01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

21. mál, fjárlög 1928

Ólafur Thors:

Á síðasta þingi sendi sjávarútvegsnefnd Nd. atvinnumálaráðherra áskorun um það að láta rannsaka loftskeytamerki sem siglingaleiðbeiningar. Tók ráðuneytið vel í þessa málaleitan og fór vitamálastjóri utan til þess að kynna sjer þetta mál. Síðan gaf hann ráðuneytinu skýrslu um för sína og rannsóknir, og hefir nú sent sjútvn. afrit af skýrslunni. Fróðleikur minn um þetta málefni er að miklu leyti fenginn þaðan.

Mjer þykir nú hlýða að gera örstutta grein fyrir því, hvernig radiomerki eru nú notuð í þágu siglinganna. Á landi eru settar stöðvar, er senda út radiohljóðmerki, en slík merki ná ekki mannlegu eyra. Hinsvegar hafa verið fundin upp tæki, er breyta merkjunum, svo að hægt er að heyra þau. Með þessum tækjum er þó ekki hægt að ákveða stefnu hljóðgjafans, en til þess hafa verið fundin önnur tæki, svo að nú er hægt frá skipum, er slíkum tækjum eru búin, að ákveða stefnuna til þess staðar á landi, er radiomerkið er sent frá. Heyrist frá skipi til tveggja slíkra landstöðva, er auðvelt að ákveða nákvæmlega, hvar skipið er statt, nefnilega í skurðarpunkti stefnu línanna til landstöðvanna.

Það liggur alveg í augum uppi, hve þýðingarmiklar eru þessar framfarir. Með þeim eru þeir erfiðleikar, er þoka og dimmviðri valda, að velli lagðir. Þessar miðunarstöðvar eru nú af sumum álitnar öruggari og betri í dimmu veðri heldur en ljósvitar í björtu veðri, því radiogeislarnir ná yfir miklu stærra svæði heldur en nokkrir ljósgeislar frá venjulegum vitum. Enda hefir uppgötvun þessi náð viðurkenningu sjerfróðra manna um allan heim.

Það getur nú ekki orkað tvímælis, að eftir því sem miðunarstöðvum fjölgar á landi, fjölgar og þeim skipum, sem miðunartæki hafa. Og kunnugir menn spá því, að innan fárra ára muni það verða sárfá skip, er ekki hafa miðunartæki, enda verði þau þá talin jafnnauðsynleg og áttaviti. Þessi miðunartæki kosta nú 2500 krónur. Má vænta þess, að áður en langt líður verði þau miklu ódýrari, fyrir nýjar uppfinningar á þessu sviði.

Með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp örfá orð úr skýrslu vitamálastjóra:

„Jeg þykist viss um, að með því móti fáist sú besta trygging, sem nú er kostur á, fyrir líf sjómanna og skip þeirra, meiri trygging fyrir sjómennina en nokkrum manni fyrir 10–15 árum datt í hug, að hægt væri að ná. Það mun nú vera hægt með því móti að hafa radiovita á Dyrhólaey og Ingólfshöfða að byrgja alveg fyrir hina hættulegu Meðallandsbugt, og það alveg hvernig sem viðrar. Þokan verður aldrei það dimm, hríð ekki það svört, að radiogeislarnir fari ekki sína leið og segi til landsins. Og að því mun koma innan margra ára, að radioáttavitinn verði talinn jafnsjálfsagt áhald í hverju skipi eins og segulmagnsáttavitinn og önnur þau tæki, sem nú eru lögboðin —“.

Og vitamálastjóri er í þessu efni í samræmi við sjerfræðinga annara þjóða, enda líka bera framkvæmdir margra erlendra þjóða vott um það.

