26.03.1926
Efri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Jóhann Jósefsson:

við 2. umr. þessa máls fóru fram dálítil orðaskifti hjer í deildinni, aðallega þess efnis, hverjum væri að þakka að svokallað kæliskipsmál væri komið á það stig, sem það nú er. Það kom berlega í ljós, þegar við áttum í kjöttollsstríðinu við Norðmenn hve nauðsynlegt er að hafa í fleiri en einn stað að venda með kjötsöluna. Líklega hefir því þetta tollstríð ýtt undir framkvæmd þessa máls. Mjer fanst á ræðu háttv. 3. landsk. (JJ), að hann líta svo á, að þessi hugmynd, að útvega kjötmarkað með því að koma vörunni kældri eða frystri á markaðinn, væri nú komin í höfn. Jeg get tekið undir það, að málið sje komið talsvert áleiðis hvað sölu kjötsins snertir. Það er stórt spor í áttina, sem þingið hefir einhuga stigið, af því að það viðurkennir nauðsyn málsins. Af því að þessi nauðsyn er knýjandi, leggjum við Eimskipafjelaginu, og um leið landinu öllu, miklar byrðar á herðar, til þess að hægt sje að fullnægja kröfunum um að koma kjötinu frystu eða kældu á markaðinn. Það er ekki líklegt, að Eimskipafjelagið hafi hag af að breyta þeirri fyrirætlun sinni að byggja hentugt skip til vöruflutninga, en byggja í þess stað dýrt skip með kæliútbúnaði, þó að von sje um 1–2 farma af kældu kjöti á ári. Hjer er því lagt mikið í sölurnar til þess að styðja annan aðalatvinnuveg landsins, landbúnaðinn. Jeg álít, að rjett sje að gera þetta. En jeg vil leggja áherslu á það, að þakkirnar fyrir þetta á Alþingi og sú stjórn, sem gengist hefir fyrir að koma málinu í þetta horf. Þessa viðurkenningu fanst mjer vanta hjá hv. 3. landsk. um daginn. — Þá vjek hv. 3. landsk. nokkrum orðum að okkur sjávarútvegsmönnum. Hann brýndi okkur á því, að við ættum að sýna þann þroska að koma markaðinum fyrir okkar vörn í betra horf. Það er raunar altaf gott, að hver herði á öðrum um að leggja sig í framkróka til þess að ná sem bestum sölumöguleikum fyrir afurðir landsins. Jeg held líka, að sjávarútvegsmönnum sje nauðsynlegt að gera meiri tilraunir til þess að koma sínum afurðum vel fyrir á markaðinum, og jeg vænti þess, að hv. 3. landsk. og aðrir hv. þm., sem þá eiga sæti á Alþingi, verði jafnfúsir á að styrkja þá tilraun útvegsmanna, þegar þar að kemur, eins og útvegsmenn hafa nú reynst fúsir á að styðja að þessari nauðsynjaframkvæmd vegna kjötmarkaðsins.

Eins og kunnugt er, samþykti þingið í fyrra, að ríkissjóður skyldi greiða tap, sem verða kynni við tilraunir við útflutning á kældu kjöti. Þess verður að minnast, að þingið tók að fyrra bragði alla ábyrgð upp á landið. Ef sjávarútvegsmenn reyndu nú eitthvað svipað, gerðu tilraunir, sem hefðu áhættu í för með sjer, og ef þingið tæki að sjer óskorað alt tap, sem viðkomandi útflytjendur kynnu að verða fyrir við slíkar tilraunir, þá kæmi það eins fram gagnvart þeim eins og það nú hefir komið fram gagnvart bændum. Að mínu áliti væri það mjög æskilegt, að þingið sæi sjer fært að koma svo fram gagnvart sjávarútveginum. Það gerði menn djarfari við að reyna nýjar aðferðir og nýjar leiðir.