12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg ætla ekki að vera margorður í þetta sinn, en vil aðeins benda á það, sem mjer virðist ljóst orðið af þessum umræðum, sem er, að hv. flm. brtt. hafa ekki getað gert sjer fullkomlega hugmynd um, til hvers þetta skip skuli nota. Sumir álíta þeir, að það megi jafnvel leggja niður flóabátana. Háttv. 1. þm. S.M. (SvÓ) álítur meira að segja, að það megi leggja niður Borgarnesferðirnar og lækka styrkinn til Djúpbátsins. Viðvíkjandi því, sem þessi háttv. þm. sagði um Vestra, að hann hefði komið á margar hafnir við Djúpið, vil jeg benda honum á, að þetta er hreinn og beinn misskilningur. Vestri kom ekki á aðrar hafnir við Djúpið en Bolungarvík og Álftafjörð, alls 8 ferðir á þessa báða staði. Þetta voru allar þær samgöngubætur, sem fólk átti þá kost á þar vestra.

Mjer kom ekki á óvart, þó að þykknaði í háttv. þm., því að það vill oft verða svo, að menn reiðast sannleikanum: en hv. þm. mátti vel vita, að þess var engin von, að samgöngumálanefnd ljeti kyrt liggja, ef farið væri á bak við hana með flutning á tillögum um mál, sem hana varða. En það er að fara á bak við nefndina, að taka upp og flytja við þessa umræðu brtt., sem nefndin hefir í e. hlj. felt að flytja.

Háttv. 1. þm. S.-M. segir, að það sje nú aðeins í brtt. að ræða um minni helminginn af þeim gjöldum, sem ljetta mætti af almenningi, og þeirri gjaldabyrði, sem atvinnuvegirnir verða að bera. Jeg held samt, að ½ milj. kr. sje ekki minni helmingurinn, og ef 160 þús. kr. bætast þar við árlega, þá er hjer áreiðanlega um stærri helminginn að ræða.

Jeg ætla ekki að fara að ræða við þennan hv. þm. um það, hvort Ísfirðingar eða aðrir þar vestra hafi gagn af Holtavörðuheiðarveginum, en jeg bendi honum aðeins á, að Norður-Ísfirðingar meta ekki málefni eftir því gagni, sem þeir sjálfir hafa af þeim; þeir veita þýðingarmiklum þjóðmálum atfylgi með heill alþjóðar fyrir augum, en hirða minna um persónulega hagamuni, og þeir hafa lagt mikið af mörkum til opinberra þjóðþrifamála með stórum skattgreiðslum en litlum fjárkröfum til landssjóðs.

Háttv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) kvartar yfir vondum samgöngum þar eystra, og hann segir, að fólkið flýi úr sveitum þaðan vegna samgangnaleysis og einangrunar, sem það vilji ekki una við. Það mun enginn neita því, að samgöngur við Hornafjörð eru slæmar, en þetta skip þeirra bætir ekki úr þeim. Þó að skipið eigi að vera lítið eitt minna en Esja, geri jeg mjer ekki vonir um, að það geti komið við á Hornafirði. Það er bæði of stórt til þess, og auk þess fást skip ekki vátrygð til Hornafjarðar nema um hásumarið, nema gegn svo háu iðgjaldi, að enginn vegur er að hlíta slíku gjaldi. Jeg held því, að það verði að haga samgöngunum við Hornafjörð á annan hátt, enda njóta Hornfirðingar tiltölulega mjög mikils styrks til bátaferða miðað við fólkstölu. Að fólk flýi sveitirnar er ekki vegna slæmra samgangna á sjó. Jeg veit t. d. um Mývatnssveit á Norðurlandi, sem er bæði afskekt og á við illur og erfiðar samgöngur að búa, að þar er fólkið kyrt í sveitinni kynslóð eftir kynslóð. Það er augljóst, að það er gamla ætthagaástin og trygðin við heimahagana, sem veldur þessu, en þar sem þessar kendir eiga engin ítök í hugum manna, þar flýr fólkið úr sveitunum. Hv. þm. talaði eitthvað um 300 þús. kr. framlag til síma í einu sveitahjeraði. Þm. ætti að vera vorkunnarlaust að vita, að þessi símalína er lögð vegna allra Vestfjarða, sunnan Ísafjarðardjúps.

Jeg sje svo ekki tilefni til að karpa meira um þetta að sinni, en skal lofa hv. þm. sem altaf eru að klifa á, hvað samgöngur sjeu nú lakari en áður var, að sjá samanburð á því áður langt líður, og get jeg þá trúað, að þeim bregði í brún.