01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

21. mál, fjárlög 1928

Klemens Jónsson:

Jeg verð nú að segja, að jeg varð fyrir talsverðum vonbrigðum, þegar jeg sá þær mörgu brtt., sem fjvn. hefir borið fram. Jeg verð að taka undir með hæstv. fjrh. (JÞ), að mjer virðist ekki útlit fyrir, að fjárlögin muni fara tekjuhallalaus út úr þinginu að þessu sinni. Eftir því sem mjer telst til, eru komnar fram nú þegar brtt. frá 14 þm. og nefndum, auk allra brtt. frá fjvn. sjálfri. Alls telst mjer til, að 107 brtt. sjeu fram komnar nú þegar. Má nærri geta, að eftir 3–4 daga umræður muni nokkrar hafa bæst í hópinn, enda eru 3 fram komnar á þessum fundi. Nær allar þessar brtt. fara fram á aukin útgjöld, svo að víst er, að fjárlögin verða afgr. með tekjuhalla, og honum miklum.

Jeg á enga brtt. hjer að svo stöddu, og þess vegna hefði jeg ekki þurft að standa upp; en jeg get ekki stilt mig um að fara nokkrum orðum um einstakar brtt., sem fram eru komnar, auk þess, sem jeg er knúður til að skýra frá afstöðu samgmn. gagnvart 13. gr. C. Jeg kom ekki með neina brtt. við fjárlögin í fyrra og nú hefi jeg í hyggju að koma aðeins fram með lánsheimild upp á 3000 krónur, sem jeg vænti, að fái almennan byr.

Um eitt skeið var það talin skylda fjhn. að athuga tekjuhlið fjárlaganna. Það var óeðlileg skifting á verkum, að láta fjhn. athuga tekjubálkinn, en fjvn. gjöldin, enda er þessi skifting horfin. Samt sem áður hefir það verið regla fjhn. þessi undanfarin 4 þing, sem jeg hefi átt sæti í henni, að þessu meðtöldu, að hún hefir tekið þetta til athugunar sjerstaklega; að þessu sinni hefir hún ekki gert það í heild sinni, en jeg hefi þó gert það. Og jeg get ekki sjeð betur en að tekjuáætlunin sje mjög varleg og rjettmæt, svo að jeg hefi ekki fundið ástæðu til að koma með brtt. við hana. Hygg jeg, að tekjuliðirnir sjeu svo varfærnir, sem hægt er að heimta með tilliti til þess, hve löngu fjárlögin eru samin áður en þau ganga í gildi. Fjvn. fer fram á að lækka einn tekjulið. Virðist mjer það eðlilegt og rjett og mun greiða því atkv. Annars ætla jeg að fylgja þeirri reglu, sem jeg hefi fylgt undanfarið, að reyna með mínu atkv. að stuðla að því, að sem sparlegast verði á haldið, og mun þess vegna yfir höfuð greiða atkvæði móti bitlingum og óþörfum hækkunum, sem mjer virðast. Auðvitað verður lengi álitamál, hvað er óþarft og hvað ekki, og kallar einn þarft, sem annar telur óþarft. Um það er ekki að fást. En samgöngubótum mun jeg fylgja eins og jeg sje mjer fært og eins og jeg hefi altaf verið vanur.

Þá ætla jeg að fara fáum orðum um einstakar brtt. og byrja á brtt. fjvn. Er þá fyrst 2. brtt. hennar á þskj. 233, um sendiráðið í Kaupmannahöfn, — Jeg veit, að öllum háttv. þm. er það kunnugt, að frá því fyrsta hefi jeg verið mjög mótfallinn að hafa sjerstakan sendiherra í Danmörku. Jeg álít, að sá maður, sem hafði forstöðu skrifstofunnar á hendi áður fyr, sje fullfær til að inna þessi störf af hendi. En úr því að fjárveiting var tekin upp í fyrra samkv. lögum og þetta er lögfest embætti, þá verð jeg fyrir mitt leyti að segja, að jeg tel alveg óforsvaranlegt, að næsta þing, skipað að mestu sömu mönnum, fari að rifta því. Jeg skal ekki fullyrða um, hvort hægt sje að svifta sendiherrann stöðunni eftir eitt ár, en hitt veit jeg, að það er óforsvaranlegt og ósamboðið landinu að vera að flækja honum milli landa ár frá ári. Jeg get ekki skilið annað en sendiherrann eigi fullkominn rjett til skaðabóta af þinginu, ef hann er sviftur þeirri stöðu, sem hann var skipaður í í fyrra. Hann hlýtur að verða fyrir stórtjóni, ekki einungis við að flytja milli landa með fjölskyldu sína, heldur líka — og ekki síður — fyrir það, að hann varð að láta af hendi málaflutningsembætti og ýms trúnaðarstörf. En það vita allir, hversu erfitt er að ná aftur öllu slíku, sem maður hefir einu sinni mist.

