01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það liggur nærri, að jeg geti fallið frá orðinu; það er svo lítið, sem jeg þarf að svara. Mjer þykir þó vöntun, að hæstv. stjórn skuli ekki vera hjer viðstödd, því að jeg þurfti að víkja til hennar örfáum orðum. Hæstv. forsrh. (JÞ), sem mest hefir um þetta mál að segja, kvaðst að vísu virða þá viðleitni nefndarinnar að vilja skila tekjuhallalitlum fjárlögum. En hann gat þess þó jafnframt til, að hækkunartill. nefndarinnar mundu verða samþyktar, en lækkunartillögur hennar feldar. Mjer kom þetta talsvert á óvart. Mjer fanst í þessum orðum hæstv. ráðh. liggja óbein yfirlýsing þess, að svona ætlaðist hann til, að farið yrði með till. nefndarinnar.

Jeg skal fyrst minnast á liðinn til ríkisráðsritarans, sem nefndin hefir lagt til, að yrði lækkaður um 2000 krónur. Það hefir verið upplýst, að sá maður hafi með höndum einhver störf við íslensku orðuna. Nefndin veit ekki, hve mikil störf þar er um að ræða, en hjer er nefnd, sem fjallar um þetta sama, svo að varla getur verið um ýkjamikil störf að ræða, sem þessi maður hefir á hendi vegna orðunnar. Nefndin getur því ekki fallist á, að þetta sje sönnun þess, að hjer sje farið fram á of mikla niðurfærslu. Hitt vita allir, að sem ríkisráðsritari hefir maðurinn lítið að gera.

Þá taldi hæstv. ráðh. (JJ), að kostnaður við hæstarjett væri færður of mikið niður. Nefndin leit svo á, að þessum manni, sem um er að ræða, mundi fljótlega verða fengið embætti; annars mundi hún ekki átelja, þó að einhver umframgreiðsla yrði að fara þarna fram. — Jeg get ekki verið að fara út í fleira, sem hæstv. ráðh. mintist á, af því að hann er ekki viðstaddur.

Skal jeg nú drepa á fáein atriði frá öðrum hv. þm. Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) talaði um hækkun á tillagi til Þelamerkurbrautar. Hann færði fram þá ástæðu, að ef unnið væri fyrir aðeins 10 þúsund, mundi nýi vegurinn enda í ófæru og kæmi því ekki að fullum notum. Jeg hefi átt tal um þetta við vegamálastjóra. Hann sagðist ekki geta sett sig á móti því, að þarna væri unnið frekar, en taldi ekki líklegt, að hægt yrði að vinna vorvinnu fyrir svona mikið fje. En ef horfið væri að því ráði að hafa þarna flokk manna yfir sláttinn, væri vafasamt, að menn fengjust, enda sú vinna dýr. Hann sagðist ætlast til, að þessi vegur yrði fullgerður 1929, og einnig brú yfir Bægisá. Nefndin lagði á móti þessari hækkun, fyrst og fremst vegna álits vegamálastjóra og svo vegna þess, að hún hafði hugsað sjer að takmarka sem mest fjárveitingar, sem þyldu bið.

Hv. þm. Barð. (HK) tók sína till. aftur, og þarf jeg því ekki að svara honum. Hv. 2. þm. Árn. (JörB) þarf jeg ekki að svara heldur. Nefndin hefir óbundin atkvæði um till. hans um ferju á Hrosshyl.

Hv. þm. Ak. (BL) hefir flutt till. um greiðslu til Jóns Kristjánssonar veitingamanns á Akureyri, til að bæta honum skaða, er hann beið vegna sóttvarnarráðstafana. Þessi styrkbeiðni hefir legið fyrir tveimur undanförnum þingum, en fjvn. hefir jafnan verið á móti. Henni virðist óhugsandi, að þingið geti tekið að sjer að bæta mönnum svona skaða. Það hefir að vísu áður verið samþykt samskonar styrkbeiðni, en sú beiðni var ekki samþ. með atkv. fjárveitinganefndar. Það var deildin, sem rjeði. Nefndin hefir því enn lagst á móti þessari till.

