10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

1. mál, fjárlög 1927

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg gerði ekki ráð fyrir að þurfa að taka til máls við þennan kafla fjárlaganna, og hefði ekki gert það, ef ekki hefði gefist sjerstakt tilefni til þess.

Rjett áður en hætt var umr. í gær, vjek einn háttv. þm. í umboði samgmn. þungum ámælum í garð fjvn. Jeg er ekki frsm. fjvn. við þennan kafla fjárlaganna og vil ekki taka fram fyrir hendurnar á honum, en ummælum þessum var alment beint í garð fjvn., og kann jeg ekki við að láta hv. frsm. (ÞórJ) standa einan uppi til svara.

Jeg gat ekki skilið orð hv. frsm. samgmn. (JAJ) á annan veg en þann, að svo liti út, sem þeir menn, sem sæti eiga í fjvn., notuðu þá aðstöðu sína til þess að skara eld að köku sinna kjördæma. Þessum orðum vil jeg eindregið mótmæla, og til þess að hnekkja þeim, ætla jeg fyrst að benda á, hvernig þessu víkur við í mínu kjördæmi. Það er þá skemst frá að segja, að jeg veit ekki til, að enn hafi komist inn í fjárlög einn einasti eyrir til míns kjördæmis. Jeg greip fram í fyrir hv. frsm. (JAJ) í gær, og þá nefndi hann vegagerð í Strandasýslu. Það er satt, að þar hefir verið talað um að ryðja svolítinn vegarspotta. Jeg get þessa af því að hv. frsm. (JAJ) er frá Ísafjarðardjúpi, en það er tilefnið til viðgerðar á þessum vegi, að Ísafjarðarpósturinn var rjett orðinn úti þarna, og Strandamenn kunna ekki vel við, að Ísfirðingar sjeu að verða úti hjá þeim. (MT: Þeir kynnu að ganga aftur!). Að öðru leyti veit jeg ekki til, að samþykt hafi verið nú ein einasta fjárveiting vegna míns kjördæmis. Það er á ferðinni ein till. um eftirgjöf á dýrtíðarláni, en þá till. þar jeg ekki fram í fjvn., enda er jeg þar bara meðflm. Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) er sjálfur aðalflutningsmaður! Finst mjer því þessi ummæli hans koma úr hörðustu átt.

Svo sem jeg vil víkja ámælum hv. frsm. (JAJ) frá mjer, vil jeg og víkja þeim frá hv. samnefndarmönnum mínum. Jeg hefi starfað með þeim í 3 ár. Það ættu þá helst að vera form. og frsm. nefndarinnar, sem reyndu að skara eld að sinni köku. En svo er ekki, og vil jeg því vísa ummælum hv. frsm. (JAJ) heim til föðurhúsanna, bæði hvað mig snertir og alla samnefndarmenn mína.

Jeg vil bæta öðru við, sem jeg veit, að hv. samnefndarmenn mínir munu staðfesta. Það eru nokkrar fjárveitingar, sem jeg hefi sjerstaklega stutt, og jeg vil benda á, hvernig þær eru dreifðar út um land alt. Jeg hefi stutt fjárveitingu til húsabóta á prestssetri austur í Rangárvallasýslu og aðra til hjeraðsskóla norður í Húnavatnssýslu, sem þó er ekki í kjördæmi hv. frsm. fjvn. (ÞórJ), til skóla í Árnessýslu, til skóla í Þingeyjarsýslu, til skóla í Borgarfjarðarsýslu, til skóla í Suður-Múlasýslu og til skóla í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Öllum þessum tillögum hefi jeg fylgt fast og einnig stutt framlög til ýmsra verklegra framkvæmda, svo sem sandgræðslu í Rangárvallasýslu og vegalagningar í Vestmannaeyjum.

Jeg vil svo vona, að þessi ámæli háttv. frsm. samgmn. stafi af því, að orðið var áliðið kvölds, þegar hann hjelt ræðu sína og hann orðinn þreyttur og syfjaður, og er jeg reiðubúinn að sættast við hann með það fyrir augum.

Við umr. í gær komu fram ýmsar almennar athugasemdir frá einstökum háttv. þm., sem voru fullkomlega rjettmætar, enda bornar fram með fullu leyfi hæstv. forseta. Jeg tók ekki þátt í þessum athugasemdum og fyrirspurnum til hæstv. stjórnar, en mjer þykir það undarlegt, sem fram er komið, að svo virðist, sem hæstv. stjórn ætli að færast undan því að svara og humma það alveg fram af sjer. Jeg vil því eindregið skora á hana að svara þessum fyrirspurnum, því að fordæmið er afarilt, að láta eins og ekkert hafi í skorist og humma alt fram af sjer.