26.02.1927
Efri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Ingvar Pálmason:

Jeg stend ekki upp til þess að andmæla þeim litlu brtt., sem háttv. nefnd hefir gert við þetta frv. þó get jeg tekið það fram strax, að jeg tel brtt. hennar við 36. gr. óþarfa. Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um brtt. háttv. nefndar, því að jeg get að mestu fallist á þær. En það var annað, sem kom mjer til þess að standa upp, það er það, að jeg tel, að það sjeu ákvæði í þessu frv., sem gjarnan hefði mátt breyta til bóta, þó að jeg ekki komi með brtt. við þau að þessu sinni, en hafði aðeins hugsað mjer að skjóta því til háttv. nefndar, hvort hún vildi ekki taka til yfirvegunar það, sem jeg nú hefi að athuga við frv.

Þá er fyrst að athuga 11. gr. þar stendur, að ef atkvæði sjeu jöfn, skuli atkvæði oddvita ráða; jeg tel þetta óþarft, vegna þess að tala hreppsnefndarmanna er ákveðin stök, og ef hún er fullskipuð, þá getur hún ekki verið jöfn, en á hinn bóginn verður að líta svo á, að þetta geti orðið varhugavert, að oddviti eigi tvö atkvæði. Nú er það svo, að hreppsnefnd er ýmist skipuð 3, 5 eða 7 mönnum, og þar sem þrír menn eru í nefnd, er fundurinn lögmætur, ef mættir eru tveir menn, og þá getur atkvæði oddvita ráðið úrslitum. Þetta tel jeg, að geti haft í för með sjer töluvert víðtæk áhrif, og sýnt það í verkinu, að þarna er galli á lögunum. Sama er að segja, ef hreppsnefnd er skipuð 5 mönnum, þá getur farið svo, að aðeins tveir menn geti ráðið úrslitum mála, og þannig getur oft staðið á. Jeg sje heldur ekki, hver hætta væri á ferðum, þótt þetta ákvæði stæði ekki í lögunum, vegna þess mætti vel setja í lögin, að ef atkvæði verða jöfn, þá falli ágreiningsatriðið niður um sinn, þar til fleiri nefndarmenn eru mættir. — Jeg vil skjóta þessu fram og mælast til þess, að háttv. allshn. vildi athuga þetta atriði til 3. umr., því að jeg lít svo á, að það sje rjett, og jafnvel nauðsynlegt, að fella þetta ákvæði úr lögunum, því að það gæti undir sumum kringumstæðum orðið til mikils ógagns.

Þá er það 25. gr. frv., sem jeg vildi athuga. par stendur, að hreppsnefnd skuli í hvert skifti kjósa einhvern innansveitarmann, annaðhvort úr hreppsnefndinni eða utan hennar, til að yfirskoða reikninga hreppsins. Við þetta hefi jeg ekkert að athuga, en það lítur út fyrir, eftir orðalagi greinarinnar, að þessi maður eigi að starfa endurgjaldslaust. Vil jeg ekki segja, að það sje með öllu ósanngjarnt, en þegar litið er til þeirra fresta, sem ákveðnir eru síðar í þessari grein, t. d. þess, að endurskoðandi hefir aðeins tímann frá 20. janúar til 1. febrúar yfir að ráða, þá er það alveg auðsjeð, að hjer getur ekki verið um aukavinnu að ræða, þá verður hann að taka tímann til þessarar endurskoðunar, og þá hygg jeg, að það sje dálítið athugavert, þegar á að fara að skylda manninn til að leysa þetta verk af höndum á ákveðnum tíma, sem ekki er lengri en þetta, því að það vita menn, að í sumum hreppum á landinu eru reikningarnir orðnir svo yfirgripsmiklir, að endurskoðun þeirra verður ekki höfð sem aukastarf á stuttum tíma, ef hún á að vera sæmilega af hendi leyst. Þá veitir ekki af að gera það að aðalstarfi, meðan á því stendur. Þess vegna væri rjettara að bæta inn í greinina heimild fyrir hreppana til að launa þetta starf. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þessa grein, þó að jeg viðurkenni, að mjer þyki þessi frestur frekar stuttur, eða öllu heldur, að hann geti orðið of stuttur í sumum hreppum landsins. En hitt er rjett, að lögin herði á um það, að reikningunum sje skilað reglulega. Segi jeg þetta ekki af því, að jeg ætli að fara að gera ágreiningsatriði um það, að fresturinn sje of stuttur, en læt mjer aðeins nægja að benda á þetta atriði um laun endurskoðenda. Þá er 39. gr. frv. Sú gr. hefir inni að halda ákvæði um það, að þá endurskoðun, er sýslunefndir láta fram fara, megi greiða þóknun fyrir. En það, sem jeg hefi aðallega við þessa gr. að athuga, er, að þeir frestir, sem gefnir eru til endurskoðunar og andsvara fyrir oddvita, eru of stuttir. Eins og háttv. þdm. munu hafa tekið eftir, eiga hreppsnefndaroddvitar að senda reikninginn frá sjer fyrir 15. febrúar, en endurskoðari skal samkvæmt 39. gr. hafa endurskoðað hann fyrir 10. mars. Nú vitum vjer það, eftir þeim samgöngum, sem hjer eru víðast hvar á landinu, og hefi jeg þá einkum fyrir augum kjördæmi mitt, Suður-Múlasýslu, sem jeg þekki best til, og með þeim póstferðum, sem nú eru, verður þetta óframkvæmanlegt, t. d. hygg jeg það rjett, að póstur muni vera á ferð um Suður-Múlasýslu í síðari hluta febrúar, og myndi þá vera hægt að senda reikningana úr suðurhluta sýslunnar, og aukapóstur gengur þá til Seyðisfjarðar, og mætti með honum senda eitthvað af reikningum til Seyðisfjarðar og Eskifjarðar. En svo verða þeir reikningar að liggja þar, þangað til að póstur fer næst, sem ekki mun vera fyr en eftir miðjan mars, og nú er hugsanlegt, að endurskoðari eigi heima uppi á Hjeraði, eins og nú á sjer einmitt stað, og þá skilst mjer, að reikningarnir geti tæplega komist í hans hendur fyr en eftir miðjan mars, og þegar hann svo á að hafa lokið endurskoðun á 15 reikningum fyrir 10. dag marsmánaðar, þá sjer það hver maður, að þetta getur ekki átt sjer stað, en hitt er ennþá fráleitara, að hreppsnefndaroddvitar geti fyrir 25. mars verið búnir að svara öllum athugasemdum endurskoðara, ef þeir nota póstferðir. Það getur verið, að það yrði algerlega ómögulegt að hafa svarað öllum athugasemdum, og þess vegna virðist mjer, að eitt af tvennu hljóti að leiða af þessu, annaðhvort að oddviti eða endurskoðari sendi hraðboða með reikninginn og athugasemdirnar, ellegar að þetta ákvæði getur ekki staðið. Nú er það svo, að öll endurskoðun er trúnaðarstarf, sem mikið veltur á, og þess vegna virðist mjer fyrir mitt leyti, að ekki megi gera ráð fyrir því, að til þess starfs verði kastað höndum, en það fyndist mjer að hlyti að verða bein afleiðing af því, ef fylgja á ákvæðum 39. gr.

