11.02.1927
Neðri deild: 3. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Áður en jeg vík að frumvarpi því til fjárlaga fyrir árið 1928, sem hjér liggur fyrir til umræðu, skal jeg samkvæmt venju gefa yfirlit yfir fjárhagsafkomu ríkissjóðs á nýliðnu ári. Upphæðir hinna einstöku tekju- og gjaldaliða geta þó tekið einhverjum breytingum, áður en gert verður upp til fullnaðar, því að innborgunum og útborgunum er ekki lokið ennþá.

Samkvæmt þessu yfirliti ætti þá að vera tekjuafgangur yfir árið um 48 þúsund krónur, en þær breytingar geta hæglega orðið á upphæðunum, að hann hverfi alveg, og þykir mjer því rjettast að líta svo á, sem tekjur og gjöld ársins hafi staðist á.

Tekjurnar á árinu virðast munu nema tæpum 121/2 milj. kr., og fara fullum 21/2 milj. kr. fram úr áætlun fjárlaganna. Þeir liðir, sem hafa farið mest fram úr áætlun, eru:

Tekju- og eignarskattur, um 400 þús. kr., og stafar af því, að árið 1925 var að mörgu leyti hagstætt atvinnuár, þótt erfiðleikar byrjuðu undir árslokin.

Tóbakstollurinn hefir farið 685 þús. krónur fram úr áætlun fjárlaganna, en þetta stafar af breyttri löggjöf. Á móti þessu fellur niður liðurinn tekjur af tóbakseinkasölu, sem var áætlaður 275 þús. kr., svo að raunverulega hafa tekjur af tóbaki orðið 410 þús. kr. umfram áætlun. Fyrir utan þetta var flutt inn tóbak á liðna árinu, sem var í tollgeymslu á áramótum, er svarar 142 þús. kr. í tolli, en sú upphæð er ekki meðtalin í tóbakstollinum hjer, af því að rjettara þykir að telja hann á sínum tíma með tekjum ársins 1927.

Þá hefir verðtollurinn farið 492 þús. kr. fram úr áætlun.

Þá hafa pósttekjur og símatekjur hvorar um sig farið um 200 þús. kr. fram úr áætlun. En gjöldin hafa líka farið fram úr áætlun, við póstmálin þó einungis um rúmar 60 þús. kr., en við símann rúml. 350 þús. kr.

Gjöldin voru í fjárlögunum áætluð 10 milj. 318 þús. kr., og hafa þannig orðið rúmum 2 milj. kr. hærri.

Á 7. gr. hafa sparast um 320 þús. kr. af vöxtum og um 530 þús. kr. af áætluðum afborgunum, hvorttveggja stafandi af því, að greiðslu lausaskuldanna var lokið í ársbyrjun, en fyrir því hafði ekki verið ráð gert þegar fjárlögin fyrir 1926 voru sett. Aftur hefir á öðrum fjárlagagreinum, frá 8. til og með 20., orðið umframeyðsla samtals um 1 milj. 470 þús. kr. Þetta stafar að dálitlu leyti af því, að dýrtíðaruppbót starfsmanna ríkisins reyndist hærri en áætlað var, 671/3% í stað 60%, en líka að nokkru leyti af því, að stjórnin leyfði ýmsar framkvæmdir, sem fje var ekki veitt til, einkum vegaviðgerðir, brúargerðir, símaendurbætur, vita og sjómerki. Margt af þessu var orðið mjög aðkallandi, vegna undanfarinnar kyrstöðu verklegra framkvæmda, og þótti ekki rjett að neita um það með öllu, þegar fje var fyrir hendi, sem ekki þurfti að nota til skuldagreiðslu. — Stærstar hafa umframgreiðslurnar orðið á þessum liðum:

Landssíminn

354 þús. kr.

Vegamálin

261 — —

Vitamálin

159 — —

Berklakostnaður

179 — —

Óviss gjöld

130 — —

Teknir í heild hafa gjaldaliðir fjár-

laganna sjálfra þannig eigi farið nema

um 670 þús. kr. fram úr

áætlun.

