21.03.1927
Efri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg þarf litlu að svara hv. 5. landsk. (JBald).

Jeg álít, að hver og einn af núverandi bankastjórum Íslandsbanka sje þinghæfari en háttv. 1. landsk. (JJ) eða hv. 5. landsk. En ef tekin er upp sú stefna, að stjórnskipaðir bankastjórar og útibússtjórar bankanna skuli ekki eiga sæti á þingi, þá á það að ganga jafnt yfir alla.

Jeg má ekki vera harður við hv. 1. landsk. þm. Bæði er honum erfitt um mál vegna hæsi og svo hefir ádrepa mín í dag haft þau áhrif, að hann er sýnu stiltari nú en áður, ef dæma skal eftir ræðum hans.

Hv. þm. sagði ýmislegt um þetta mál og önnur því skyld, sem vert er að leiðrjetta. — Hann tók aftur þau ummæli sín, að stjórnin hefði þegar ráðstafað lánsfjenu. En í stað þess vildi hann halda því fram, að hún hafi mælst til við Landsbankann að verja vissri upphæð fjárins á tiltekinn hátt, og væru slík tilmæli sama sem ráðstöfun. Þetta er að klóra í bakkann, þegar kraftana brestur til að komast upp úr ófærunni af eigin rammleik. Hv. þm. veit vel, að það er fjarri því að vera nokkur ráðstöfun, þó að um slík tilmæli væri að ræða. Hann veit ennfremur, að ekki verður hjá því komist, eins og nú er háttað bankamálum, að stjórnin hafi meiri afskifti af þeim heldur en ef seðlaútgáfunni væri komið í það horf, sem æskilegast er.

Hv. þm. hljóp í ölvunarfrv. sitt og frá því aftur í þetta mál, sem hjer liggur fyrir, þó að það virðist nú óþarflega krókótt leið. Það er misskilningur, að jeg beri stjettarhagsmuni embættismanna fyrir brjósti með því að vera á móti því frv. Jeg fæ ekki sjeð, að um neina hagsmuni geti verið að ræða fyrir eina stjett manna eður aðra, þó að það kunni að henda einhverja innan hennar að verða ölvaðir.

En þar sem hann talaði um úrhrök í embættismannastjett, þá vil jeg minna hann á það, að hann ætti að fara varlega að taka sjer það orð í munn. Til þess hefir of mikið verið talað um, hvar ætti að skipa sjálfum honum sess innan hans eigin stjettar. Að óþörfu ætti hann ekki með neinum dilkadrætti að vera að minna menn á að raða. Röðunin kynni að koma illa við hann sjálfan.

Þá mintist hv. þm. á Framsóknarflokkinn og sjálfan sig og rómaði mjög ágæti beggja. Var lofið engu líkara en ellimörkum gamalla karla á raupsaldri svokölluðum, er hugga sig við það í getuleysi sínu, að alt nýtt og nýtilegt, sem fram kemur og framkvæmt er, sje áður fætt af þeim að hugmyndinni til.

Elsti flokkur þingsins er hann, Framsóknarflokkurinn, ekki vantar það. En brjóstumkennanlegur er hann, ef hann er svo lítilþægur að geta látið sjer nægja, er aðrir stjórnmálaflokkar hrinda þörfum málum í framkvæmd, að raupa af því, að einhver maður innan flokksins hafi öðrum fyr fætt hugmyndina, og eigna sjer þar með heiðurinn af verkinu. Slíkt tal er ekki tekið alvarlega. Menn vita sem er, að þegar um mikilvæg þjóðheillamál er að ræða, er aldrei hægt að benda á einn einstakan mann, sem skilyrðis- og fortakslaust hafi fyrstur átt upptökin. Slík mál eru jafnan knúin fram af víðtækri þörf þjóðfjelagsins. Fyrst hugsa margir um þau, síðan tala menn um þau og loks framkvæma menn þau.

Þá hljóp hv. þm. aftur að skuldleysinu 1943.

Í blaði á Seyðisfirði var frásögn um ræðu, er jeg hjelt þar eystra 1924. Var þar dálítið vikið við orðum mínum, svo skilja mátti sem jeg hefði sett upp sem stefnumark, að ríkissjóður yrði skuldlaus 1943. Ef satt skal segja, þá hefi jeg aldrei fundið tilefni eða ástæðu til að leiðrjetta þessa meinlausu missögn opinberlega. Hefði jeg gert það og vildi vera í samræmi við sjálfan mig, yrði jeg að bæta við mig miklu meira verki við að leiðrjetta þó ekki væri nema lítinn hluta allra þeirra missagna, sem háttv. 1. landsk. ungar út í blaði flokks síns, heldur en forsvaranlegt væri um mann, sem er á fullum launum í þjónustu landsins. Síst situr á háttv. 1. landsk. að víta meðbræður sína í blaðamenskunni fyrir það, þó að þeir fari ekki allskostar með rjett mál. Ofurlitlar kröfur verður hann þó að gera til sjálfs sín um það, er hann heimtar af öðrum.

