12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Tryggvi Þórhallsson:

Það mun þykja skylt, að jeg gefi hæstv. fjrh. (JÞ) og hæstv. atvrh. (MG) kvittun fyrir það, sem þeir sögðu áðan.

Vil jeg þá fyrst beina máli mínu til hæstv. atvrh. Hann spurði mig, á hverju jeg bygði það, að menn myndu fagna tillögu um byggingu á nýju strandferðaskipi.

Þar til skal jeg svara honum því, að þessi ummæli mín bygði jeg á þeirri þörf, sem alkunnugt er, að atvinnuvegunum er á bættum samgöngum, og þá um leið á slíku skipi, sem hjer er farið fram á að fá.

Þá skildist mjer á hæstv. ráðherra, að hann myndi verða á móti kæliskipinu, ef þessi till. yrði samþykt. Sje nú svo, og ætli hæstv. stjórn jafnframt að gera þetta að „kabinet“-spursmáli, þarf hún ekkert að óttast, því hún hefir altaf aðstöðu í efri deild til að hindra framgang þess.

Þá gat hæstv. atvrh. þess, að flýta þyrfti kæliskipsmálinu, meðal annars svo hægt væri að láta Eimskipafjelagsstjórnina fá fulla vissu sem fyrst. Þetta held jeg að sje engin ástæða. Hæstv. stjórn getur gefið fjelaginu fulla vissu undir eins, svo framarlega sem hún veit, að hún hefir helming síns flokks með sjer, því að Framsóknarflokkurinn mun ekki ganga á móti því máli. (Atvrh. MG: Er mjer óhætt að gefa fulla vissu hvað snertir ábyrgðina líka?). Ef hæstv. ráðherra óskar, þá getur hann fengið yfirlýsingu frá Framsókn á morgun. (Atvrh. MG: Já, jeg óska þess). Úr því hæstv. ráðh. óskar slíkrar yfirlýsingar, skal jeg sjá um, að málið verði tekið fyrir í flokknum á morgun og yfirlýsingin fáist.

Þá sný jeg mjer að hæstv. fjrh. Hv. 2 þm. Rang. (KlJ) hefir að nokkru svarað honum fyrir mig. Það voru aldrei mín orð, að allur Framsóknarflokkurinn væri með byggingu strandferðaskips. Heldur voru það mín orð, að mestallur flokkurinn myndi verða með frv., þó að till. um strandferðaskipið yrði samþykt.

Hann neitaði því, að hann væri mótsnúinn að fá nýtt strandferðaskip, og taldi það, sem jeg sagði, útúrsnúning. Jeg sagði, að hann væri mótfallinn því að fá það núna. Þess vegna verð jeg að halda því fram, að jeg hafi farið rjett með.

Þá kom hæstv. ráðherra með eina röksemd gegn því, að hann værri á móti byggingu á nýju strandferðaskipi, enda þótt hann af fjárhagsástæðum gæti ekki fylgt því nú. Röksemd hæstv. ráðherra var sú, að enginn, er þekti fortíð hans, myndi efast um, að hann væri málinu fylgjandi. Hjer sem oft fyr hefir hann orðið dálítið óheppinn í röksemdafærslu, því að hver, sem þekkir fortíð hans, skyldi hafa trúað því, að hann yrði íhaldsmaður, því að enginn hefir fordæmt íhaldsstefnuna eins og hann?

Nei, það dugir ekki að þekkja fortíð hæstv. fjrh. til þess að þekkja skoðanir hans nú.