Að öðru leyti stafar umframeyðslan

af gjöldum utan fjárlaga samkv. nýj-

um og eldri lögum, og eru þetta aðal-

upphæðirnar:

Til kæliskipskaupa

350 þús. kr.

— ræktunarsjóðs ....

275 — —

— Flóaáveitunnar . . .

226 — —

Vegna Vestm.-hafnar .

108 — —

Kostnaður við skiftimynt

24 — —

Gengisnefndin

10 — —

Fyrirhleðsla Markar-

fljóts

Ýmsar upphæðir, sem teknar verða í frumvarp til fjáraukalaga fyrir

10 þús. kr.

1926

288 — —

Á fjárlögunum fyrir árið 1926 var áætlaður tekjuhalli um 473 þús. kr. Það hefir þannig í reyndinni tekist að afstýra þessum tekjuhalla. Ennfremur hefir verið unt að greiða kæliskipsframlagið af tekjum ársins, en þegar lögin um kæliskip voru sett á þinginu 1926, var í rauninni ekki búist við því, að framlagið yrði greitt af tekjum ársins 1926, heldur af sjóði þeim, sem fyrir hendi var í ársbyrjun. En niðurstaða ársins gerir það að verkum, að ekki hefir ennþá þurft að skerða sjóðinn, a. m. k. ekkert verulega. Þá er og rjett að geta þess sjerstaklega, að í gjöldum ársins er innifalin afborgun af skuldum nærri ein milj. kr., framlag til Landsbankans 100 þús. kr. og afturkræf upphæð til Flóaáveitunnar rúml. 150 þús. kr. Loks er rjett að geta þess, að seðlagjaldið frá Landsbankanum, sem er lagt til hliðar samkvæmt ákvæðum laga nr. 53, 1926, og auðvitað er eign ríkisins, hefir numið á árinu 100 þús. kr., sem standa í viðskiftabók við Landsbankann og eru ekki taldar með tekjum í framangreindu yfirliti.

Þótt fjárhagsafkoma ríkissjóðs þannig hafi orðið eftir öllum vonum á liðnu ári, þá felur hún í sjer ýmsar sterkar áminningar um að fara nú gætilega í fjármálum. Tekjurnar hafa orðið yfir 4 milj. kr. lægri en næsta árið á undan — og því skyldu þær ekki geta haldið áfram að lækka?

Mjer sýnist þess vegna rjett að segja nokkur orð um horfurnar fyrir afkomu ríkissjóðs á þessu nýbyrjaða ári 1927.

Síðustu 2 árin hafa útgjöld fjárlaganna hækkað í meðferð Alþingis um hátt upp í 1 milj. kr. hvort árið, frá því sem stjórnin hafði stungið upp á í fjárlagafrumvarpi sínu. Jafnframt hefir svo tekjuáætlun stjórnarinnar verið hækkuð til þess að forðast alt of bágborinn jöfnuð á fjárlögunum. Afleiðingin af þessu er m. a. orðin sú, að sumir tekjuliðir eru bersýnilega of hátt áætlaðir í fjárlögunum fyrir þetta nýbyrjaða ár. Sem dæmi nefni jeg útflutningsgjaldið. Það er áætlað 1 milj. kr. í fjárlögum 1927, en hefir ekki reynst nema 857 þús. kr. árið 1926. Eftir reynslu ársins 1926 er líklega mjög hæpið að vænta 500 þús. kr. tekna frá áfengisversluninni, eins og fjárlögin 1927 þó gera ráð fyrir.

