12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er aðeins út af því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að 600 þús. kr. væru til í fjárlögunum fyrir árið 1926, sem ekki þyrfti að greiða. Jeg vil minna á það, að þótt þessi útgjaldaliður falli niður, þá var líka áætlaður tekjuhalli á þeim fjárlögum, sem samsvaraði mestum hluta þessa liðar, svo að hvað það snertir, þá er enn ekki úr neinum tekjuafgangi að moða fyrir árið 1926, og við vitum á þessu augnabliki ekki, hvort hann verður nokkur eða enginn. Jeg ætla ekki að fara að ræða gengismálið nú, en jeg verð að segja hv. þdm., að það er ekki í fyrsta sinni, sem hv. þm. Str. kemur hjer fram með tiltekna útúrsnúninga á þá leið, að þegar fjrh. af fjárhagslegum ástæðum ekki telur sig geta stutt eitthvað, sem fram er borið, þá gerir hv. þm. (TrÞ) það úr því, að fjrh. sje því máli mótsnúinn: jeg hygg, að það sjeu fáir kjósendur í landinu, sem sjeu svo einfaldir að skilja ekki, hvaða blekkingar þar er farið með, þegar svona er frá skýrt, og veit jeg, að það er í raun og veru alveg óþarft að benda á þetta hjer í þessari hv. deild, enda held jeg, satt að segja, að enginn, sem þekkir mína fortíð, sjerstaklega í landsmálum, hafi ástæðu til að bera mjer á brýn, að jeg sje mótfallinn samgöngubótum í landinu. En það er skylda mín á meðan jeg er fjrh. að segja það, sem jeg held að þurfi til þess, að gætt sje hófs í fjármálum, og það ætla jeg að halda áfram með, hversu oft sem hv. þm. Str. rís upp til þess að reyna að gera úr því eitthvað alt annað en það, sem það í raun og veru er. Og þegar hv. þm. (TrÞ) fyrir hönd alls Framsóknarflokksins getur risið straks upp, án þess að koma með neinar röksemdir móti því, sem jeg sagði um fjárhagsmálið, og lýst yfir því, að allur flokkurinn virði það að vettugi og muni verða með málinu, þótt brtt. verði samþ., þá er það ekkert annað en það, sem jeg hefi altaf vitað, að frá Framsóknarflokknum er ekki að vænta þeirrar gætni, sem þarf að viðhafa í fjármálum, og sjerstaklega þegar erfiðir tímar eru í aðsigi.