minna að sinni. Niðurstaðan verður sú sama, hvort lengur eða skemur er þáttað um þetta, en jeg tel það þarfleysu að vera að svara öllum hnútum, sem kastað hefir verið hjer að þarflausu og ófyrirsynju.