Tekjur ríkissjóðs fara að talsverðu leyti eftir afkomu atvinnuveganna, með þar af leiðandi breytingum á kaupgetu manna og eyðslu. En reynslan sýnir, að tekjur ríkissjóðs mótast fult svo mikið eftir afkomu atvinnuveganna og almennings næsta ár á undan sem eftir ástandi hvers yfirstandandi árs. Hinar miklu tekjur 1925 stöfuðu þannig fremur af góðærinu 1924 en af því, að sjálft árið 1925 væri svo framúrskarandi hagstætt. Árið 1926 var nú fremur erfitt ár fyrir atvinnuvegina, en ríkissjóður hefir að talsverðu notið þess, að árið 1925 var yfir höfuð afkomugott ár. En aftur hljóta tekjur ársins 1927 að mótast talsvert af erfiðri afkomu hins nýliðna árs; það verður að búast við þeim talsvert minni en tekjum ársins 1926. Þar við bætist nú, að tekjur ársins 1927 hafa verið skertar nokkuð með löggjöf, eftir að tekjuáætlun fjárlaganna fyrir það ár var fullgerð. Jeg á hjer við breytinguna á vörutollslögunum, nr. 54, 1926, með lækkun á kola-, salt- og steinolíutolli og burtfelling tunnutolls og kornvörutolls.

Í fjárlögum þessa nýbyrjaða árs eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 10 milj. og 834 þús. kr., eða rúmlega 1 milj. og 600 þús. kr. lægri en þær reyndust síðastliðið ár. Mjer sýnist samkvæmt framansögðu sennilegt, að svo geti farið, að tekjurnar geri ekkert meira en að ná áætlun. En fjárveitingar gjaldamegin í þessum sömu fjárlögum. eru 276 þús. kr. hærri, og þar að auki er fyrirfram vitanlegt um ýms útgjöld, sem hafa ekki verið tekin upp í fjárlögin. Mjer virðist því alveg ljóst, að það muni verða mjög erfitt að halda jöfnuði milli tekna og gjalda á þessu nýbyrjaða ári, og það getur farið svo, að þetta verði ómögulegt. Í þessu sambandi þykir mjer því rjett að minna á ummæli mín á síðasta þingi, þegar frumvarp um lækkun vörutollsins var til umræðu. Jeg taldi þá, að vegna afkomu ársins 1926 væri ekki ástæða til að hafa á móti frumvarpinu, en áskildi stjórninni að koma með tekjuaukafrumvörp á þessu þingi, ef þá þætti sjáanlegt, að ríkissjóður þyldi ekki þennan tekjumissi árið 1927. Stjórnin hefir nú ekki afráðið ennþá, hvort hún vill fara fram á slíka tekjuaukalöggjöf, eða reyna að komast af án hennar þrátt fyrir erfitt útlit, en mun bera sig saman við fjárhagsnefndir þingdeildanna um þetta. En hvað sem ofan á verður í þessu efni, þá mun stjórnin reyna að gæta sparnaðar á ríkisfje eftir ýtrasta megni þetta ár, meðal annars með því að ganga ríkt eftir því við forstöðumenn ríkisframkvæmda og stofnana, að þeir noti ekki fje umfram fjárveitingu nema í brýnni nauðsyn, og þá ekki nema eftir fyrirfram fenginni heimild.

