21.03.1927
Efri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Jónas Kristjánsson:

Jeg hefi orðið fyrir því óláni að valda einum hv. þm. tjóni, enda þótt jeg ætlaði ekki annað að gera en gæta skyldu minnar. Eftir því sem hv. 5. landsk. (JBald) segir, þá datt úr honum botninn við þetta tækifæri, og tel jeg það illa farið. En það er víst alveg rjett, því að jeg varð ekki var við neinn botn í þessari ræðu hans.

Jeg hefi altaf fylgt þeirri reglu, þegar jeg hefi þegið ráð, að fara heldur að ráðum þess, sem jeg treysti betur. Jeg hefi líka jafnan leitast við að gefa góð ráð, þegar jeg hefi ráðlagt öðrum. Nú skal jeg gefa hv. 5. landsk. það góða ráð, að gefa Alþýðuflokknum sem fæst ráð. Jeg held, að málum þess flokks væri betur komið, ef hann hefði færri ráð þegið af þessum hv. þm.

Jeg skal þá víkja fáeinum orðum að þessu frv., sem hjer liggur fyrir. Hæstv. ráðh. (JÞ) hefir einkum verið sakaður um tvent: að vilja taka óþarft lán og hafa ætlað í upphafi að gera það með leynd. Þeim, sem eru í fjhn. þessarar hv. deildar, er vel kunnugt, að það var ekki hæstv. ráðh., sem átti upptökin að þessari lánsheimild, heldur stjórn Landsbankans. Í öðru lagi var það ekki hæstv. ráðh., sem óskaði eftir þessari leynd, heldur Landsbankinn.

Ef nokkur veit um þörf bankans, þá er það auðvitað bankastjórnin. Og hverjum er kunnugt um lánsþörf bankanum til handa, ef ekki bankastjórninni? Jeg geri ráð fyrir, að hún finni til ábyrgðar sinnar og geri sitt besta. Þess verður að gæta, að hjer er aðeins um að ræða heimild fyrir reikningsláni, sem gripið verður til, ef þörf krefur. Bankastjórnin er svo forsjál að vilja hafa peninga tiltæka, ef á þarf að halda. Það er ekki langt síðan einn fjármálaráðherra okkar varð fyrir því óláni, að tekjur ríkisins komu svo seint inn, að við lá, að allar verklegar framkvæmdir yrðu að stöðvast á miðju sumri. Þetta er dæmi um óforsjálni. Ef bankinn gerir ekki ráðstafanir til þess að hafa handbært fje til að geta lánað atvinnuvegunum nægilegt fje þar til framleiðsla þeirra er komin í verð, fer honum líkt og skipstjóra, sem leggur út á Atlantshaf án þess að líta eftir kolabirgðum skipsins. Ef kolin þrjóta á miðri leið, lendir skipið í vandræðum, og sama máli er að gegna um atvinnuvegina, ef rekstrarfje þrýtur þegar verst gegnir. Jeg skil ekki þá menn, sem vilja fordæma þessa forsjálni bankans.

Jeg get ekki sagt, að hv. 5. landsk. (JBald) sje engilhreinn í þessu máli. Hann mun heldur hafa stutt að hækkuðum kaupkröfum, og mjer er sagt, að hann hafi líka stutt að verkföllum. En þetta hvorttveggja miðar í þá átt að gera sjávarútveginum örðugt fyrir Mjer finst það því koma úr hörðustu átt, þegar þessi hv. þm. sakar hæstv. ráðh. um það, sem hann er sjálfur valdur að.

Jeg sje mjer ekki annað fært en að greiða atkvæði með þessari heimild, því að hjer er um að ræða öryggisráðstafanir til handa atvinnuvegunum, sem telja verður nauðsynlegar. Jeg tel illa farið, ef menn láta flokksofstæki leiða sig svo langt, að það geti komið atvinnuvegunum á kaldan klaka. Þá væri mjög fávíslega að farið. Jeg vil fyrir mitt leyti gefa mönnum það góða ráð að blanda hjer ekki saman ólíkum hlutum, heldur gæta þess vel, hvað er aðalatriðið í þessu máli, sem er það að sjá atvinnuvegum landsmanna borgið. Jeg veit, að hæstv. ráðh. stefnir að því marki. Það var mjög fávísleg mótbára, sem hv. 5. landsk. kom með, þar sem hann vildi ekki láta samþykkja þessa lánsheimild af því að einn bankaútibússtjóri hefði, að hans dómi, beitt hlutdrægni í lánveitingum. Þó að þetta væri satt, væri í meira lagi fávíslegt að láta heila atvinnuvegi gjalda slíks ranglætis af hendi eins manns.