26.02.1927
Efri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg þarf ekki að svara hæstv. atvrh. (MG) miklu, því að hann var yfirleitt ánægður með þessar lítilfjörlegu brtt. nefndarinnar, að því er mjer skildist. Aðeins sagði hæstv. ráðh. (MG) það, að skeð gæti, að nefndin hefði farið fullhátt í launahækkun oddvita, og að það yrði kannske ósamræmi milli oddvitalauna og hreppstjóralauna. Jeg held nú samt, að þótt launin sjeu sett eins og nefndin leggur til, að hreppstjóralaunin sjeu hlutfallslega hærri, því að störf þeirra eru ekki sambærileg, því að það er svo miklu meira, sem oddvitinn hefir að gera, svo að hreppstjórar þyrftu ekki að verða óánægðir eða fara fram á launahækkun, þó að oddvitar fengju þessa viðbót við laun sín.

Þá var það viðvíkjandi brtt. nefndarinnar við 30. gr., að hæstv. ráðh. (MG) bjóst við, að sektarákvæðum hennar yrði ekki oft beitt. Um það er jeg sammála hæstv. ráðh. (MG), að gera megi ráð fyrir, að þeim verði mjög sjaldan, eða jafnvel aldrei beitt, og er þá greinin, þó hún í sjálfu sjer sje til bóta, lítt nýt, en það stafar af því, að menn eru kannske ekki svo fúsir á að sekta kunningja sína fyrir vanrækslu, en það verð jeg þó að telja illa farið, því að jeg býst við, að ef sektum væri beitt, þá bætti það kannske framferði nefndanna, sem í þessum tilfellum hefir víst stundum ekki verið sem best.

Þá vil jeg athuga það, sem hv. 2. þm. S.-M. (IP) sagði um þetta frv. Hv. þm. (IP) byrjaði á því að telja óþarfa brtt. nefndarinnar við 36. gr. frv., þar sem ætlast er til, að sýslunefndaroddviti skeri úr, ef atkvæði eru jöfn. En það er nú ekki mikið sagt með því, og ekki víst, að til þessa ákvæðis þurfi að taka, en það held jeg nú reyndar, að hv. þm. (IP) hafi ekki sagt. Aftur á móti var hv. þm. (IP) óánægður yfir, hvernig þetta stendur að því er hreppsnefndaroddvita snertir, en jeg gat nú ekki fylgst með hugsanagangi hv. þm. (IP) í því, að þetta hefði beinlínis reynst hættulegt, og aldrei hefir það, mjer vitanlega, komið til orða, að þetta ákvæði mætti ekki standa, svo að ekki verður sjeð, að það hafi gefist illa. Og ef svo færi, að tveir menn úr 3 mannahreppsnefnd yrðu að halda fund og skoðun oddvita rjeði um það, sem á milli bæri, þá skilst mjer, að það væri, að dómi háttv. þm. (IP), það hættulegasta, sem fyrir gæti komið, ef skoðun oddvita yrði ofan á. En jeg held, að það eigi að jafnaði að vera svo, að oddvitinn sje einhver hæfasti maðurinn í nefndinni, og ekki verður það síður fyrir það, ef þessi launahækkun verður samþykt; auk þess býst jeg ekki við, ef svo stæði á, að það vantaði þriðjung nefndar á fund, að hinir færu að gera ályktanir um mál, sem hægt væri að sleppa við að gera þangað til síðar, að fleiri væru mættir. Jeg get því ekki álitið, að þetta ákvæði sje neitt hættulegt.

Þá fór hv. þm. (IP) að tala um fresti þá, sem nefndir eru í 25. og 39. gr. Nefndinni var það ljóst, að þeir eru alt of stuttir í raun og veru, en sá ekki, að hægt væri að lengja þá, eins og ástatt er nú með þessi mál, en bjóst hins vegar við, að svo gæti farið, að þeir yrðu af sjálfu sjer lengdir, án þess að nokkuð yrði að fundið. En það verð jeg að segja, að jeg er alveg á móti því, að ekki sje betra að miða frestina við einhverja vissa daga, heldur en það, sem hv. þm. hjelt fram, að það væri kannske eins gott að sleppa þessum föstu takmörkunum, en að verkið væri framkvæmt eins fljótt og unt væri, og svo þyrfti sýslunefnd að fara að áminna um verkið; það kynni jeg alls ekki við.

Þá sagði hv. þm. (IP), að það væri kannske yfirsjón, að hreppsnefnd hefði ekki heimild til þess að greiða yfirskoðara einhverja þóknun fyrir starf sitt. En það er nú, satt að segja, svo í flestum hreppum, að endurskoðun sveitarsjóðsreikninga er ekki meira starf en svo, að jeg held, að það sje alveg óþarft að fara að heimila borgun fyrir það, og jeg býst jafnvel við, að ef farið yrði að borga fyrir það, þá yrði jafnvel meiri hætta á því, að þá yrðu teknir menn, sem ekki væru eins vel færir um það, því jeg álít, að þegar engin þóknun er greidd fyrir verkið, þá taki hreppsnefndin þann manninn, sem hún treystir best. Þess er líka að gæta, að starfið er ósköp lítið út af fyrir sig, og þó að gott sje að borga fyrir öll viðvik, má ekki gleyma því, að það verður þó til að þyngja álögur í sveitarfjelaginu. Annars gladdi það mig að heyra þau ummæli hv. þm. (IP), að frestirnir væru alt of stuttir og að ekki væri auðvelt að gera við því. En af hverju stafar nú þetta? Það stafar af þeirri breytingu, sem gerð var í fyrra, að almanaksárið var gert að reikningsári hreppanna, og þessi hv. þm. var einn af þeim, sem barðist fyrir því. Jeg sje, að hv. þm. (IP) hristir höfuðið, en þetta er nú samt satt, og það er eftirtektarvert, að frá þessum mönnum sjálfum skuli einmitt fyrst koma í ljós ljónin á veginum, þegar þessi breyting á reikningsárinu er fengin. Jeg býst þó við, að allshn. athugi þetta um frestina til 3. umr.

Það var eitt atriði, sem jeg gleymdi að taka fram áðan út af sýslunefndunum. í frv. er farið fram á að hækka fæðis- og ferðapeninga nefndarmanna um eina krónu á dag, úr 6 kr. í 7 kr. Þetta ákvæði hefir ekki verið haft í miklum heiðri hjá einstaka sýslunefnd. Í stað þess að fá aðeins þessa peninga, veit jeg þess dæmi, að þeir hafa fengið lögboðna fæðispeninga og svo verið borgað uppihald þeirra á meðan á fundi stendur. Verð jeg að segja, að þá er allvel borgaður starfi þeirra, ef þeir þurfa engu til að kosta nema tímatöfinni og ferðinni til og frá fundarstað. í 47. gr. frv. stendur, að ekkert gjald megi greiða úr sýslusjóði, nema heimild sje fyrir því í lögum, eða það sje ákveðið af sýslunefndinni. Jeg verð nú að segja, að mjer finst þetta atferli sumra sýslunefnda ganga nokkuð nálægt því að brjóta lögin, er sýslunefndir ákveða þessi útgjöld, þar sem skýlaus lagaákvæði eru til um þau. Jeg geri ráð fyrir, að þetta eigi sjer óvíða stað ennþá og vil taka það fram, að þetta á sjer ekki stað í Húnavatnssýslu, en það er undarlegt, ef það verður ekki dálítið smitandi, fái sumum að haldast það uppi óátalið.