Þá skal jeg snúa mjer að fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga fyrir 1928. Tekjurnar eru áætlaðar 10 milj. 494 þús. kr., og gjöldin 103 þús. kr. lægri. Tekjuáætlunin ber talsverðan svip af þeim hækkunum, sem þingið hefir gert á tekjuáætlun stjórnarinnar tvö undanfarin ár. Það er skoðun mín, að ekki sje leyfilegt að hækka hana að óbreyttri löggjöf og óbreyttum horfum, og einn einstakur liður (tekjur af áfengisverslun) er hærri en stjórninni hefði þótt þorandi, ef vitneskja um afkomu ársins 1926 hefði legið fyrir, þegar frv. var samið. Gjaldamegin hefir verið reynt að sníða frv. eftir þeirri verðlækkun, sem er afleiðing hins hækkaða peningagengis. Launaupphæðir eru áætlaðar með dýrtíðaruppbót 45%, og lækkanir eru áætlaðar á öðrum liðum 10 til 15% frá tilsvarandi upphæð í fjárlögunum 1927, nema þar sem ástæða hefir þótt til raunverulegrar hækkunar. Hinsvegar hefir stjórnin viljað halda í frv. fjárveitingum til verklegra framkvæmda svipaðra og 1927; þar á meðal eru fjárveitingar til sjúkrahúsbygginga 270 þús. kr., til nýrra þjóðvega (akvega) 285 þús. kr., til brúargerða 225 þús. kr., til nýrra símalagninga 275 þús. kr. og til nýrra vita 100 þús. kr. Þótt sumar krónutölur til slíkra verklegra framkvæmda sjeu lægri í frv. en tilsvarandi upphæðir í fjárlögum 1927, þá hygg jeg, að þær svari nokkurnveginn til jafnmikilla framkvæmda, vegna lækkaðs verðlags. Við lauslegan samanburð hefir mjer talist svo til, að í fjárlögum 1927 sjeu veittar um 1567 þús. kr. til allskonar nýrra mannvirkja, að frátöldu tillagi til sýsluvega og því um líkt, en í þessu frv. um 1320 þús. kr., eða milli 15 og 16% lægri krónutala.

Það hefir alls ekki verið tilætlun mín með því, sem jeg hjer hefi sagt um meðferð þingsins á fjárlagafrumvarpi tveggja undanfarinna ára, að veita Alþingi neinar átölur. En af öllu framansögðu vona jeg, að það sje ljóst, að gagnvart þessu frv. verður þingið að taka aðra afstöðu, ef fjárhag ríkissjóðs á ekki að tefla í tvísýnu. Það er ekki forsvaranlegt að hækka tekjuáætlunina, að mínu áliti, en þá mega gjöldin ekki heldur hækka í meðferð þingsins svo neinu nemi, nema ný tekjulöggjöf sje jafnframt sett og geri hækkun gjaldanna forsvaranlega. En við meðferð þessa frv. liggur annað verkefni fyrir þinginu, og þá sjerstaklega fyrir hv. fjárveitinganefndum. Það er að endurskoða hvern einstakan gjaldlið til athugunar á því, hvort niðurfærsla í hlutfalli við lækkað verðlag sje þegar komin fram í frv., eða ekki megi ganga lengra í því efni en stjórnin hefir gert. Jeg hygg, að slík yfirskoðun sje öldungis rjettmæt og muni bera nokkurn árangur. Yfir höfuð hygg jeg, að ef þingið í þetta sinn vill koma inn nýjum eða hækkuðum útgjöldum, þá verði að reyna að finna niðurfærslur gjalda þar á móti.

Loks skal jeg minnast á nokkur atriði úr afkomu liðna ársins, önnur en þau, sem áður er getið og varða fjárhag ríkissjóðs beinlínis.

Gengi íslensku krónunnar hefir verið óbreytt alt árið, um 81,6% af lögmætu gullgildi hennar.