Háttv. þm. sagði, að Íslandsbanki hefði mist álit og traust, og gerði ráð fyrir, að fjeð kynni að verða að fastri skuld hjá honum. Mjer þykir í þessu sambandi rjett að geta þess, að bankaeftirlitsmaðurinn hefir á síðastliðnu ári og fyrsta mánuði þessa árs framkvæmt nákvæma skoðun á bankanum og útibúum hans. Að lokinni rannsókn hefir hann gefið þá yfirlýsingu, að bankinn sje fortakslaust tryggur fyrir öllum sínum skuldbindingum. Eins og kunnugt er, er Íslandsbanki að afhenda seðlaútgáfuna í hendur Landsbankans. Af því og öðru leiðir, að Íslandsbanki verður að draga saman viðskiftaveltu sína. Að því var stefnt með löggjöf 1921. Ef þessar breytingar eiga ekki að verða atvinnulífi landsins til kyrkingar, verða tilsvarandi viðskifti að færast yfir í Landsbankann, meðan ekki eru til fleiri bankar í landinu en þeir tveir.

Þetta er nú að gerast í þeirri mynd, að Landsbankinn endurkaupir víxla af Íslandsbanka. Við því er ekki annað að segja en það, að þetta er sú braut, sem löggjafarvaldið sjálft hefir vitandi og viljandi stefnt þessum málum inn á. Þá dugir ekki, þegar Íslandsbanki þarf að láta Landsbankann endurkaupa af sjer víxil, að skoða það sem einhvern sjúkleikavott hjá honum. Nei, það er ekki annað en sú eðlilega rás viðburðanna, sem orsakast af þeirri stefnu, sem rjett hefir þótt að taka, að yfirfæra seðlaútgáfuna frá Íslandsbanka til Landsbankans.

Vitanlega gæti tilfærslan farið fram á þann hátt, að í stað þess að endurkaupa af Íslandsbanka kaupi Landsbankinn sömu víxla beint af viðskiftamönnum Íslandsbanka. En það er vel skiljanlegt, að Landsbankastjórnin vilji heldur hafa ábyrgð Íslandsbanka líka heldur en atvinnurekanda eins, ef hann kaupir víxil beint af honum. Það er yfirleitt tryggari tilhögun fyrir bankann meðan færsla viðskiftanna er að fara fram.

Þetta er rjett að taka fram, af því að þessi viðskifti valda talsverðum misskilningi, enda þótt ábyrgðarheimildin komi þeim ekki sjerlega mikið við.

Háttv. 1. landsk. heldur því fram í öðru orðinu, að það sje gengishækkunin, sem veldur fjárhagsáhættu atvinnulífs landsins. En svo er ósamkvæmnin mikil, að hann gætir ekki að því, að í næsta orði telur hann upp nokkur stærstu töpin, sem svo heppilega eða óheppilega vill til um, að hægt er að sanna, að standa ekki í neinu sambandi við áhættu af gengishækkun, eins og hann vill vera láta. Hann getur þess, að Íslandsbanki hafi tapað alt að 5 milj. kr. á einu fyrirtæki. Jeg býst við, að hann eigi þar við „fiskhringinn“ frá 1920. Þá var ekki um neina gengishækkun að ræða. Svo er og um flest stærri töp atvinnuveganna eða einstakra fyrirtækja, að þau hafa gerst á þeim tíma, er engri gengishækkun var til að dreifa sem orsök. Hún kom sem bein afleiðing af velgengni atvinnuveganna 1924–1925. Menn þurfa því ekki að óttast hana í framtíðinni, því að þegar hún kemur, þá er velgengni atvinnulífsins orsökin, en afleiðingin verður sú, að aftur greiðist til bankanna lánsfjeð, er þeir hafa látið úti.

Hv. þm. sagði, að skuldirnar út á við verði í vor um 40 milj. kr., ef stjórnin fengi vilja sínum framgengt um þessa ábyrgðarheimild. En sannleikurinn er sá, að þær verða hvorki meiri nje minni í vor, þótt frv. sje samþykt, eftir því sem lítur út fyrir.

