21.03.1927
Efri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Jónas Kristjánsson:

Það er nú svo fátt eftir, sem jeg þarf að svara ræðum hv. 5. landsk. og hv. 1. landsk., en þó vildi jeg segja fáein orð. Það var víst hv. 1. landsk., sem vjek nokkuð að ræðu minni. Jeg gætti ekki að því að punkta það niður hjá mjer, enda vjek jeg ekki sjerstaklega að honum í ræðu minni. En jeg verð að minna þennan hv. þm. á það viðvíkjandi ábyrgð ríkissjóðsins fyrir lánum, sem bankinn þarf, að hann ætti að athuga það, að Samband íslenskra samvinnufjelaga er ekki óverulegur viðskiftavinur bankans, og gæti farið illa fyrir því, ef það ætti ekki kost á fje úr bankanum, af því að það væri ekki fyrir hendi. Virðist mjer þess vegna óvarlegt fyrir hann að greiða atkv. móti því, að þessi ábyrgð verði veitt. Mjer finst hann verði að gæta að því að reiða ekki öxina að rótum þess meiðs, sem hann þykist vilja hlynna að.

Það er svo, að bændur þurfa oft að fá lán á haustin, bæði til þess að borga kaupafólki og til annara nauðsynlegra útgjalda. Og það er ilt, að þeir geti ekki staðið við sínar skuldbindingar fyrir þá sök, að bankinn fengi ekki að njóta ábyrgðar eða hafa þetta varafje, ef á þarf að halda.

Jeg þarf svo ekki að inna frekar að þessu. En svo tók hv. 1. landsk. (JJ) útúrdúr, sem ekki kom málinu við, og mintist á frv., sem hann flutti hjer í þinginu og jeg hefði greitt atkv. á móti. Þó að þetta komi ekki við þessu máli, vil jeg með leyfi hæstv. forseta svara þessu fáeinum orðum. Er jeg hv. þm. þakklátur fyrir að gefa mjer ástæðu til að gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli.

Þetta er sem sje málið um ölvun embættismanna og fleiri. Jeg var strax ráðinn í að greiða atkv. móti þessu frv., og það af fleiri en einni ástæðu. Fyrst og fremst er slíkum lögum þannig háttað, að erfitt er að fá menn til þess að hlýða þeim. Það eru fáir, sem vilja gefa sig í að kæra, þótt einhver sæist drukkinn eða eitthvað kendur, við skulum segja skipstjóri, læknir eða aðrir embættismenn, ef sá maður getur farið allra sinna ferða sem ekki væri. Því verða lög þessi að engu virt og í öðru lagi vekja þau andúð móti því máli, sem þarna er látið líta svo út, að barist sje fyrir. Og það er vissulega það óheppilegasta, sem fyrir goodtemplararegluna getur komið og bindindið. Jeg tel, að þessu máli sje þannig komið, að það megi svo heita, að háð sje lokabaráttan um það, hvort takist að útrýma víndrykkju úr landinu. Og jeg er á því, að þetta takist því aðeins, að til þess sje notuð, ekki eitruð vopn, heldur góð vopn. Jeg vil vinna að þessu máli eins og öllum góðum málum með fræðslu, með því að veita fólkinu rjetta fræðslu um áfengi, en ekki með vopnum haturs og ofsókna. Þau vopn gefast illa, þegar til lengdar lætur, þó að þau bíti í bili; það fer vanalega svo, að þau snúast í hendi þeirra, sem halda á þeim, og gegn þeim sjálfum. Jeg óttaðist, að slíkt yrði pólitískt ofsóknarefni, og mjer er of vel við þetta mál til þess að jeg geti ljeð mitt atkvæði til slíks. (Forseti HSteins: Jeg vil biðja hv. þm. að eyða ekki mjög löngum tíma um þetta, af því að það er fyrir utan dagskrána). Jeg bið hæstv. forseta afsaka, en máli mínu er nú senn lokið.

Jeg álít sem sagt, að þetta mundi verða til þess að auka óhlýðni við landslög; jeg var hinsvegar í engum vafa um, að frv. var líka borið fram í því skyni að sjá, hvernig jeg brygðist við og greiddi atkv. Jeg er ekki feiminn við að sýna alþýðu og öllum þingheimi, að jeg greiði atkv. sjálfstætt í þessu máli. Og ef hv. flm. þessa máls heldur, að hann geti læknað vínhneigð manna með þessu, þá skil jeg ekki hans hugsanagang.

Fáeinum orðum þyrfti jeg að víkja að því, sem hv. 5, landsk. (JBald) beindi til mín. Reyndar var mest af ræðu hans útúrsnúningar, sem ekki eru svara verðir. Býst jeg við, að okkur hv. 5. landsk. komi illa saman um þessi efni. Jeg er þó sannfærður um, að mjer er eins ant um verkalýðinn og honum, og ekki síður, og þykist hafa sýnt það í allri umgengni minni við það fólk. En jeg hefi það álit, að vinnuveitendur og vinnuþiggjendur verði að vinna saman í góðu bræðralagi, til þess að báðum farnist sem best. Og ef hv. 5. landsk. skoðar það sem atvinnu sína að sá fræum sundrungar milli þessara tveggja aðilja, þá öfunda jeg hann ekki af því. Jeg gat þess í fyrri ræðu minni, að mjer hefði þótt það koma úr hörðustu átt, að hann hvetti menn til þess að hækka kaupkröfur einmitt á þeim tíma, sem atvinnuvegirnir voru sem tæpast staddir, svo framarlega, sem hann vildi verkalýðnum verulega vel. Ef bændur geta t. d. ekki greitt kaupafólki, sem þeir þurfa til heyvinnu, hvernig fer þá? Verkafólkið sveltur blátt áfram. Báðir aðiljar verða að laga kröfur sínar eftir hvors annars þörfum. Þannig fer það best, að allir reyni að bera byrðarnar hver með öðrum. Jeg tel þá óþörfustu mennina, sem sá fræi sundrungar, hvar sem er.