Hinir nýju flokkar veðdeildar Landsbankans tóku til starfa á árinu, hinn 1. október. Ríkislán, að upphæð 21/2 milj. danskar kr., voru tekin í Danmörku, hjá Statsanstalten for Livsforsikring og tryggingarfjelaginu „Hafnia“, til kaupa á veðdeildarbrjefum 5. fl. Lánin eru veitt ríkissjóði með 5% vöxtum til 30 ára, og með afföllum svo að svarar því, að raunverulegir vextir verða á láninu hjá Statsanstalten (2 milj. d. kr.) og 6% á hinu láninu (1/2 milj. d. kr.). Bankavaxtabrjef þau, sem ríkissjóður eignast fyrir þetta lánsfje, bera einnig 5% vexti og eru keypt með þeim afföllum, að ríkissjóður á að vera skaðlaus af lántökunni, eða vel það, þegar inndrætti brjefanna verður lokið. Á þessum 3 mánuðum, frá 1. okt. til ársloka, voru veitt úr 5. flokki, sem ríkissjóður kaupir allan, 306 lán að nafnverði 2375500 kr., og úr 6. flokki, sem er til sölu, 47 lán að nafnverði 310600 kr. Fram til 5. þ. m. höfðu alls verið veitt úr báðum flokkum 487 lán að upphæð 3544700 kr. Eftirspurnin eftir þessum lánum hefir verið mjög mikil, og er langt frá því að lokið sje við að fullnægja henni. Að hún hefir orðið svona mikil, stafar meðfram af því, hve óaðgengilegt hefir þótt að nota 4. flokk veðdeildarinnar, sem sjá má af því, að þau 12 ár, sem hann starfaði, voru eigi veitt nema 61 lán að meðaltali á ári úr veðdeildinni, og árleg samtala lánanna ekki nema um 415 þús. kr. að meðaltali. Í rauninni lá því fyrir nú, og liggur að nokkru leyti fyrir enn, að fullnægja samansafnaðri fasteignalánsþörf margra ára.

Úr ræktunarsjóði voru veitt á árinu 281 lán að upphæð alls 876450 kr. Síðan sjóðurinn tók til starfa eftir hinum nýju lögum, 1. okt. 1925, hefir hann veitt nokkuð yfir 1 milj. kr. í lánum.

Á þessu nýliðna ári hefir verið gerð fyrsta tilraun til þess að fá jafnóðum mánaðarskýrslur um verðmæti innfluttrar vöru, en áður var byrjað að gera slík mánaðaryfirlit yfir verðmæti og vörumagn útfluttrar vöru. Það eru sýslumenn og bæjarfógetar utan Reykjavíkur og lögreglustjórinn í Reykjavík, sem safna skýrslunum, hver úr sínu umdæmi. — Hagstofan leggur svo saman tölurnar af öllum hinum einstöku innflutningsskýrslum úr Reykjavík, en utan Reykjavíkur leggja sýslumenn og bæjarfógetar saman og síma niðurstöðuna mánaðarlega til fjármálaráðuneytisins. Er það mikið verk, sem með þessu hefir bæst á mörg embættin. Yfirleitt virðist þetta hafa tekist eftir vonum. — Þessu verður haldið áfram, og er þess vænst, að það leiði m. a. til þess, að fullkomnar verslunarskýrslur fyrir hvert ár geti verið tilbúnar frá Hagstofunni fyr en verið hefir. Til þess að viðunandi yfirlit yfir viðskiftahag landsins út á við sje jafnan fyrir hendi, vantar þó enn að gera hagskýrslur, að minsta kosti um hver áramót, um skuldaskifti landsmanna við útlönd, og er nú verið að vinna að því að koma einnig þessu í lag.

Árið 1926 hefir verið óhagstætt fyrir atvinnuvegi landsins að því er fjárhagshliðina snertir. Verð íslenskra afurða fjell mjög mikið síðustu mánuði ársins 1925, og hið lága verð hefir haldist á aðalvörutegundunum. — Kaupgjald og annar tilkostnaður á árinu var aftur á móti hátt, að miklu leyti miðað við hið háa verð á afurðum og hið lægra peningagildi, er atvinnuvegirnir áttu við að búa 1924 og meiri hluta ársins 1925. Hjer við bætist svo mjög mikil aðkreppa og til kostnaður fyrir sjávarútveg og siglingar af kolaverkfallinu í Englandi. Farmgjöld milli landa hækkuðu mjög af sömu ástæðu, en slík hækkun er tilfinnanleg fyrir sjávarútveginn.

Þessir erfiðleikar hafa m. a. komið fram í því, að verslunarjöfnuður landsins hefir orðið óhagstæður í samanburði við undanfarin ár. Eftir þeim skýrslum, sem nú liggja fyrir og vonast er eftir að sjeu nokkurnveginn tæmandi, hefir verið innflutt á árinu:

Vörur allskonar fyrir 48 milj. 285 þús. kr.