Hann sló á þá strengi, að uggur væri í embættismannastjett landsins út af þessari ábyrgðarheimild. En það hlýtur að vera fullkominn misskilningur. Embættismenn okkar eru yfirleitt svo vel mentaðir, að þeir skilja, að því aðeins getur ríkið goldið þeim lífvænleg laun, að atvinnuvegirnir sjeu reknir svo vel, að þeir gefi afrakstur í ríkissjóð. Jeg vil leyfa mjer að fullyrða, að meðal embættismanna sje sú skoðun fullkomlega ríkjandi, að landsstjórn og bönkum beri skylda til að sjá atvinnuvegunum fyrir nauðsynlegu rekstrarfje. Ef þessir aðiljar gera það ekki, eru fyrst og fremst stöður og laun embættismannanna í hættu vegna getuleysis ríkissjóðs af kreppu atvinnuveganna.

Ef ekki væri öðru um að kenna en gáfnaskorti og þekkingarleysi mínu, að landsmenn skulda út á við, þá er hægurinn hjá að bæta úr því. Þá þyrfti ekki annað en fela einhverjum greindari manni en mjer mitt starf, og alt fjelli í ljúfa löð. En mjer er óhætt að segja það, að þessi fullyrðing hv. 1. landsk. lýsir næsta ljelegri þekking hans á högum og afstöðu atvinnuveganna. Hversu greindur maður, sem sæti í ráðherrasessi, þá gæti hann ekki haft nein veruleg áhrif á fiskverð suður á Spáni eða kjötverð í Noregi, eða önnur þau atriði, sem ráða mestu um fjárhagsafkomu þjóðarinnar.

Það verður að segja það eins og það er, að um skuldleysi getur ekki verið að ræða á vorum tímum, nema heft hefði verið sú framför, sem orðin er á atvinnurekstri, borin uppi af útlendu fjármagni bankanna. Taki maður burt alt útlenda fjármagnið og alt, sem af því hefir skapast, hvað er þá eftir annað en getuleysi og athafnaleysi og kyrstaða, sem mundi skila okkur aftur á það þroskastig, er atvinnulífið var á fyrir aldamótin, þegar árlegar tekjur landssjóðs voru innan við 1 milj. króna og geta hins opinbera varð auðvitað að sníðast eftir þeim litla efnahag.

Það kom berlega fram í niðurlagi ræðu hv. þm., að alt skraf hans og tal í þessa átt á að vera kosningabeita. En jeg veit fyrir víst, að hann fær landsmenn aldrei til að leggja aftur inn á þá kyrstöðubraut, sem þjóðin var á frá því hún fjekk sjálfsforræði 1874 alt fram undir aldamótin 1900. Eftir að menn eru einu sinni komnir upp á að notfæra sjer þetta erlenda fjármagn, verður ekki snúið til baka. Áframhaldið hlýtur að verða það, að sá atvinnuvegurinn, sem aftur úr er orðinn, sem sje landbúnaðurinn, leggi einnig út á þá braut hina sömu, að nota lánsfje sjer til viðrjettingar og viðgangs, þó með allri þeirri hægð og gætni, sem honum er eiginleg.

Til þess að halda ræðuþræðinum ekki alveg beinum, vjek hv. þm. að stjórnarskrármálinu og vísaði allri ábyrgð af sjer um stjórnarskrárbrot yfir á annan hv. þm. Kalla jeg það ekki karlmannlegt af honum að vilja klína því á alsaklausan mann, sem hefir aldrei haft neitt slíkt í frammi.

Þá hafði hann það eftir einum af bankastjórum Landsbankans, að bankinn þyrfti lánsins ekki með. Þetta er vitanlega öryggisráðstöfun, til þess að bankinn sje við því búinn að geta int af hendi skyldur sínar við atvinnuvegina. Það er þannig rjett, að það er ekki farið fram á þetta lán af þeim ástæðum, að bankinn sje kominn í neitt öngþveiti eða þurfi að nota þetta fje strax.

Hitt hlýtur að vera missögn hjá hv. þm., sem hann hefir eftir bankastjóranum, að Landsbankinn eigi innstæður erlendis. Innstæður á bankinn engar erlendis, en hann á ónotað lánstraust, og það er vitanlega alt annað.

