21.03.1927
Efri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Einar Jónsson:

Jeg hefi látið þess getið á öðrum stað, að mjer hefði þótt æskilegt, að ekki hefði þurft að auka á ábyrgðir fyrir nýjum lánum að þessu sinni. En mjer skilst, að allir sjeu sammála um, að hjer sje aðeins um öryggisráðstafanir að ræða, og jeg þykist vita, að hv. 1. og hv. 5. landsk. (JJ, JBald) sjeu þessu samþykkir, þótt þeir hagi orðum sínum á annan veg. Jeg hygg, að ástæðurnar hjá okkur sjeu svo, að ekki sje öðrum betri ráðum til að dreifa en þessu. Jeg hefi ekki hlustað á umr. í Nd. um þetta mál. En jeg heyrði af tilviljun, að einn þm. þar lýsti því yfir, að hann hefði lengi hugsað sig um, hvort hann ætti að segja já eða nei við þessari lánsheimild, og hann hefði komist að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að segja já. Þetta var sá fróði maður, hv. þm. V.-Ísf., Ásgeir Ásgeirsson, og jeg met hans skynsamlegu orð miklu meir en alvöruleysi þeirra hv. 1. og 5. landsk., sem reyna alstaðar að brjóta sig út úr, þótt þeir sjeu með málinu í raun og veru.

Jeg treysti svo vel ríkisstjórninni og Landsbankastjórninni, að jeg þykist þess fullviss, að með þessari lánsheimild sje ekki farið fram á annað en nauðsynlegar og sjálfsagðar öryggisráðstafanir, sem eigi verði misbrúkaðar í þeirra höndum og atvinnuvegunum geti komið að gagni.