Skip 2 — 254 — —

Samtals innfl. 50 milj. 539 þús. kr.

En útfl. vörur fyrir 47 — 864 — —

Mismunur 2 milj. 675 þús. kr.

sem vantar til að útflutningur borgi allan innflutning, að skipum meðtöldum. Skipin, sem hjer eru talin innflutt, eru strandgæsluskipið „Óðinn“ og 4 botnvörpuskip, sem flutt voru inn snemma á árinu. Þessi erfiði verslunarjöfnuður stafar ekki eingöngu af hinu óhagstæða verslunarárferði, heldur einnig af því, að framkvæmdir voru miklar í beinu framhaldi af árgæskunni undanfarið, bæði óvenjumiklar húsabyggingar í kaupstöðum og skipakaup þau, sem nefnd voru, og fleira. Vegna þessara framkvæmda hefir innflutningur árið 1926, að skipum frátöldum, orðið sem næst alveg jafnmikill að gullverði og árið áður, eða aðeins 3/4 milj. kr. lægri, eftir því sem enn verður vitað. Útflutningur ársins 1926 virðist vera að vöxtum eða vörumagni um 4% minni en 1925, en að gullverðmæti hefir hann orðið 24,2% minni 1926 en árið áður, að því er Hagstofan telur. Í rauninni er það furða, hve langt útflutningurinn, þrátt fyrir þetta mikla raunverulega verðfall, hefir hrokkið til að borga hinn mikla innflutning.

Bankarnir skulduðu til útlanda í árslok nálega 360 þús. sterlingspd., en höfðu átt inni í ársbyrjun um 225 þús. sterlingspunda. Ennfremur hefir Landsbankinn selt á árinu erlend verðbrjef fyrir tæpa milj. ísl. kr. Þessi mikla hreyfing á greiðslujöfnuði bankanna út á við stafar ekki nema að nokkru leyti af óhagstæðum verslunarjöfnuði eða greiðslujöfnuði landsins í heild á árinu. Að æðimiklu leyti stafar hreyfingin af því, að erlent fje, sem streymdi hingað á árinu 1925 frá útlöndum, hefir á síðasta ári verið dregið heim eða notað til kaupa á íslenskum útflutningsvörum.

Seðlaútgáfa ríkissjóðs samkvæmt lögum nr. 7, 4. maí 1922, nam 3 milj. 701 þús. kr. í byrjun ársins, og komst aldrei jafnhátt á árinu. Seðlaveltan er venjulega lægst að vorinu, en hæst að haustinu. Ef talið er á mánaðamótum eingöngu, þá náði útgáfa ríkissjóðsseðla síðastliðið vor lágmarki 1. maí með 1 milj. 776 þús. kr., sem svarar til seðlaveltu alls um 71/2 milj. kr. Há marki haustsins náði hún 1. nóv. með 3 milj. 271 þús. kr. af ríkissjóðsseðlum í umferð, sem svarar til seðlaveltu alls 9 milj. kr. Nú í árslok var seðlaútgáfa ríkissjóðs komin niður fyrir vorlágmarkið, eða í 1 milj. 474 þús. kr., sem svarar til seðlaveltu í heild rúml. 7 milj. kr. Lágmark seðlaveltunnar í vor hefir þannig verið sem næst hið sama og vorið 1925, 71/2 milj. kr., en bæði hausthámarkið og áramótaveltan er á þriðju miljón kr. lægra en á sama tíma 1925.

Afkoma atvinnuveganna og bankanna á liðna árinu felur þannig, eigi síður en afkoma ríkissjóðsins sjálfs, í sjer sterka aðvörun um það að fara nú einstaklega gætilega með fjármálin, þangað til þessi kreppa er liðin hjá. Skal jeg svo enda mál mitt með þeirri einlægu ósk, að Alþingi megi takast að leysa af hendi með fullum heiðri hið vandasama starf sitt á þessu sviði.