01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

21. mál, fjárlög 1928

Magnús Torfason:

Jeg bjóst ekki við því að þurfa að taka til máls, en mjer hafa svo mjög þótt stangast rökin hjer í hv. deild, að jeg sje mjer ekki fært að sitja hjá, þar sem fjvn. fær rokna skammir hjá hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. 1. þm. Rang. (KIJ) fyrir það að hafa gengið illa frá fjárlagafrv.

Þegar litið er á brtt. fjvn., þá nema hækkunartill. um 200 þús. kr., en lækkunartill. um 90 þús. kr., svo að jeg hygg, að ekki sje hægt að segja, að nefndin hafi verið „flott“ á fjenu. Vitanlega koma altaf frá einstökum þm., og sjerstaklega þeim, sem ekki eru í flokki stjórnarinnar, ýmislegar fjárbeiðnir, og er það eðlilegt. Allar þær fjárbeiðnir, er nefndinni bárust, voru athugaðar, en þeim var fæstum sint. Og jeg verð að segja það hjer, að jeg mundi blygðast mín fyrir störf fjvn. — ekki fyrir það, að hún hafi veitt of mikið fje, heldur fyrir hitt, að hún hafi gengið of skamt í því að veita fje — ef fjárhagsútlitið væri ekki jafnljótt og nú er. Jeg verð líka að segja það, út af þeim orðum, sem hjer hafa fallið, að það fer að verða óþarfi að vera með nokkurt fjárlagafrv., ef fjvn. má ekki gera svo mikið sem hækka það um. 100 þús. krónur, eða um 1%. Jeg hafði því búist við, að hnútur þær, sem nefndin fengi, yrðu fyrir það, að hún hefði gengið of skamt, en ekki of langt. Og þó eru þeir sömu menn, er hnýta í hana fyrir bruðlunarsemi, á móti sparnaðartil. hennar, en vilja styðja hækkunartill., eins og fram er komið.