01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

21. mál, fjárlög 1928

Sigurjón Jónsson:

Jeg ætla aðeins að segja nokkur orð út af orðum, sem fjellu hjá hæstv. atvrh. (MG). Hann tók vel undir till. sjútvn. um radiovita, en fanst hinsvegar, að ekki næði nokk urri átt að veita bæði fje til radiovita og vita þess, sem hv. fjvn. hefir lagt til, að væri feldur niður, nefnilega vitans á Horni, því að þá myndu útgjöldin fyrir árið 1928 verða meiri en tekjurnar af vitunum. Á síðustu árum mun jafnan hafa verið tekin hliðsjón af því, hvað vitarnir gefa í aðra hönd, og jeg get fyrir mitt leyti sætt mig við það, en jeg get alls ekki sætt mig við það, að ekki sje varið jafnmiklu til vitakerfisins eins og það gefur ríkissjóði í tekjur. Eins og tekið hefir verið fram hjer í kvöld, er framlag ríkissjóðs til vitanna áætlað 245 þús. krónur, en tekjurnar af þeim hinsvegar áætlaðar 300 þús. krónur. Þar munar þá 55 þús., sem tekjumar eru hærri en gjöldin. Á landsreikningi fyrir árið 1925 má sjá, að tekjur af vitunum hafa numið 392 þús. kr. og árið sem leið munu þær hafa orðið yfir 300 þús. kr., 330–340 þús., eftir því sem jeg best veit. Svo þótt bæði Hornvitinn og radiovitarnir verði bygðir, ættu útgjöld ríkissjóðs ekki að fara fram úr tekjum af vitunum. Og þó að gera megi ráð fyrir, að þessir radiovitar verði eitthvað dýrari í rekstri, er ekki líklegt, að útgjöldin fari fram úr tekjunum af vitakerfinu.

Til árjettingar því, sem hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sagði um það, að til vitanna ætti að verja eigi minna en þeir gefa í aðra hönd, er gaman að athuga, hvað landið hefir lagt til vitanna á síðustu árum, og til samanburðar, hvað þeir hafa gefið ríkissjóði í aðra hönd. Á tímabilinu frá 1914–1925 hefir ríkissjóður lagt til vitanna 137 þús. krónum meira en vitagjöldin hafa gefið ríkissjóði í tekjur. En á hitt er að líta, að eignir vitakerfisins eru nú metnar á 1110900 krónur, og þetta er alt eign ríkissjóðs. Ef athugað er frá byrjun, frá því að vitagjöldum var fyrst komið á hjer, verður mismunurinn sá, að ríkið hefir alls lagt fram ca. 187 þús. krónum meira en vitagjöldin hafa numið. Og það er vitanlega ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að ríkissjóður leggi meira til þessa en tekjurnar nema meðan vitakerfið er svo ófullkomið eins og það er enn. Hitt er ekki nema sjálfsagt, að ríkissjóður fái samsvarandi tekjur, þegar þessum málum hefir verið komið í gott horf. — Hvað snertir till. hv. fjvn. um það að fella niður byggingu Hornvitans, þá verð jeg að segja það, að mjer þykir einkennileg sú grein í nál. Hv. nefnd kemst að þeirri niðurstöðu, að einhverjum framkvæmdum verði að fresta, og þá finst henni sjálfsagt að láta það koma þarna niður. Til samanburðar má benda á, hve mikil upphæð er árlega lögð til samgangna á landi. Það er auðvitað gott og nauðsynlegt, ef ríkissjóði er það ekki um megn. En það má ekki vera gert á kostnað annara umbóta, sem skylt er að gera, ekki aðeins vegna skipaflota okkar, heldur vegna allra siglinga til og frá landinu.