Danir hafa nú þegar reist radiovita, og nú er í ráði, að þeir komi á í sambandi við Englendinga og Þjóðverja fullkomnu radiovitakerfi. Þó eru Frakkar og Bandaríkjamenn komnir lengst áleiðis á þessu sviði. Þannig hafa þá menningarþjóðirnar viðurkent nauðsyn þessa máls. En ef öðrum þjóðum er það nauðsyn, þá er það okkur nauðsyn ekki síður, og miklu fremur, þar sem okkar strandlengja er miklu ver ljósvitum búin en nokkur önnur í menningarlöndum, og mörgum hættulegri.

Þetta hefir vitamálastjóri skilið til fulls og lagt ríka áherslu á, að áður en mörg ár líði, verði komið upp radiovitakerfi kringum strendur landsins. Hann telur, að með 14 slíkum vitum verði öll ströndin umlukt radiogeislum, svo að skip, sem búið er slíkum miðunartækjum, geti náð sambandi við eina stöð að minsta kosti — en venjulega tvær eða þrjár — í 35 sjómílna fjarlægð.

Þarf ekki að orðlengja það, hver fengur siglingunum er að slíku. Jeg þori að fullyrða, að ströndin mundu að mestu falla úr sögunni, ef radiovitar kæmust upp, en þau eru, sem kunnugt er, geigvænlega tíð. Mundi við það sparast stórfje, farmur og skip varðveitast frá glötun, og svo öll mannslífin, sem ekki verða metin til fjár.

Vitamálastjóri áætlar stofnkostnaðinn allan 300 þús. kr.

Rekstrarkostnaðurinn er mjög smávægilegur. Er ljett verk og vandalaust að gæta vitanna. Er svo til ætlast, að þeir sendi merki í 10 mínútur hvern klukkutíma að jafnaði, en gangi að staðaldri, ef þoka er. Hann telur meðferð þeirra alla auðvelda og vitavörðum ekki ofætlun að annast hana, gegn aukaþóknun vitanlega. Hann telur svo að vísu, að sjerfræðing þurfi til að ferðast um og líta eftir tækjunum 1–2 sinnum á ári, en fyrst um sinn megi koma því í samband við landssímaeftirlitið, meðan radiovitakerfið er ekki orðið svo umfangsmikið, að fult verksvið sje fyrir einn mann.

Sjútvn. hefir lagt til, að veittar yrðu 75 þús. kr. til 3 radiovita á Suðurlandi og Vesturlandi, og á Austurlandi (en það hefir fallið burt í till.), er reistir verði á árinu 1928. En þó er vitamálastjóra ætlað að ákveða það nánar. Hefir nefndin hugsað sjer vitana setta, einn á Kambanes á Austurlandi, annan á Dyrhólaey á Suðurlandi og þriðja á Göltinn á Vesturlandi.

Jeg vil leyfa mjer að vekja athygli hv. þdm. á því, að í fjárlagafrv. stjórnarinnar eru tekjur af vitamálum áætlaðar 300 þús. kr., en útgjöld 244 þús. Af þeim útgjöldum leggur fjvn. til að skera niður 70 þús. kr., lækka þau með öðrum orðum niður í 174 þús. kr., og ætlast til ágóða af þessum lið, sem nemur 126 þús. kr. En hann verður meiri, því að reynslan sýnir, að tekjur af vitum verða jafnan meiri en áætlað er. Jeg ætla ekki nú að orðlengja um þetta tiltæki hv. fjvn.

Í mínum augum er það alveg ósæmilegt, að við, sem búum í eylandi og lifum á sjónum og af sjónum, þ. e. sjávarútvegi, gerum vitana að tekjulind, jafnframt því sem við viðurkennum, að vitakerfi okkar sje mjög ábótavant. Og jeg hefi góða samvisku af því að gera þá kröfu, að þegar í stað verði fallið frá þeirri stefnu. Leyfi jeg mjer að vænta þess, að hv. þingdeild viðurkenni þá kröfu og bæti fyrir brot hv. fjvn. með því að samþykkja þessa till. frá sjútvn.