Jeg hygg nú, að það, sem vakað hefir fyrir hv. allshn., hafi verið það, að herða sem mest á afgreiðslu reikninganna, en jeg held samt, að þessi gr. þurfi athugunar við, og ef það er rjett, sem við mikið hefir að styðjast, að það skuli vera fastsettir dagar, þegar afgreiðslu reikninganna er lokið, og sömuleiðis hvenær svar oddvita sje komið til endurskoðara, þá verði fresturinn að vera lengri. Jeg hygg þó rjettara að hafa þetta ekki fastákveðið við ákveðna mánaðardaga; jeg hygg, að það nægði, að í greininni stæði, að það skyldi verða svo fljótt sem hægt væri, láta svo sýslunefnd um það að reka á eftir. En eftir því, sem stendur í greininni, þá sje jeg ekki annað en að það sje gersamlega ómögulegt að fullnægja þessu, t. d. má benda á það, að í flestum sýslum landsins mun það vera svo, að ekki verður hægt að fullnægja þessum ákvæðum, en það verð jeg að telja stórkostlegan galla á lögum, að í þeim skuli standa ákvæði, sem er nokkurnveginn víst, að ekki er hægt að fullnægja.

Jeg skal svo ekki gera fleiri athugasemdir, en vænti þess, að háttv. allshn. taki þessar bendingar mínar til athugunar fyrir 3. umr.

Jeg skal að síðustu endurtaka það, sem jeg sagði um tvöfalt atkv. hreppsnefndaroddvita, að jeg tel það ákvæði óþarft, og sömuleiðis ákvæðið um atkv. sýslunefndaroddvita, en þó stendur þar dálítið öðruvísi á, vegna þess að sumar sýslunefndir eru svo skipaðar, að atkv. eru jöfn, og get jeg því betur felt mig við það, og sömuleiðis hefir nefndin haft það fyrir augum, að samræmi væri. En þegar litið er á ákvæðið um atkvgr. innan hreppsnefnda, þá álít jeg, að þetta tvöfalda atkv. sje óþarft og að sumu leyti rangt, og legg jeg því mikla áherslu á, að þessu ákvæði fengist breytt. En af því, sem að framan er sagt, gæti jeg miklu betur felt mig við, að þetta stæði um atkvgr. innan sýslunefnda, en alls ekki hreppsnefnda, því að það lætur að líkum, eins og nú er orðið háttað hjá oss, að ýmislegt kemst inn í sveitarmálefni, sem töluverður ágreiningur getur orðið um, og þá er ekki rjett, að löggjafarvaldið gefi tilefni til þess að koma fram málum með atkvæði hreppsnefndaroddvita einu saman. Jeg vona því, að hv. allshn. taki þetta atriði rækilega til íhugunar. Ef hv. nefnd treystir sjer ekki til að gera brtt. um þetta, þá mun jeg koma með hana til 3. umr., hvernig svo sem um hana fer þá.

Jeg vænti vinsamlegra undirtekta frá hv. allshn., því að jeg hefi gert þessar athugasemdir í þeim einum tilgangi að bæta það frv., sem hjer liggur fyrir, en ekki af því, að starf hennar væri ekki vel af hendi leyst.