12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þetta er svo stórt fjárhagsatriði, er brtt. felur í sjer, að jeg verð að fara um það nokkrum orðum.

Í frv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir útvegun kæliskips, og gott samkomulag er fengið við Eimskipafjelag Íslands um það. Skipið er falt gegn 350 þús. kr. framlagi úr ríkissjóði, og það treystir stjórnin sjer til að láta af hendi rakna á yfirstandandi ári, vegna þess að eins og stendur vissi stjórnin ekki af neinum öðrum eða meiri fjárframlögum, sem þyrftu að ganga fyrir þessu. Stjfrv. bætir úr fleiru en kæliskipsþörfinni, því gert er ráð fyrir, að Eimskipafjelagið útvegi til þessa gott skip til algengra vöruflutninga og með hæfilegu farþegarúmi. Þetta verður mikil umbót á skipakosti vorum, því að skipið verður aðeins notað til kæliflutnings á útleið hjeðan. En strandferðir þær, sem fást með milliferðaskipum Eimskipafjelagsins, eru viðurkendar að vera þær bestu, sem kostur er á hjer, og þegar skiptum fjelagsins fjölgar um eitt gott skip, leiðir það því til bættra strandferða. Það verður til umbóta á fleiri sviðum en hv. flm. brtt. hafa enn sjeð. Þeir vilja nú láta smíða nýtt strandferðaskip, sem með öllum kostnaði verður ekki undir 500 þús. kr., og þar við bætist það, sem allir menn vita vel, að slíkt skip verður allþungur baggi á ríkissjóði, sem varla kostar minna en 150 þús. kr. tillag árlega, samkvæmt þeirri reynslu, sem fengin er með Esju. Þetta er því mun stærra fjárhagsatriði en 350 þús. kr. í eitt skifti fyrir öll. Það verður að taka tillit til þessa alls, kostnaðar við smíði og árlegs rekstrar og viðhaldskostnaðar; ef það yrði metið til höfuðstóls, yrði stærð þessa fjárhagsatriðis, sem strandferðaskipið felur í sjer, ekki minna en ca. 3–4 milj. kr.

En þó að stjórnin treysti sjer nú til að verja 350 þús. kr. til þess að fá góða úrlausn á máli, sem vænta mátti, að yrði miklu dýrara og fjárfrekara, er hitt svo ógætilegt, að tekur ekki tali, ef bætt skal þar ofan á alt að ½ milj. kr., enda þótt máske væri kleift að láta þetta fje af mörkum. En það mundi kosta beinlínis það, að halda yrði öllu í kyrru horfi á öðrum sviðum, sem alls ekki er víst, að þó mundi takast, því að það er svo margt nauðsynlegt, sem kallar að, og þess utan er mikil nauðsyn á, ef hægt væri að ljetta eitthvað á sköttum. Jeg álít því mjög ógætilegt að samþykkja þessa brtt. um strandferðaskipið, og jeg verð að taka undir það með þeim, sem ætla, að brtt. sje borin fram til þess að fleyga þýðingarmikið og gott mál. Það þýðir ekki að hampa því, að menn muni greiða atkv. með frv., þó brtt. verði feld; menn verða að líta á, hvaða afleiðingar það mundi hafa, ef brtt. yrði samþykt. Jeg held því, að þeir, sem mundu ella samþykkja framlagið til kæliskipsins, mundu verða á móti málinu í heild sinni, ef brtt. yrði samþykt, af því þeir vilja ekki binda ríkjssjóði svo þungan bagga, sem brtt. er. Og þetta halla jeg, að verið sje með brtt. að fleyga málið.

Jeg álít, að málið sje í hættu, ef brtt. verður samþykt, vegna þess að það er mjög hætt við því, að ríkissjóður muni ekki geta lagt fram þessa upphæð á yfirstandandi ári, í viðbót við annað, sem búast má við, að kröfur komi fram um.