12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Halldór Stefánsson:

Það má svo heita, að umr. um þetta mál hafi snúist nær eingöngu um brtt. okkar á þskj. 120. Umr. hafa farið, eins og gengur, nokkuð dreift, og er töluvert farið að bera á því, að menn tali um ýms aukaatriði, en út í þær umr. ætla jeg ekki að fara. Jeg ætla aðeins að tala um það, sem mjer virðist vera aðalatriðin í þessu máli, og aðalatriðin í þessu máli eru tvö. Í fyrsta lagi, hvort þörf er á bættum samgöngum með ströndum fram, og í öðru lagi, hvort það er hægt að bæta úr þeirri þörf, fjárhagsins vegna. Ástæðurnar fyrir þörfinni, fyrir fyrra atriðinu, hafa verið margteknar fram og ekki verið mjög vjefengdar, þó að sumir vilji gera minna úr þeim en aðrir. Mjer virðist, að um þá, sem nú vilja draga úr því, að þörfin sje svo sjerlega brýn, megi segja svo, að þeirra viðurkenning á því sje aðeins játning með vörunum, sem ekki kemur fram þegar eitthvað á á sig að leggja.

Viðvíkjandi þörfinni get jeg látið nægja að benda á viðurkenningu þingsins sjálfs, sem komið hefir fram með ýmsu móti, t. d. í fyrra með því að samþykkja að skipa milliþinganefnd til þess að athuga málið. Það er þó viðurkenning á, að það sje þörf á því. Í öðru lagi get jeg vísað til álits nefndarinnar, þar sem þörfin er viðurkend, og það álit hefir verið fyrir þinginu og er kunnugt. Í þriðja lagi get jeg bent á það, að hjer í þessari háttv. deild hefir verið samþykt ráðstöfun til að bæta úr þessari þörf til bráðabirgða. Á jeg þar við till. um að leigja skip til strandferða þegar á þessu ári sem bráðabirgðaúrlausn á þessu. Í fjórða lagi má benda á það, að þetta þing hefir með höndum ýms mál, sem meira og minna snerta þetta mál, t. d. bryggjugerð í Borgarnesi og fyrirhugaða vegagerð í sambandi við hana, vegabæturnar í Flóanum, sem eingöngu eru ætlaðar í því skyni að bæta úr samgönguörðugleikum þar, og nú er sagt, að stjórnin hafi ennþá í huga að bæta úr samgönguvandræðum eins landshluta með því að efna til járnbrautar fyrir hann. Þannig finst mjer vera alveg skýlaust, að þingið hefir viðurkent þörfina á auknum samgöngum, en ef menn nú ekki vilja standa við það álit, þá getur það ekki verið nema af því tvennu, að það hefir annaðhvort verið eintóm varajátning, eða þá að menn sjá sjer það ekki fært af fjárhagslegum ástæðum, og þá er komið að hinu atriðinu, hvort það er fært, fjárhagslega sjeð.

Það er nú, eins og vænta mátti, að hæstv. fjrh. (JÞ) hefir helst dregið fram þá hlið málsins til athugunar, þótt aðrir hafi vikið að því líka. Jeg skal þá minnast á fjárhaginn eins og hann er, og er það þá fyrst, að skuldir ríkissjóðs hafa færst niður um fleiri miljónir á örstuttum tíma, svo að nú eru skuldir hans ekki nema. tæpar 12 miljónir, en voru rúmar 18 miljónir að nafnverði fyrir tveim árum. Þá er næst að benda á það, að frá næstliðnu ári, þegar tekjur allar eru komnar og gjöld öll greidd — þar á meðal 4 milj. kr. lausaskuldirnar — þá er 1¼ milj. kr. tekjuafgangur. Svo get jeg líka bent á það, sem reyndar hefir þegar verið nefnt hjer, að í fjárl. yfirstandandi árs er upphæð, 600 þús. kr., sem ætluð var til afborgunar á lausaskuldum, sem þegar eru greiddar, og sem þannig kemur ekki til að þurfi að nota, og loks er það, að ríkið á í varasjóði, eftir skýrslu hæstv. fjrh. til þingsins, 3¾ milj. kr. Þegar litið er á allar þessar ástæður til samans, verður ekki annað sjeð en að þetta sje vel fært, fjárlagslega sjeð. Og þá get jeg ekki skilið, hvers vegna á að fresta þessu máli, því að eina afsökunin fyrir að hafa frestað því svo lengi, eru fjárhagsástæðurnar, en nú eru þær ástæður ekki lengur fyrir hendi, og því er óverjandi að draga framkvæmdirnar lengur. Jeg hefði jafnvel talið forsvaranlegt að ráðast í þetta með því að taka lán, en þegar þess þarf ekki með, þá er frekari frestun algerlega óverjandi.

Því hefir verið haldið fram, að frekar bæri að ljetta útgjöldum á atvinnuvegunum en ráðast í þessar framkvæmdir. En þetta tel jeg álitamál, af því að bættar samgöngur, hvort heldur er á sjó eða landi, er sú besta og eðlilegasta leið til að styðja atvinnuvegina. Eiga slíkar framkvæmdir, sem hjer er um að ræða, því fyllilega rjett á að sitja í fyrirrúmi, því að enginn getur neitað því, að góðar samgöngur sjeu undirstaða atvinnuveganna.

Jeg nefndi áðan ýms mál, sem fyrirhugað er að koma í framkvæmd mjög bráðlega, þar á meðal Borgarnesbryggjuna, Flóaáveituvegina o. fl., og jeg skal strax taka það fram, að jeg ætla að fylgja þeim, enda þótt jeg líti svo á, að þetta mál hefði átt að ganga á undan þeim, því að það kemur almennast að gagni. Og mjer þykir sjaldan of mikið í ráðist af þeim framkvæmdum, sem snerta almenningsheill.

Að því er snertir kæliskipsmálið, þá vil jeg vísa á bug þeim ásökunum, að við flm. þessarar tillögu höfum flutt hana einungis til að fleyga málið og tefja það að óþörfu, því jeg sje ekki, að hún geri annað en lengja dálítið þessa umræðu, en tefur það ekki um einn einasta dag.