Jeg get ekki sjeð, að þessi brtt. sje á fullum rökum bygð. Og þótt skoðun mín á þessum málum sje í aðalatriðum sú sama og verið hefir, get jeg ekki lagt brtt. liðsinni.

Viðvíkjandi 5. brtt. nefndarinnar skal jeg geta þess, að mjer blöskrar alveg skrifstofukostnaður sýslumanna, og býst jeg við, að svo fari fleirum hjer í hv. deild. Jeg veit af eigin reynslu, að starfið er mikið, en útgjöldin frá ríkissjóði hafa aukist gífurlega mikið. Eitt embætti, sem jeg hefi gegnt og hafði hæst 6 þús. kr. tekjur af og borgaði þar af allan skrifstofukostnað, það þarf nú í laun og skrifstofukostnað fullar 30 þús. kr., auk bæjarstjóraembættis á Akureyri, sem jeg veit ekki, hvað kostar mikið. Jeg vildi óska, að nefndin hefði sjeð sjer fært að færa þennan lið lengra niður en hún hefir gert. Jeg býst við, að hæstv. stjórn þyki nóg um þennan skrifstofukostnað og vil skjóta því til hennar að skrifa bak við eyrað, hvort henni þyki ekki lengra farið en rjett er.

Hv. frsm. tók í einu liðina 8–10, um laun starfsmanna á Vífilsstöðum, Kleppi og Laugarnesi, og tók þar fram rjettilega, að þar er gífurlega mikill munur á launum einstakra starfsmanna og full ástæða að athuga það. En hinsvegar hefði jeg getað búist við að nefndin sæi sjer fært að færa niður kaupið meira en hún hefir gert. Hv. frsm. tók þó fram, að hann byggist samt sem áður við, að þessi laun mundu ekki þurfa að vera eins mikil 1928, og vildi jeg óska, að það væri rjett mælt. Jeg vænti þess vegna, að hæstv. stjórn gefi þessari bendingu háttv. fjvn. gaum og reyni að lækka kaupið, eða að minsta kosti að samræma það betur.

Jeg ætla svo ekki að fara frekari orðum um brtt. nefndarinnar, en kem þá að 13. gr. C. Jeg verð viðvíkjandi henni að taka fram, að samgmn. hefir ekki haft þá aðstöðu enn, að hún hafi sjeð sjer fært að koma fram með brtt. við frv. við 2. umr., en hún býst við að gera það við 3. umr., og hefir það verið svo oft áður um fjárlagafrv., að till. samgmn. hafa beðið til 3. umr.

Þá langar mig til þess að minnast á einstöku brtt. frá hv. þingmönnum. Er þá fyrst brtt. á þskj. 284, sem er fyrsta brtt. (um skólagjöld). Jeg mundi hafa greitt þessari brtt. atkv., en þar sem hún hefir nú verið tekin aftur, þá verður að sleppa því. Þetta mál lá fyrir fjhn. í fyrra og einstakir menn í nefndinni báru fram brtt. um, að skólagjöld fjellu niður. Býst jeg við, að þeir hinir sömu menn hafi sömu skoðun nú, því þetta gjald kemur órjettlátlega niður, sjerstaklega á kaupstaðarbúa.

Þá er brtt. frá hv. 1. þm. Reykv. (JakM) undir tölul. III. Þessi brtt. fer ekki fram á nein aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, heldur að láta falla niður vexti og afborganir af láni Jóns Kristjánssonar læknis. Þessa till. styð jeg. Hæstv. stjórn hefir sýnt það með því að taka mann þennan upp í fjárlagafrv., og hv. fjvn. samþykt það með þögn sinni, hversu mikils hún metur starf hans. Nú sem stendur er erfitt að fá greidd læknisgjöld, og þar sem þessi maður hefir mjög stóra fjölskyldu, á hann við fremur bágan hag að búa, og því álít jeg rjett, að honum sje veitt þessi ívilnun. Vænti jeg, að hv. 1. þm. Reykv. tali betur fyrir þessari till.

VI. og VII. brtt. hafa, ef fram ná að ganga, talsverðan aukinn kostnað í för með sjer til vegabóta (Vesturlandsvegur og Þelamerkurvegur). Fari svo, að fjárlögin eigi að afgreiða frá Alþingi með miklum tekjuhalla, þá vil jeg heldur, að það stafi af fjárframlögum til samgöngubóta en einhverju öðru. Jeg á altaf bágt með að greiða atkvæði á móti samgöngubótum, en þótt jeg treystist varla til að ljá þessum brtt. lið, þá eru þær þó að mínum dómi betri heldur en allskonar óþarfi, sem kominn er inn í brtt. við fjárlagafrv.

Hvað VIII. brtt., frá hv. 2. þm. Árn. (JörB), snertir, þá verð jeg að segja eins og hann, að mjer er það óskiljanlegt, hvers vegna stjórnin fór að sleppa þessari litlu fjárveitingu úr frv. Jeg hygg, að það muni vera rjett, að hæstv. atvrh. (MG) hafi skotist yfir hana í ógáti. Tel því sjálfsagt, að hún verði samþykt.