Háttv. þm. lýsti því aftur, að hann teldi lögskýringu fyrirrennara míns um heimild til þess að ábyrgjast lán fyrir Landsbankann ranga. En nú fór hann að breiða yfir það með því að vísa í heimild frá þinginu, sem var viðurkent, að var algerlega óformleg. En það er gagnslaust og enda óþarfi fyrir hv. þm. að vera að þessu. Fyrirrennari minn hafði nefnilega miklu rjettari skilning á þessu heldur en háttv. þm. (JJ). Hann vísaði ekki í óformlega þingheimild, heldur vísaði hann í þá lögskýringu, að ríkið á Landsbankann. Það er margviðurkent og á hverju þingi hefir komið fram nokkurskonar yfirlýsing um það, að ríkisstjórninni væri heimilt að ganga í ábyrgð fyrir bankann, og það síðast á þinginu 1926 í nál. fjhn. Nd. — Það hefði óneitanlega farið betur á því, að hv. 1. landsk. hefði gert þetta upp við fyrv. ráðherra síns eigin flokks; þá hefði hann ekki þurft að hlaupa á sig hjer og bera lögleysur á ráðuneyti það, sem Framsóknarflokkurinn bar ábyrgð á.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði játað það, að fjeð yrði bundið. Það hefi jeg aldrei sagt; þvert á móti hefi jeg sagt það, að það væri engin ástæða til að óttast, að fjeð yrði bundið, eftir horfunum að dæma. — Þá mintist hv. þm. á þingmálafund í Vestur-Húnavatnssýslu og sagði, að stuðningsmenn hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) hefðu samþykt ályktun í gengismálinu, sem væri í ósamræmi við mína stefnu í því máli.

Jeg hefi nú spurt hv. þm. V.-Húnv. um þetta, og hann hefir sagt mjer það, að það voru ekki stuðningsmenn hans eða flokksmenn mínir, sem samþyktu þessa ályktun. Það voru flokksmenn hv. 1. landsk., sem smalað hafði verið rösklega saman, sem samþyktu hana, eins og þeirra var von og vísa.

Næst kom hv. 1. landsk. að orðum mínum um samhengisleysið í ræðum hans, og skal jeg fara lítið út í það. Jeg skil það, að þar hafi jeg komið við viðkvæmt mál. En mjer finst það of mikill misskilningur til þess að óleiðrjett megi standa, að halda það, að jeg hafi verið að hrósa þm. fyrir vissa andlega yfirburði. Jeg veit ekki, hvað jeg á að segja um það lítillæti, sem gengur svo langt að taka það fyrir hrós að vera líkt við persónu í leik, sem á að sýna geðveikismerki. Jeg verð að segja það, að mjer finst það of mikið lítillæti. Það var ekki meint sem hrós, og hv. þm. má ekki taka það sem hrós.

Þá gerði hv. þm. ráð fyrir því, að fyrir sín mörgu orð yrði þetta reikningslán notað varlegar en ella. Þetta getur nú verið, en svo framarlega sem það hefir verið meining hans að ná þessum árangri, þá hefði hann heldur átt að halda ræður sínar niðri í Landsbanka yfir bankastjórninni en hjer í þinginu yfir okkur. Jeg er nú ekki alveg viss um, að Landsbankastjórnin hafi svo mikið álit á ræðum þessa hv. þm., að hún geri sjer far um að ná í ræður hans til lestrar áður en þingtíðindin verða prentuð. En ef það skyldi nú dragast svona eftir venju, að þingtíðindin berist bankastjórninni í hendur, þá hygg jeg, að sá tími verði að mestu liðinn, sem hún hefir til þess að ráðstafa þessu láni.

Í niðurlagi ræðu sinnar vjek hv. 1. landsk. að því, sem vitanlega hefir verið aðalefni þessa máls hjá honum, kosningunum í sumar. (JBald: Það er nú ekki búið að ákveða, að þær verði í sumar). Nei, að vísu, en fyrsti vetrardagur er nú svo nærri sumrinu. Jeg skil það vel, að honum þyki þörf á því seint og snemma að tala um næstu kosningar, því ekki mun honum þykja af veita. Hv. þm. (JJ) flytur þann boðskap hjer, sem hann ætlar að flytja þá, sem sagt þann, að annaðhvort hljótum við að týna fengnu frelsi eða að hafa stjórnarskifti. Já, honum er velkomið að flytja þennan boðskap. Hann var að burðast með þetta sama í sumar og fyrsta dag þessa vetrar, og ef dæma má eftir niðurstöðum þeirra kosninga þá hygg jeg, að þjóðin sje fullkomlega fær um að hlusta á slíkar fullyrðingar hv. 1. landsk. og fylgifiska hans, án þess að hún láti villa sjer sýn um það, hvar rjett sje að láta atkvæði sín lenda.