Hv. 1. þm. Rang. (KIJ) er því miður ekki viðstaddur. En það væri ástæða til að þakka honum fyrir hönd nefndarinnar ummæli hans í hennar garð. Hann hefir líka oft áður viljað fylgja nefndinni í því að takmarka útgjöldin. Honum þótti það helst á skorta, að nefndin hefði sumstaðar gengið of skamt í lækkunaráttina, og nefndi til þess skrifstofukostnað sýslumanna og laun starfsmanna við spítalana. Nefndinni þótti ekki fært að lækka skrifstofukostnaðinn meira, því að störfin hafa farið vaxandi, sem þar koma til greina. Að því er snertir síðara atriðið hefir stjórnin lofað að taka í taumana, og þarf því ekki fleiri orð um það.

Hv. þm. Dal. (JG) á hjer till. um að ríkissjóður leggi fje til Vesturlandsvegar. Þetta hefir áður legið fyrir þinginu og verið felt. Jeg hefi leitað álits vegamálastjóra um þetta enn að nýju, og voru ummæli hans á þá leið, að hann gæti ekki álitið þetta tímabært mál. Það hefir ekki enn verið ákveðið, hvar vegur þessi skuli liggja, og engin kostnaðaráætlun gerð, Vegamálastjóri kvaðst fyrst og fremst verða að leggja áherslu á að koma Norðurlandsveginum áleiðis og ekki geta mælt með þessari fjárveitingu að svo stöddu.

Þá kem jeg að hv. 2. þm. G.-K. Hann átaldi nefndina mjög fyrir að leggja til að fresta byggingu Hornstrandavitans. Um leið og hann upplýsti, hver nauðsyn væri á að fá þessa radiovita, taldi hann sjálfsagt, að ljósvitarnir yrðu bygðir eins og fyrirhugað hefði verið. Nefndin hefir ekki haft tækifæri til að setja sig vel inn í þetta mál eða leita umsagnar vitamálastjóra. En henni hafði dottið í hug, að ljósvitarnir hefðu ekki eins mikla þýðingu eftir að radiokerfið væri komið á. Hv. sjútvn. hefir ekki getað gefið nefndinni neina ábyggilega fræðslu í þessu efni, svo varla er hægt að segja, að fjvn. sje mjög ásökunarverð fyrir þessa till. Hún er ekki borin fram í þeim tilgangi að gera sjútvn. eitthvað til miska, en þar sem taka varð það ráð að fresta framkvæmdum svo sem hægt væri, varð einhversstaðar að bera niður. Það kom til mála, að nefndin færi miklu lengra í frestunaráttina, ef þingið samþ. mjög mikil útgjöld, því að fjárlögin má ekki afgreiða með miklum tekjuhalla. En þar sem nefndin virðist nú ekki mega vænta stuðnings stjórnarinnar í þessu efni, er eðlilegt, að menn hugsi og tali um, hvort ekki sje rjettast að sleppa öllu lausu.

Að því er snertir till. sjútvn. um radiovita gat nefndin ekki annað, að órannsökuðu máli, en lagt á móti þeim. En hún vill gjarnan sýna samvinnu í þessu efni, ef sjútvn. vill koma og leita samkomulags.

Hæstv. atvrh. (MG) tók yfirleitt vel í till. nefndarinnar. Hann kvaðst mundu leitast við að færa niður kaup verkafólks við spítalana, en gat þess þó, að sum störfin væru ekki oflaunuð, og nefndi í því sambandi þvottakonur. En þeirra laun munu vera tiltölulega rýrust. Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) sagði, að fólk fengist ekki til þessara starfa nema fyrir hátt kaup. En það má benda á, að hjúkrunarkonulaun á Vífilsstöðum eru 3000 kr., en ekki nema 2400 á Kleppi, og er þó víst ekki ljettara starfið á Kleppi en Vífilsstöðum. Að minsta kosti hefir læknirinn á Kleppi sagt, að hvergi væri verra að vera starfsmaður í þessari grein en þar. — Jeg held jeg þurfi ekki að víkja að ræðu háttv. 1. þm. Reykv. að öðru leyti. Viðvíkjandi till. hans um liðinn til Jóns Kristjánssonar skal jeg láta þess getið, að meiri hl. fjvn. hefir tjáð sig þar á móti.

Jeg held jeg hafi þá svarað flestu, sem sjerstaklega var ástæða til.

Jeg skal geta þess, að nefndin hafði gleymt að bera fram till. um eftirgjöf á láni til sjúkraskýlis á Þórshöfn, en það verður gert við 3. umr.

Jeg býst ekki við, að mjer gefist frekara tilefni til andmæla, og vænti þess, að atkvæðagreiðsla geti farið fram sem fyrst.